26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm, samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi í raun og veru fáu að bæta við nál. samgmn. Skal þó geta þess, að n. hefir ekki sjeð sjer annað fært en að leggja til, að styrkurinn til flóabátaferðanna verði hækkaður um 11500 kr. frá því, er lagt var til í fjárlfrv. hæstv. stj. Þessi upphæð var upphaflega of lágt áætluð hjá hæstv. stj., þar sem hún jafnframt því að lækka styrkinn hefir tekið einn bátinn undan og telur hann með strandferðaskipinu, og hefir þá jafnframt hækkað styrk til þessa báts (Skaftfellings) um 5000 kr. N. sjer nú ekki ástæðu til að leggja til, að þessu verði breytt. Hún viðurkennir, að það stendur sjerstaklega á með þennan bát. Hann hefir oft mjög erfiða afgreiðslu og verður stundum að bíða eftir því dögum saman, að hann geti komið vörunum á land, og stundum verður hann alveg að hverfa frá. En þetta leiðir vitanlega til þess, að reksturinn verður mun dýrari.

Þá hefir n. og orðið sammála um að hækka styrkinn til Eyjafjarðarbátsins um 2000 kr. Þessi bátur hefir nú um fjögurra ára skeið haldið uppi ferðum á Eyjafirði og til Sauðárkróks að vestan og Þórshafnar að austan. Hefir hann annast þar póstflutninga, svo að ýmsar aukapóstferðir á landi hafa verið lagðar niður. Hefir hann þannig tekið ýmsar ferðir af Esju og sparað á þann hátt fje ríkissjóðs. Þessi bátur annast nú aukapóstferðir, sem póstsjóður greiddi um 6000 kr. fyrir á ári. Esja hefir nú felt niður viðkomur á Eyjafirði og sparar á rekstri skipsins fleiri þús. kr. árlega við það. Mestu varðar þó, að hjeraðsbúar hafa margföld not bátsins á við Esjuferðirnar og aukapóstferðirnar.

Þá hefir n. og lagt til, að hækkaður yrði um 500 kr. styrkurinn til Austur- Skaftfellinga. Eins og öllum er kunnugt, er mjög erfitt um allar samgöngur þar eystra; þeir hafa ekki not af neinu skipi nema Esju, og þó ekki að haustinu. Einkum eru það þó Öræfingar, er verða illa úti. Þeir hafa ákaflega langan veg að flytja á landi og erfiðan yfirferðar. Er þeim því mikil nauðsyn á að fá vörur fluttar sjóveg á sandinn fram undan sveitinni. N. hefir því lagt til, að þessi styrkur yrði hækkaður um 500 kr.

Að öðru leyti eru styrkirnir þeir sömu og í síðustu fjárl., nema 300 kr. nýr styrkur til smábáts frá Stykkishólmi til Langeyjarness. Að vísu koma úr öllum áttum kvartanir um það, að þessar bátaferðir beri sig ekki og að nauðsynlegt sje, að styrkurinn verði hækkaður. Bera reikningar þeir, er n. hefir fengið, með sjer, að þetta er rjett. Og mörg hjeruð hafa orðið að leggja mikið á sig til að halda uppi þessum nauðsynlegu ferðum. Má þar til nefna N.-Ísafjarðarsýslu og V.-Skaftafellssýslu. Hefir sú fyrnefnda lagt stórfje í að kaupa bát. Þá hefir og Ísafjarðarkaupstaður tekið að sjer að borga allmikið af skuldum fyrir Djúpbátinn.

Þá hefir n. lagt til, að Flateyjarbáturinn fái 7000 kr. styrk, sömu upphæð og áður, og auk þess 1000 kr. til vjelakaupa. Er svo komið, að nauðsynlegt er að skifta um vjel á bátnum. Mun hún kosta um 10 þús. kr., og sá n. sjer ekki annað fært en að leggja til, að ríkið tæki nokkurn þátt í þeim kostnaði.

N. vill sjerstaklega benda á það, að nauðsynlegt er, að þeir, sem styrks njóta, sendi ferðaáætlanir, reikninga og fargjalds- og farmgjaldsskrár til atvmrn. Nefndarmenn eru ekki nógu kunnugir til þess að geta sagt um það, hve mikil nauðsyn hlutaðeigendum er á styrk, nema þeir fái þessi plögg í hendur. Vill n. beina því til ríkisstj., að hún gangi ríkt eftir því, að þessu verði framfylgt.

Þá ætlast n. til, að það sje sett sem skilyrði fyrir þessum styrkveitingum öllum, að ferðir verði ekki færri og farkostir ekki lakari en undanfarin ár. Annars verður það að vera hlutverk viðkomandi sveitarstjórna og sýslunefnda að sjá um það, að ferðunum sje hagað svo, að þær komi að sem bestum notum. Væntir n. þess, að hv. d. geti fallist á þessar till. hennar.

Þá vildi jeg víkja örfáum orðum að brtt., er jeg á við þennan fyrri hluta fjárl. Hafði jeg ekki borið neinar till. fram við 2. umr., vegna þess að mjer var ekki kunnugt um það, hvernig hv. fjvn. mundi taka í þær. Enda voru sum þau mál, er jeg ber hjer fram, ekki svo undirbúin, og vildi því fresta þeim til þessarar umr.

Það er þá fyrst brtt. XX. á þskj. 408, um að 33 þús. kr. gangi til þess að leggja símalínu frá ögri um Æðey að Sandeyri. Hefi jeg oft áður mælt fyrir þessari till. á undanförnum þingum; hafa og legið hjer frammi mikil og góð gögn um nauðsyn þessa máls, meðal annars hefir sýslunefnd N.-Ísafjarðarsýslu margoft skorað á Alþingi að leggja þessa línu. Skal jeg aðeins endurtaka fátt eitt af því, sem jeg áður hefi sagt. — Eins og allir vita, bíður atvinnuvegur hlutaðeigandi hjeraðsbúa ótrúlega mikið tjón við að hafa ekki símasamband. í þrem hreppum N.-Ísafjarðarsýslu er engin símalína, aðeins lítil loftskeytastöð á einum stað.

A síðasta vetri kom nauðsyn þess að hafa síma í þessum hreppum mjög greinilega í ljós, máske enn greinilegar en áður, þó ávalt hafi nauðsynin verið auðsæ. Um síðustu áramót kom óvenju mikil fiskganga í Ísafjarðardjúp. Vissu þá allir um það, er bjuggu að vestanverðu við djúpið og síma höfðu. En þeir, er bjuggu að norðanverðu, vissu ekki um þetta. Þeir höfðu ekkert símasamband og samgöngur voru engar á milli. Þetta var rjett eftir hátíðar, svo menn hjeldu sig þá frekar heima, þar sem þeir höfðu dregið að sjer fyrir hátíðarnar. Mistu íbúar þessara hreppa alveg af þessari miklu fiskgöngu og töpuðu þannig mörgum þúsundum kr., líklega svona 8–10 þús. Auk þessa hafa þeir árlega tapað stórfje af því að þeir, vegna sambandsleysisins við vestanvert djúpið, hafa ekki vitað um beitufeng (smásíld), sem veiðist eingöngu vestanmegin djúpsins. Þarna eru margar ágætar smábátaverstöðvar, en hinir miklu erfiðleikar hafa gert það að verkum, að fólkið hefir mjög flutt þaðan í seinni tíð.

Sama máli er að gegna með allar læknisvitjanir. Eru það miklir erfiðleikar, sem Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppar eiga við að búa í þeim efnum. Vegna símaleysisins vita þeir ekki, hvar læknirinn er, nær þeir þurfa á honum að halda. Verða þeir því oft að elta hann úr einum staðnum í annan, og stundum hafa þeir alveg gefist upp við að ná í lækni. Hefir oft af þessu leitt auknar þjáningar fyrir sjúklingana og jafnvel hlotist af dauðsföll. Þá eru flutningar þangað mjög erfiðir. En ef símasamband væri við Ísafjörð, mundu þeir ávalt geta komið þeim haganlegar fyrir.

Nú er ekki svo að skilja, að hjer sje farið fram á nýja fjárveitingu og aukið fjárframlag til síma, heldur er aðeins ætlast til þess, að af fje því, er gengur til símalagninga á árinu 1930, verði þessari upphæð varið til þess að leggja á minsta símalínu, Enda er kominn tími til þess, því þessi lína hefir verið í símalögunum síðan 1913. Einnig hefir landssímastjóri lofað því, að þessi lína skyldi tekin strax og Barðastrandarlínan væri lögð. Vona jeg, að hv. þdm. taki vel í þetta mál, því nauðsynin er mikil.

Þá hefi jeg ásamt hv. þm. Ísaf. flutt brtt. þess efnis, að styrkurinn til bryggjugerða og lendingarbóta verði hækkaður um 14 þús. kr., með þeirri aths., að sama upphæð gangi til bryggjubyggingar í Hnífsdal. Eins og kunnugt er, er þar mikil útgerð og sjógarpar miklir. En erfiðleikar sjómanna eru þar meiri en annarsstaðar fyrir þá sök, að þar er engin höfn. Nú er það þó ekki ætlun okkar, að úr hafnleysinu verði bætt, því það mundi kosta stórfje. En af þessu hafnleysi stafar það, að sjómennirnir í Hnífsdal verða að flytja báta sína til Ísafjarðar að lokinni hverri sjóferð. Veldur þetta vitanlega miklum töfum og erfiði. En ofan á þetta bætist, að lendingin í Hnífsdal er mjög erfið. Þeir hafa ekki neina bryggju til að lenda við, heldur verða þeir að flytja fiskinn á land í smábátum, og tekur það oft 3–5 klst. Má geta nærri, hvílíkum erfiðleikum þetta veldur, enda er það svo, sannast að segja, að yngri mönnum hrýs hugur við þessu, og er fult útlit fyrir, að margt af yngra fólkinu flytji á burtu úr þessu að öðru leyti góða og byggilega sjóplássi. Munu óvíða hjer á landi vera jafngóðar byggingar og þarna, og stafar það einmitt af því, að þar hafa átt hlut að máli dugandi menn, er hafa viljað bæta hag sinn og samborgara sinna. Nú hafa þeir mikinn áhuga á því að koma upp hjá sjer bryggju. Höfðu þeir farið fram á það, að ríkið greiddi kostnaðinn að hálfu, en við flm. þessarar brtt. treystum okkur ekki til að fara þess á leit að fá nema 1/3 kostnaðar, og aðeins helming þess á þessu ári. En samkv. áætlun vitamálastjóra á bryggja, er sje svo góð, að hægt sje að skipa upp við hana fiski og vörum, að kosta ca. 82 þús. kr. Við slíka bryggju ættu að geta lagst 12–14 tonna bátar.

Sýslunefnd N.-Ísafjarðarsýslu hefir samþ. í e. hlj., að hreppurinn taki lán til þessa, og ennfremur samþ., að sýslan skuli standa í ábyrgð fyrir því láni. Fyrir hendi eru nú 10 þús. kr., og svo er búist við því, að þorpsbúar leggi sjálfir til 7–8 þús. Hefir það þegar verið undirbúið, og jeg þori að fullyrða, að ekki er nokkur hætta á því, að hreppurinn geti ekki staðið straum af láninu. Um verðleika þessara manna þarf ekki að efast, Þeir hafa um langt skeið verið meðal allra fremstu aflamanna, og þörfin er svo knýjandi, að hætt er við, að hinir yngri menn flytji í burtu, þeim til tjóns og leiðinda, ef ekki verður úr bætt.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. þess efnis, að veittar verði 1200 kr. til lendingarbóta í Arnardal. Jeg gat ekki komið skjölum viðvíkjandi þessu til hv. fjvn., því jeg fjekk þau fyrst í gærkvöldi. Þarna í Arnardal er smásjóþorp með nokkrum bátaútvegi, og auk þess sækja þaðan nokkrir bátar annarsstaðar frá. Vitamálastjóri hefir áætlað, að þessar bætur muni kosta um 4200 kr. Af því mun hlutaðeigandi hreppur sjá um 1000 kr., en þeir fara fram á að fá 1200 kr. úr ríkissjóði, og er það eftir sama hlutfalli, sem áður hefir verið venja, nefnilega að ríkissjóður styrki lendingar- og hafnarbætur með 1/3 kostnaðar. Á þessum stað, sem þó verður frekar að kallast verstöð en þorp, eru nokkrir bændur, er stunda útgerð, og auk þess nokkrir þurrabúðarmenn. Þeir geta ekki framkvæmt þetta af sjálfsdáðum, og þeir, er stunda þar sjó annarsstaðar frá, munu vera ófúsir að leggja fje í þetta.

Loks er það brimbrjóturinn í Bolungavík. Það mál er gamalkunnugt hjer á Alþingi. En ástæðan til þess, að það kemur hjer enn, er sú, að vitamálastjóri telur nauðsynlegt til þess að tryggja brimbrjótinn, að gerður verði grjótflái af stórgrýti, er hlaðið sje utan við hann, brimmegin, honum til styrktar og varnar. Áætlað er, að þetta muni kosta 58 þús. kr.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var ákveðið í fjárl. árið 1925 að leggja 17500 kr. til þessa verks, gegn því að hreppurinn legði fram sömu upphæð. Vorið 1927 var varið 8500 kr. af framlagi hreppsins til þess að sæmilega væri frá brimbrjótnum gengið. Vitamálastjóri vill, að þessu verði komið í kring og að brimbrjóturinn verði trygður gegn sjávargangi á undan öllu öðru. Að hinu leytinu áætlar hann, að til tryggingar brjótnum og til yfirbyggingar á hann, svo og til að samsteypa nökkvann við eldri brimbrjótinn, þurfi um 100 þús. kr. Af því fje eru nú til 36 þús. kr. Jeg hefi átt tal við hreppsnefndina um þetta; telur hún, að hreppurinn muni eiga erfitt með að leggja fram þessar 15000 kr., sem till. mín gerir að skilyrði fyrir fjárveitingu úr ríkissjóði.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir verið ágreiningur milli vitamálastjóra og hreppsnefndar um það, hvernig verkið skyldi unnið. Jeg ætla ekki að fara að rifja upp þann ágreining eða fara frekar út í það mál, því að sjaldan veldur einn, þá tveir deila; en þó vil jeg geta þess, að hin upprunalega sök mun hafa verið hjá því opinbera. Það er mikil nauðsyn að lúka þessu verki, svo að hreppurinn geti farið að fá tekjur af mannvirkinu.