15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Dal. mælti hjer fáein orð áðan og var ákaflega glaður í sínu hjarta yfir því, að hafa fengið einskonar reisupassa frá tveim íhaldsmönnum og hæstv. forseta þessarar deildar, sem voru honum sammála og vildu ekki yfirgefa hann á neyðarstund. Það mun hv. þm. Dal. sanna, að þegar honum verður litið úr þessari pólitísku einveru sinni, þá nýtur hann hjartagæsku og vorkunnsemi, þegar hann getur rofið hana með því að biðja vini sína og velgerðamenn að leggja sjer liðsyrði á hátíðlegum augnablikum. Þegar þessi hv. þm. er nú kominn í þetta niðurlægingarástand, þá er hann búinn að vera. Hann fjell við landskjörið, var hryggbrotinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu, fjell einu sinni í Dölunum og var rjett fallinn þar aftur, er fallinn í áliti, og svo eru þessi dauðans vandræði með blessað blaðið hans, sem sýgur brjóstamjólk dönsku mömmu og er gefið út fyrir hana. Honum setti að skiljast það nú, þessum hv. þm., þegar hann lítur yfir landið sitt og þjóðina sína, að hann á sjer ekki framar viðreisnar von og er altaf að falla dýpra og dýpra. Þessi hrakti og hrjáði maður gæti eflaust samið heila bók um sinn raunalega æfiferil, einskonar pólitíska „Glæsimensku“. Hann hefir til þess efnið, hvað sem líður ritsnildinni.

Þá hafa báðir þm. Skagf. reynt að berja í brestina fyrir framkomu sína í frystihúsmálinu. En ekki hefi jeg gert mig sekan í því sama og sá yngri þeirra, sem sje að draga fjelagsmenn frá Kaupfjelagi Skagfirðinga, en það gerði hann.

Mjer þótti það satt að segja merkilegt, að málfærslumaður og skuldainnheimtumaður eins og hv. 1. þm. Skagf. skuli ekki vera betur að sjer en svo í formum viðskiftalífsins, að hann lætur fylgismenn sína í Skagafirði, sem voru nú að möndla með þessa vitlausu viðbót við kælihúsið, ekki senda skeyti til stjórnarráðsins, heldur bara gera orð. Þeir gerðu orð með manni, sem þeim var í rauninni bölvanlega við, til annars manns, sem engin afskifti gat haft af málinu og sem þeim kumpánum var enn ver við, og ætluðust svo til þess, eftir að þeir voru búnir að rífast aftur og fram heima í hjeraði, að landið færi að lána Sláturfjelaginu í óþarft hús. Nú er það vitað, að sýslunefnd Skagafjarðarsýslu ætlaði að kúga bændur í sýslunni til þess að ganga undir ok braskara á Sauðárkróki, en síðasta Alþingi breytti skilyrðum fyrir lánveitingum, svo að vjelráðum kaupmannasinna varð ekki fram komið. Kjörin eru nú orðin svo góð, að það ætti ekki að vera neinn vandi fyrir hv. 1. þm. Skagf. að ná í þessa aura, sem á vantar, með láni, t. d. hjá Shell. Ef íslenska Shell gæti það ekki, þá ætti enska Shell að hafa einhver ráð með það. Formaðurinn, sem að vísu gat ekki lagt fram nema 2 þús. kr. í hlutafje, en drotnar þó yfir öllu fjelaginu, ætti nú að vera sínum elskulegu kjósendum innan handar í þessu máli.

Hv. 2. þm. Skagf. fór að lýsa þessu margbrotna fjelagslífi í Skagafirðinum. Verslunarfjelögin eru þar eiginlega 4, Kaupfjelag Skagfirðinga, Sláturfjelagið, Frystihúsfjelagið og svo „Verslunarólagið“. Hv. þm. segir svo, að það geri ekkert til, þó að fjelögin sjeu 4; það sje bara betra. En hvernig er það í Eyjafirðinum? Þar er þetta öfluga samvinnufjelag, Kaupfjelag Eyfirðinga, sem er bjargvættur bænda í verslunarmálum, enda standa þeir alveg óskiftir að því. Annars er dálítið gaman að hv. 2. þm. Skagf., þegar hann var að lýsa því, hvernig íhaldsmenn í Skagafirði væru hraktir og hrjáðir í kaupfjelaginu þar. Meðan þeir voru í fjelaginu, þá voru menn alls ekki góðir við þá, segir hv. þm., og svo þegar þeir taka sig saman og stofna nýtt fjelag, Verslunarólagið, þá voru menn ekki góðir við þá heldur. Jeg vil þá segja honum það, að menn, sem haga sjer eins og hann og flokksbræður hans í Skagafirðinum, eiga það alls ekki skilið, að menn sjeu neitt góðir við þá, og það er alls ekki við því að búast. Þeir hafa leitt þetta yfir sig með sinni eigin framkomu. Þeir gátu ekki verið í Kaupfjelaginu og settu svo Verslunarólagið á stofn, en þá tók ekki betra við. Því gátu þeir þá ekki verslað við kaupmennina? Það eru víst einir 4–5 kaupmenn á Sauðárkróki, sem eru allir vinir og stuðningsmenn beggja þingmannanna, en vantraustið á þeim er víst svo mikið, að flokksbræður þeirra geta ekki notað þá. Flokkurinn ætti nú held jeg að sýna þeim meiri sóma og taka upp viðskifti við þessa úrvalsvini sína.

Vini mínum hv. þm. Barð. þarf jeg ekki mörgu að svara, því að hann tók sjálfur eftir veika punktinum í sinni röksemdafærslu. Hann hlaut líka að sjá það, að sá samningur, sem Jón heitinn Magnússon gerði árið 1921 við Magnús á Staðarfelli, hefir altaf sitt gildi. Þessi samningur sker alveg úr öllum vafa viðvíkjandi Herdísarsjóðnum, hvort hann eigi að byrja að starfa nú eða síðar. Það mundi alls ekki skifta máli, þó að Jón heitinn Magnússon sæti hjer á meðal okkar núna, hann gæti ekki upplýst þetta neitt nánar. Gerðir hans í þessu máli eru lagalega bindandi fyrir allar stjórnir hjer eftir sem hingað til. Ef samningurinn er rofinn, þá fellur jörðin aftur til baka til eigendanna, en nú er búið að borga talsverða upphæð í lífeyri til Staðarfellshjónanna úr ríkissjóði, sem þá væri alveg tapað fje. Jeg var að hugsa, að það kæmi hljóð úr horni frá hv. þm. Borgf., ef núv. stj. riftaði samningnum og ljeti þessa jörð ganga sjer úr greipum, sem einu sinni var metin á 70 þús. kr.

Hv. þm. Ísaf. beindi til mín fyrirspurn út af landsspítalanum. Jeg ætla nú að svara henni, og það því fremur, sem hjer eru staddir þeir menn úr hv. Ed., sem hafa líka óskað eftir að fá vitneskju um þetta, en sýndu þó það áhugaleysi um þessi mál, að þeir töldu það ekki ómaksins vert að fara inn að Kleppi þegar nýi spítalinn var vígður. Mjer hefði þó fundist, að þessir menn, sem þykjast hafa áhuga fyrir sjúkrahúsmálunum, hefðu gjarnan mátt líta á þetta hús, en þeim hefir víst alveg staðið á sama um, hvernig því fje var varið, sem lagt var í þann spítala.

Jeg get svarað þessari fyrirspurn á þá leið, að núv. stj. ætlast til, eins og Magnús heitinn Kristjánsson sagði hjer á þinginu í fyrra, að aðalbyggingin verði tilbúin eftir 1 ár. Alþingishátíðanefndin hefir lagt það til, að Vestur-Íslendingar fái spítalann til íbúðar á meðan þeir dvelja hjer við hátíðahöldin, og verður því nokkur hluti byggingarinnar að vera fullgerður næsta vor. Það, sem þá er eftir, en með þarf til að geta hafið einhverja starfrækslu, verður þá fullgert um sumarið eða haustið, og eftir öllu útliti að dæma ætti spítalinn að geta tekið til starfa haustið 1930. Hitt er annað mál, að landsspítalinn verður lengi að stækka, honum er ætluð geysistór lóð og gert ráð fyrir mörgum viðaukabyggingum, en þær verða sennilega ekki allar komnar upp fyr en eftir 30–50 ár.

Hv. 1. þm. Skagf. ber kvenfólkið mjög fyrir brjósti og var gramur út af því, að því var ekki leyft að vera á þeim bletti Arnarhólstúnsins, sem sjerstaklega er verndaður. Konurnar, sem að þessu stóðu, neituðu öðrum bletti á Arnarhólstúninu, sem þeim var boðinn, en fóru til bæjarstjórnarinnar og föluðust eftir að fá túnblett, sem hún hafði til umráða. En hvað gerði íhaldsmeirihlutinn í bæjarstjórninni? Hann neitaði kvenfólkinu algerlega um þennan greiða. Hv. þm. vildi reyna að afsaka umhyggjuleysi fyrir Arnarhólstúninu, en fórst það heldur óhönduglega. Hann sagði, að ennþá væri ekki búið að koma því í gott lag, og það er alveg rjett. Tíminn er svo stuttur síðan stjórnarskiftin urðu, að það hefir ekki verið ráðrúm til þess að bæta fyrir alla vanrækslu íhaldsins, en sú litla breyt., sem orðin er á Arnarhólstúninu, er gott sýnishorn af mismuninum á störfum þeirra flokka, sem með völdin hafa farið.

Hv. 1. þm. Skagf. vildi þvo Íhaldsflokkinn hreinan af þeim löngu umr., sem hjer hafa orðið. Þetta verður dálítið broslegt, þegar litið er á það, að næstum allir þm. flokksins eru dauðir, og þessi hv. þm. hjelt sjálfur 4 tíma ræðu öllum til lítillar uppbyggingar. Flokkurinn hafði auðsjáanlega skift með sjer verkum, og eyðir svo tímanum í þetta tilgangslausa skraf, sem ekki ber annan árangur en þann, að alt er jafnóðum hrakið og rekið til baka. Eftir að hafa gert þetta, þá vilja þm. Íhaldsflokksins fá einskonar dýrð fyrir það, hvað umr. sjeu stuttar, núna þegar búið er að reka alt ofan í þá og þeir standa uppi eins og þvörur.