04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Landbn. hefir haft þetta frv. til athugunar alllangan tíma og lagt í rannsókn þess þá vinnu, sem hún hafði frekast tök á; er hún einhuga um að mæla hið besta með því, að frv. nái fram að ganga. Jeg þykist nú ekki þurfa að tala langt mál til þess að rökstyðja þessi ummæli nefndarinnar, eða um frv. alment, því að jeg hefi ekki orðið annars var en að þörfin á öflugri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn sje alment viðurkend.

Það hefir oft verið deilt um það, hverjar væru orsakirnar til þess, að landbúnaðurinn hefir orðið svo mjög á eftir tímanum og dregist aftur úr, sjerstaklega þegar borið er saman við sjávarútveginn. Jeg skal nú ekki fara að rekja þær orsakir, sem taldar hafa verið; mjer er það ljóst, að þar hafa mörg öfl verið að verki, en þó verður ekki komist hjá að nefna eitt atriði í þessu sambandi, og það er það, hvílíkur aðstöðumunur hefir verið til starfsfjár fyrir landbúnað og sjávarútveg, og ekki einasta aðstöðumunurinn til þess að fá lán til starfsins, heldur líka á hvern hátt lánskjörin hafa svarað til þarfa og eðlis atvinnuveganna.

Það þarf ekki annað til þess að sannfærast um þetta en að athuga þá þróun, sem orðið hefir að því er sjávarútveginn snertir. Það er enginn efi á því, að án þess að hafa greiðan aðgang að lánsfje, hefði sjávarútvegurinn ekki getað aflað sjer nýtískutækja til að spara mannsorkuna og auka framleiðsluna, en einmitt með stuðningi lánsfjár hefir þetta tekist. Landbúnaðurinn hefir aftur á móti ekki haft þessa góðu aðstöðu, hvorki nægilega greiðan aðgang að lánsfje og enn síður þau lánskjör, sem honum hæfa. Og er þetta áreiðanlega ein af aðalorsökunum til þess, að hann hefir svo til staðið í stað, enda má heita, að sumstaðar og í sumum efnum sje hann rekinn alveg á sama hátt og gert var fyrir þúsund árum síðan. Af þessu hefir svo meðal annars leitt það, að landbúnaðurinn hefir ekki verið samkepnisfær, ekki getað kept um vinnuaflið o. s. frv.

Tilgangurinn með því frv., sem hjer liggur fyrir, er í fyrsta lagi sá, að veita landbúnaðinum sama aðgang að starfsfje eins og sjávarútvegurinn hefir notið á seinni árum, og í öðru lagi að tryggja það, að landbúnaðurinn fái þau lánskjör, sem eru við hans hæfi.

Jeg skal nú fúslega viðurkenna það, að á seinni árum hefir töluvert verið gert af Alþingi til þess að nálgast þetta takmark; jeg á þar við stofnun Ræktunarsjóðsins nýja og stofnun Byggingar- og landnámssjóðs, sem síðasta Alþingi samþykti. En að áliti nefndarinnar og annara þeirra manna, sem að þessu hafa unnið, er svo litið á, að þetta takmark náist þó ekki fyllilega, fyr en komin er sjerstök lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem geti veitt hagkvæm lán, auðvitað gegn sæmilegum tryggingum, til hverskonar þarfa hans.

Nefndin lítur svo á, að æskilegast væri, að bændur ættu ábýlisjarðir sínar, en fæstir geta eignast þær án lánsfjár. Til þess að rækta jarðirnar og hýsa þurfa þeir einnig lánsfje. Fátækir frumbýlingar þurfa líka lánsfje til að geta komið sjer upp nægilegum bústofni, og svo er það vitanlega nauðsynlegt fyrir bændur eins og aðra, sem atvinnurekstur stunda, að geta haft aðgang að hentugum bráðabirgðalánum.

Nefndin telur nú, að verði þetta frv. að lögum, þá sje þessu takmarki náð, eftir því sem hægt er að ná því, og að hinum fjölþættu þörfum landbúnaðarins til starfsfjár verði þá fullnægt, að svo miklu leyti sem hægt er að gera kröfur til. Nefndin lítur svo á, að þessi fyrirhugaða bankastofnun eigi einmitt að fullnægja öllum heilbrigðum kröfum bændanna um lán. Þess vegna er það, að nefndin hefir ekki viljað fallast á neinar tillögur í þá átt að draga úr starfsemi þessa fyrirhugaða banka, t. d. með því að fækka þeim deildum, sem hann eftir frv. á að skiftast í. Það er gerð nokkur grein fyrir þessu atriði sjerstaklega í áliti nefndarinnar á þskj. 228, og skal jeg láta nægja að vísa til þess og snúa mjer að því að fara nokkrum orðum um þær breytingar, sem nefndin leggur til, að gerðar verði á frv. En áður en jeg vík að einstökum brtt., skal jeg taka það fram, að það, sem fyrir nefndinni vakir, er sjerstaklega að tryggja bankann og gera lánveitingar hans öruggari en gert er ráð fyrir í frv., og ganga flestar brtt. í þá átt.

Fyrsta brtt. lýtur þó ekki að þessu, heldur fer fram á, að nafni bankans verði breytt í Bændabanka. Ástæðan til þess er sú, að nefndinni hefir verið á það bent af stjórn Landsbankans, að nafn nýja bankans væri of líkt nafni hans, og var álitið, að það gæti valdið ruglingi og óþægindum. Jeg skal játa það, að nefndin leggur ekki mikla áherslu á þetta atriði og er óþarfi að etja kappi um nafnið, en á það skal bent, að nafnið Bændabanki svarar a. m. k. eins vel til tilgangs bankans og hitt nafnið. Landbúnaðarbanki. Hann á að vera fyrir bændur landsins.

2. brtt. er við 2. gr. Þar leggur nefndin til, að skýrar sje ákveðið, að tilgangur bankans sje eingöngu sá, að styðja landbúnaðinn. En jafnframt leggur þó meiri hluti nefndarinnar til, að sett sjeu inn í gr. ákvæði, er heimili að veita smábátaútvegsbændum utan kaupstaða rekstrarlán. Jeg stend illa að vígi til að tala um þessa brtt., því tveir nefndarmenn hafa áskilið sjer óbundin atkv. um þessa till., og er jeg annar þeirra. Þó skal jeg geta þess, að því hefir verið haldið fram, að ef svo stendur á, að fáir útvegsbændur eru í sveit, þar sem rekstrarlánafjelag starfar, þá sje hart að útiloka þá frá þátttöku. Og verð jeg að viðurkenna, að þetta er hart aðgöngu.

3. brtt. er við 7. gr. og er í 2 stafliðum. A-liðurinn skýrist af því, sem jeg sagði rjett áðan. — Samkv. 2. lið 7. gr. frv. er ætlast til, að sparisjóðs- og rekstrarlánadeild bankans veiti lán til lánsfjelaga aðeins gegnum milliliði. Í b-lið brtt. leggur nefndin til, að fjelögin geti haft viðskifti við bankann milliliðalaust. Lítur nefndin svo á, að óþarft sje að hafa milliliði um þessi lán, þegar hægt er að komast hjá þeim. Það væri einkennilegt, ef lánsfjelög, t. d. hjer í nágrenni Reykjavíkur, fengju ekki að hafa bein viðskifti við bankann. Enda mun þetta ekki hafa verið meiningin, en eins og gr. er orðuð nú, verður hún ekki skilin öðruvísi.

4. brtt. er við 8. gr. í gr. er ákveðið, að sparisjóðsdeild skuli hafa að minsta kosti 10% af innlánsfjenu í auðseldum verðbrjefum. Nefndin leggur til að hækka það upp í 15%; er það í samræmi við tilsvarandi ákvæði í Landsbankalögunum. Sjer nefndin ekki ástæðu til, að ákvæði þessara laga uni þetta atriði verði óvarlegri en þeirra og telur rjettara og öruggara að samþykkja þá brtt.

Samkv. 10. gr. frv. er ætlast til, að almannasjóðir sjeu jafnan geymdir í sparisjóðsdeild bankans. í 5. brtt. er lagt til að undanskilja Söfnunarsjóð og þá sjóði, sem í honum eru geymdir, og ennfremur þá sjóði, sem beint eru ætlaðir til eflingar öðrum atvinnuvegum. Telur nefndin það fulla sanngirniskröfu, að þá sjóði, sem stofnaðir eru í alt öðrum tilgangi, þurfi ekki endilega að ávaxta í Landbúnaðarbankanum. Og hvað Söfnunarsjóð snertir, þá verður á það að líta, að hann er stofnaður í alveg sjerstöku augnamiði. Það verður ekki fengin önnur öruggari geymsla fjár en í honum. Er því rjett að láta starf hans halda sjer eins og verið hefir.

Í 13. gr. frv. er svo ákveðið: „Ríkissjóður leggur veðdeild bankans til stofnfje að upphæð minst 2 milj. kr. Stofnfje þetta greiðist af hendi þannig, að veðdeildin tekur við öllum eignum Kirkjujarðasjóðs og svo miklu af skuldabrjefum Viðlagasjóðs, er með þarf til þess að stofnsjóður veðdeildarinnar nemi 2 milj. kr.“ Með þessu móti mundi Kirkjujarðasjóður hverfa sem sjerstakur sjóður. Þetta hefir nefndin ekki getað fallist á, að væri heppilegt. Hún lítur svo á, að Kirkjujarðasjóður hafi nægilegt og nauðsynlegt verkefni. Fje úr honum hefir verið varið til umbóta á kirkjujörðum. Og það verður ekki sjeð, hvar taka ætti fje til þess, ef sjóðurinn hyrfi, nema þá úr ríkissjóði. Nefndin flytur því þá brtt. við gr., að Kirkjujarðasjóð skuli að vísu ávaxta í deildinni, en hann fái þó að halda sjer að öllu leyti sem sjerstakur sjóður. En af þessu leiðir, að stofnfje deildarinnar verður minna en ætlast er til í frv., og það þótt allur Viðlagasjóður verði tekinn. Nefndin leggur til, að lágmark þess fjár, er Viðlagasjóður leggur fram, verði 1250000 kr., og er þar við bætist kr. 700000, er hann leggur fram í bústofnslánadeild, þá er hann svo til þrotinn.

Skal jeg nú fara fljótt yfir sögu og ekki minnast sjerstaklega á 7.-12. brtt. Þær gera ekki verulegar efnisbreytingar á frv., og læt jeg nægja að vísa til skýringa nál.

Þá er það 13. brtt. Hún er um það, að 39. gr. frv. falli burt. Sú gr. heimilar veðdeild að gefa út sjerstaka flokka bankavaxtabrjefa með happvinningum. Það er skylt að viðurkenna, að ef gr. yrði samþ. og þetta kæmist í framkvæmd, þá eru líkur til, að þau brjef verði seljanlegri en önnur verðbrjef; en ef þau verða seljanlegri, þá er það eingöngu vegna vonarinnar um happvinning, en ekki af þeim eðlilegu og heilbrigðu hvötum, að vilja ávaxta fje sitt á öruggan hátt. Það á að nota gróðafíkn og braskaralöngun manna til að koma brjefunum út, og telur nefndin óviðkunnanlegt að taka þessar hvatir í þjónustu landbúnaðarins. Þessi brjef mundu og geta spilt fyrir annari verðbrjefasölu í landinu, ekki einasta Landsbankans, heldur einnig þessarar stofnunar.

Hvað snertir 14. brtt. læt jeg mjer nægja að vísa til nál.

15. brtt. er við 45. gr. og er um það, að ekki verði tekið fullgilt veð í öðru lausafje en kúm, heldur verði að koma baktrygging, fasteignaveð eða hreppsábyrgð. Nefndin lítur svo á, að eins og enn er háttað búpeningseign landsmanna, þá sje hún ekki það örugg, að hún geti talist veðhæf, og það eins þótt það sje sett að skilyrði, að lánbeiðandi sje fjelagi í fóðurbirgðafjelagi, eins og gert er í frv. Gerir nefndin ekki ýkjamikið úr því, enda munu þau fjelög ekki vera nema örfá, og mundu því flestir bændur, eins og nú er háttað, útilokaðir frá lánum úr deildinni, ef þetta ákvæði frv. yrði samþ. óbreytt. Fóðurbirgðafjelögum mundi að vísu fjölga — sennilega — vegna þessa ákvæðis, en bæði mundi það líklega ganga seint, og svo verð jeg að segja það, að jeg hefi ekki orðið var við neitt öruggari ásetning, þar sem þau starfa, heldur en í þeim sveitum, þar sem forðagæslulögunum er vel framfylgt.

16. brtt., við 46. gr., gerir enga verulega efnisbreytingu. Þó vil jeg vekja athygli á 2. og 4. lið brtt., sem eru að nokkru nýmæli. Með þeim vill nefndin tryggja það, að bankastjórnin geti fengið nokkra vitneskju um lánbeiðanda og hvernig hann hefir rekið atvinnu sína, til þess að hún geti gert sjer hugmynd um, hvernig fjenu sje varið og hvort vert sje og óhætt að veita lánið. Fyrri liðurinn er um það, að lánbeiðni hverri fylgi vottorð um, að lánbeiðandi hafi ekki lent í fóðurþröng á síðustu 5 árum. Síðara atriðið fer fram á, að hverri lánbeiðni fylgi skýrsla um búpeningseign lánbeiðanda síðustu árin. Á það að tryggja það, að ekki sjeu veitt lán til að koma upp búpeningi til að braska með hann, ýmist kaupa hann eða selja.

Með 17. brtt., við 47. gr., er bætt inn sektarákvæðum fyrir að nota lán til annars en það er veitt til. Ef maður notar lán til annars, þá má líta á það sem sviksemi, sem sjálfsagt sje að refsa. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort sektirnar sjeu ákveðnar hæfilega. En það tjáir ekki að hafa sektarupphæðina mjög háa, því oft verður um litlar lánsupphæðir að ræða, og gæti þá sektin orðið hærri en lánið. Vitanlega getur svo atvikast, að sviksemin varði við hegningarlögin, og verður þá ákvæðum þeirra að sjálfsögðu beitt.

Um 18. brtt. læt jeg nægja að vísa til nál.

Með næstu brtt. leggur nefndin til að fella burt 3. og 4. málsgr. 51. gr., eða ákvæðin um það, að búfjárveð gangi fyrir forgangskröfum í þrotabú og að bústofnslánadeild hafi lögtaksrjett. N. lítur svo á, að ef fyrra atriðið væri samþ., þá gæti það skapað óheppilega óvissu í viðskiftum og valdið öryggisspjöllum. Hvað síðara atriðinu viðvíkur, þá telur n. ekki ástæðu til að gefa deildinni þennan sjerstaka lögtaksrjett fram yfir aðrar kröfur, er eins stendur á um.

Að lokum skal jeg minnast á síðustu brtt. Eftir frv. er ætlast til, að tveir verði endurskoðendur bankans, annar skipaður af ríkisstj., hinn kosinn af Alþingi. Í þess stað leggur nefndin til, að báðir endurskoðendur verði skipaðir af ráðherra, eftir tillögum sameinaðra landbn. Alþingis, að viðhafðri hlutfallskosningu. Þessi till. miðar að því að tryggja rjett minni hl. til að fylgjast með hag og rekstri bankans. Eftir frv. eru líkur til að stjórnin og hennar flokkur mundi ná báðum sætunum. Væntir nefndin, að menn líti með sanngirni á þetta og samþ. brtt. En það, að mennirnir sjeu tilnefndir af landbúnaðarnefndunum, en ekki kosnir af Alþingi, telur nefndin frekari tryggingu fyrir því, að mennirnir verði valdir með það fyrir augum, að þeir sjeu starfinu vaxnir og þá verði minni hætta á, að störfin verði gerð að pólitískum bitlingum.

Hjer á fundinum hefir verið útbýtt nokkrum brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. Nefndin hefir vitanlega ekki haft tækifæri til að athuga þær, og get jeg því ekkert um þær sagt fyrir hennar hönd.

Skal jeg ekki orðlengja meira um þetta, en læt nægja að vísa til nál. viðvíkjandi þeim atriðum, er jeg hefi gengið framhjá.