12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Halldór Stefánsson:

Háttv. frsm. minni hl. og fylgismenn hans hafa haldið því fram, að þeim þætti óviðkunnanlegt að veita þeim þurfamönnum kosningarrjett, sem sökum leti eða ómensku hefðu orðið styrkþegar. Þetta þarf alls ekki að vera svo eftir frv., því að í 2. tölulið 1. gr. er það gert að skilyrði fyrir kosningarrjettinum, að menn sjeu fjár síns ráðandi. En eins og kunnugt er, hafa sveitarstjórnir vald til þess að taka fjárráð af þurfamönnum, ef þess gerist þörf, en í slíku tilfelli sem þessu má það teljast beinlínis rjett og nauðsynlegt, því að þeir menn, sem sannanlegt er um, að verði annara byrði sakir leti og ómensku, eiga sannarlega ekki að hafa fjárráð sín sjálfir.