09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

0049Gunnar Sigurðsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál fyrir brtt. minni. Hv. frsm. sagði, að í henni fælist lítil efnisbreyting. Það má vera, að hún sje ekki mikil, en þó er hún heldur til bóta.

Mjer sýnist óheppilegt, að þingið skuli hafa gengið inn á þá braut að leggja lántökuábyrgð á hreppsnefndir. Jeg tel trygginguna næga án þess, þegar aðeins er miðað við helming veðsins með verðlagsskrárverði.

Það mun nú óalgengt, að bændur felli fje fyrir fóðurskort. Hinsvegar var það misskilningur hjá hv. þm. S.-Þ., að jeg væri að amast við fóðurbirgðafjelögum. Jeg er aðeins á móti því, að þau sjeu gerð að skilyrði fyrir lánveitingu.

Þó að brtt. mín verði samþ., getur bankastjórnin heimtað, að lántakandi sje í fóðurbirgðafjelagi, ef henni þykir ástæða til. Og hún myndi líklega gera það í mörgum tilfellum, þó að eigi sje hún skylduð til þess undantekningarlaust.