03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Magnús Torfason:

Þetta mál horfir dálítið öðruvísi við eftir að jeg heyrði nú á síðasta ræðumanni, að þessi hreppstjóri á Akranesi er hugsaður sem samgöngubót hjeraðsins. Jeg gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo. Og auðvitað hjálpar það til þess, að maður lítur á þetta frv. með talsvert betri augum. En út af því, sem sagt hefir verið, get jeg ekki annað fundið en umr. hafi sýnt, að málið hefði þurft að hugsa miklu betur.

Það skiftir auðvitað ekki máli, hvort sagt er, að þetta frv. sje til þess að auka vald hreppstjóra eða til þess að afnema hreppstjóra og setja löreglustjóra í staðinn, — takmarkið er það sama, hvað sem maður kallar það, og skal jeg ekki um það deila. En jeg hefi þá skoðun um slík nýmæli, að það sje miklu ljettara að gera breyt. í sambandi við þá lagabálka, sem fjalla um málið, á þann hátt, að taka þá til athugunar í heild. Þá stendur alt miklu gleggra fyrir mönnum, hvað á að laga og á hvern hátt það verður best lagað. Meginatriðið í þessu frv. er það, að lögreglustjóri á að vera lögfræðingur. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg efast um, að embættisgengur lögfræðingur fengist til þess að fara upp á Akranes og taka að sjer starfið fyrir þetta kaup. (MG: Hvaða kaup?). Á hann ekki að hafa 2 þús. úr ríkissjóði? (MG: Jú, en svo fær hann laun frá hreppnum). Já, hann á að fá eitthvað í viðbót fyrir annað starf. En þó að einhverju væri bætt við, verð jeg að halda því fram, að það sje óvíst, að í embættið fengist sæmilega nýtur embættisgengur lögfræðingur. Stefnan er sú, að fá aðkominn mann í starfið, en ekki veita það sem aukastarf, og er þá ljóst, að þetta á að vera aðalatvinna fyrir manninn. Og þá verð jeg að segja, að launin eru nokkuð lítil.

Mjer þykir gott að heyra, að laun oddvita eigi að borga úr sveitarsjóði. Og það getur sjálfsagt nægt, að slík yfirlýsing komi fram í þd. En jeg tel rjettara fyrir n. að færa þetta til betra máls fyrir 3. umr. Því að jeg get ómögulega sjeð, hvað ríkisstj. hefir að gera með samninga á milli lögreglustjóra og hreppsnefndar, úr því að hún á ekkert þar að borga. En þó er endir þessarar greinar svo einkennilega orðaður, að það er eins og það þurfi ekki að semja við lögreglustjóra; hann á hvergi að koma nærri samningunum um sín eigin laun.

Um stefnu frv. hefi jeg lýst yfir því, að jeg hefi ekkert á móti henni. Og jeg get vitnað til þess, að jeg hefi hjer í skúffunni frv. um launabætur fyrir hreppstjóra, en hefi ekki sjeð mjer fært að koma með það á þessu þingi. Jeg lít svo á, að um leið og sú umbót væri gerð, væri sjálfsagt að taka hreppstjórnarlöggjöfina til gagngerðrar endurskoðunar og breytingar. Lífið er orðið svo margbrotið, að það nær ekki nokkurri átt að ónáða lögreglustjóra með öllum þeim smámunum, sem þeir komust til að sinna í gamla daga.

Jeg skal ekki þreyta kapp um þetta að svo stöddu, en geymi mjer rjett til að koma að því aftur við 3. umr.

Hv. frsm. get jeg frætt á því, að það eru ekki forsetar, sem ákveða dagskrá, heldur forseti í viðkomandi deild. Þetta hefði hann átt að vita, en ekki að fara að leita kenslu hjá mjer um það.