26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

16. mál, fjárlög 1930

Bernharð Stefánsson:

Jeg flyt aðeins eina till. við þennan fyrri kafla fjárlagafrumvarpsins. Það er XIII. tillaga á þskj. 408, um 75000 kr. til bryggjugerðar á Siglufirði, gegn þreföldu tillagi frá Siglufjarðarkaupstað, og til vara 60000 kr. Þessi bryggja var bygð síðastl. sumar og höfnin dýpkuð. Þetta er mjög myndarlegt mannvirki, en hefir líka orðið ákaflega dýrt. Samkv. símskeyti frá bæjarfógetanum á Siglufirði í gær hafa þegar verið greiddar úr hafnarsjóði 307 þús. kr., en eftir er að greiða til þessa mannvirkis um 50 þús. kr., eftir því sem næst verður komist. Þetta eru samtals yfir 350 þús. kr. Allir hv. dm. geta því sjeð, að með till. minni er mjög hóglega farið í sakirnar, og þó að orðalag till. hljóði um 1/4 hluta kostnaðar úr ríkissjóði, verður það þó minna, ef aðaltill. er samþ., og ekki nema ef varatill. er samþ.

Jeg sendi hv. fjvn. umsögn þess verkfræðings, sem hefir verið ráðunautur bæjarstj. á Siglufirði í þessu máli. Í þessari umsögn er bæði lýsing á mannvirkinu og yfirlit yfir kostnaðinn. Hefir því hv. fjvn. fengið töluverðar upplýsingar um þetta mál, og átti jeg von á, að hún mundi sjá sjer fært að gera þetta að sinni till. Hv. n. hefir ekki orðið við þeim tilmælum, og geta auðvitað legið til þess ýmsar ástæður. Hitt dettur mjer ekki í hug að ætla, að hv. fjvn. muni leggja á móti till., því að ef hún verður feld, er það, eins og allir hv. dm. sjá, í mjög miklu ósamræmi bæði við það, sem nýbúið er að samþ. hjer, og líka við gerðir fyrri þinga. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan samþ. var hjer frv. til hafnarlaga fyrir Hafnarfjörð, þar sem ríkissjóður á að leggja fram 1/3 til hafnarmannvirkja í Hafnarfirði og ábyrgð að auki. Þegar litið er til gerða fyrri þinga, má benda á það, að Reykjavík fjekk á sínum tíma beinan styrk úr ríkissjóði til hafnargerðarinnar; Vestmannaeyjar hafa jafnan fengið 14 til sinna hafnarmannvirkja og fyrir örfáum árum —1925 eða 1926 — fengu Ísfirðingar 60 þús. kr. styrk til bryggjugerðar. Það er því ekki um að ræða að taka upp neitt nýtt í þessu efni, heldur er um það að ræða, hvort Siglufjörður á að njóta jafnrjettis við aðra kaupstaði landsins. Í till. minni er alls ekki farið fram á eins mikið og aðrir kaupstaðir hafa fengið, svo að það yrði ekki nema að nokkru leyti, að Siglufjörður nyti jafnrjettis við aðra kaupstaði, þó hún yrði samþ.

Auk þess, sem þessar almennu ástæður sanna, að Siglufjörður á jafnvel kröfu á þessum styrk, eru líka fyrir hendi sjerstakar ástæður, sem mæla með þessu. Jeg vil fyrst taka það fram, að það er engin höfn á landinu, að undantekinni Reykjavíkurhöfn, sem landsmenn yfirleitt nota eins mikið og Siglufjarðarhöfn. Styrkur til að bæta hana er því ekki styrkur til Siglufjarðar eingöngu, heldur njóta hinir mörgu atvinnurekendur víðsvegar um land, sem þurfa að nota höfnina, góðs af. Jeg tel víst, að þetta mundi koma þeim til góða í lækkuðum hafnar- og bryggjugjöldum. Þá má geta þess, að við þetta mikla mannvirki urðu ófyrirsjáanlegir erfiðleikar, þannig að það varð 80 þús. kr. dýrara en búist var við. Og það hefir verið siður Alþingis, þegar svo stendur á, að hlaupa undir bagga. Þessir sjerstöku erfiðleikar voru meðal annars í því fólgnir, að það, sem grafið var upp úr höfninni og átti að nota til uppfyllingar í bryggjuna, reyndist óhæft til þess og varð að flytja það langt út á fjörð, en sækja í þess stað annað efni, með ærnum kostnaði, í uppfyllinguna. Annars skal jeg geta þess, að af öllum kostnaðinum gengu 66 þús. d. kr. til dýpkunarinnar, en hitt til bryggjugerðarinnar. Varatill. byggist á því, að ef hún yrði samþ., yrði sá styrkur tæpur 1/4. hluti af því, sem sjálf bryggjan kostaði. Jeg skal nú láta útrætt um þetta, en vænti þess fastlega, að hv. d. samþ. till. mína. Ef hún gerir það ekki, er mjer óskiljanleg aðstaða hv. d. fyrir nokkrum dögum. Jeg greiddi atkv. með frv. til hafnarlaga fyrir Hafnarfjörð, í trausti þess, að bæjarfjelög landsins ættu að njóta jafnrjettis í þessum hlutum.