27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal þá með fáeinum orðum lýsa afstöðu fjvn. til brtt. þeirra, sem einstakir hv. þdm. hafa borið fram við þennan síðari kafla fjárl., og geri jeg ráð fyrir, að jeg fái að því loknu lítið meira þakklæti en frsm. fyrra kaflans; en það verður maður að láta sjer lynda að verða fyrir nokkru aðkasti, enda er við því að búast, ekki síst þegar eins stendur á og nú, að n. leggur til, að flestar brtt. einstakra þm. verði feldar.

Eins og skýrt hefir verið frá, munu hækkunartill. við þessa umr. frv. nema því sem næst um 450 þús. króna. Af þeirri upphæð vill n. mæla með eitthvað í kringum 140 þús. kr., en leggur því nær einhuga á móti því sem næst 270 þús. kr. og hefir óbundin atkv. um upphæð, sem nema mundi nálægt 40 þús. kr.

Jeg sagði, að maður yrði að taka með jafnaðargeði öllu aðkasti í þessu efni. En álit mitt er það, að eigi n. ávítur skilið, þá væri það fremur fyrir það að hafa gengið of langt en of skamt um meðmæli með einstökum útgjaldatill. Nú er útgjaldaboginn spentur svo hátt, að ekki þarf miklu við að bæta til þess að hann bresti.

Jeg ætla ekki að fara langt aftur í fyrri kafla frv., sem lokið er við að ræða, en þó vil jeg vekja eftirtekt á því, að í þessu frv. er ætlað langtum meira til verklegra framkvæmda í landinu en dæmi eru til nokkru sinni áður. Þó nægir ekki þetta hv. þdm. og bera þeir fram í viðbót stórkostlegar fjárveitingatill. til ýmsra framkvæmda í kjördæmum sínum.

Mjer dettur ekki í hug að neita, að víðar muni þörf verklegra framkv. en frv. þetta tilgreinir. En við verðum þó að kunna okkur það hóf um þessa hluti, þótt góðir sjeu, að við ekki bindum í þeim um of starfskrafta þjóðarinnar, svo að jafnvel verði hörgull á vinnukrafti til að annast um undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem er framleiðsla til lands og sjávar, svo að þeir hætti ekki að mjólka í hina miklu hít, ríkissjóðinn.

Áður en jeg sný mjer að því að tala um brtt. einstakra þm., ætla jeg aðeins að minnast á eina brtt. n., sem jeg gleymdi í framsögu í gær, af því að hún er borin fram á öðru þskj.; það er III. brtt. á þskj. 431 og fjallar um lán handa landssímanum til húsbyggingar og til nýrrar bæjarsímamiðstöðvar í Reykjavík, með þeirri aths., sem þar getur. Þessi brtt. kom fram í ofurlítið annari mynd við 2. umr., en var þá tekin aftur vegna bendingar frá hæstv. forsrh., sem þótti óráðlegt að tiltaka sjerstaka upphæð, þar sem ekki væri unt að svo stöddu að segja um, hvað byggingar þessar mundu kosta. Jeg lýsti þá tilganginum með þessari lántöku og tel óþarft að endurtaka það nú. Breyt. er ekki önnur en að tekin er burt fjárhæð sú, er nefnd var í brtt. við 2. umr.

Af einstakra manna till. verður fyrst fyrir mjer XXVII. brtt. á þskj. 408, frá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Sk., um rekstrarstyrk til rannsóknarstofu háskólans. Um þessa brtt. hefir n. óbundin atkv. og skiftist fylgið nokkuð jafnt með og móti henni Nokkur hl. n. lítur svo á, að landinu komi ekki þessi stofnun við, þar sem háskólinn muni upphaflega hafa tekið að sjer að kosta hana með styrk úr sáttmálasjóði. Hinn hl. n. lítur aftur á móti svo á, að breyt. hafi orðið á þessu og að sú stofnun starfi nú orðið engu síður í þágu ríkisins en háskólans, og því sje rjett að skifta kostnaðinum á milli þeirra. Enda er ekki ætlast til, að ríkið taki að sjer starfrækslu stofunnar að öllu leyti, þó að styrkur þessi verði samþ.

Þá koma næst nokkrir námsstyrkir til stúdenta, sem sumpart eru erlendis eða hyggja til utanfarar til frekara náms, og mun jeg svara öllum þeim till. með sömu orðum. Þegar samþ. var við 2. umr. að taka upp í frv. eina upphæð, sem mentamálaráðið úthlutaði svo til stúdenta, þá skildi jeg þá ákvörðun d. sem einskonar stefnubreyt. frá því, sem áður hefði ráðið um námsstyrki stúdentum til handa. Þessa samþykt og stefnubreyt. vilja nú ýmsir hundsa og bera fram kröfur um, að einstakir stúdentar verði styrktir eftir sem áður. En jeg vil mótmæla þessu bæði sjálfs mín vegna og n. Það skortir síst á, að hv. flm. hafi talað vel fyrir till. sínum og sýnt fram á, að skjólstæðingar þeirra væru alls góðs maklegir, en þær ræður væru betur fluttar fyrir mentamálaráðinu, því að það hefir úthlutun styrksins með höndum. Hv. flm. vinna ekkert á með slíkum ræðum hjer í d. Fjvn. leggur svo að segja eindregið á móti öllum þessum námsstyrkjum og væntir, að meiri hl. hv. þdm. sýni það sama við atkvgr.

Næsta till., eða sú XXXIII. í röðinni, stendur í sambandi við aðra till., sem jeg mun minnast á síðar.

XXXIV. brtt. er um 15000 kr. styrk til þess að koma upp raflýsingu við Núpsskóla. Meiri hl. n. leggur á móti þessari fjárveitingu, ekki þó vegna þess, að n. álíti, að ekki geti verið þörf á að styrkja þetta, en eitthvað verður að bíða af öllu því, sem beðið er um. ekki hægt að fullnægja öllu á sama árinu. Annars skal jeg taka það fram í eitt skifti fyrir öll, að þó að n. leggi á móti mörgum till., þá er það ekki fyrir þá sök, að það geti ekki verið gott og nauðsynlegt verk, sem vinna á fyrir fjárhæðir þær, sem um er beðið, heldur verður að líta á gjaldþol ríkissjóðs og að hann hefir í mörg horn að líta, enda er það minsta, sem ætla má, að heimtandi sje af fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi, að þeir hagi sjer ekki líkt og keipakrakkar í leikfangabúð, sem viðstöðulaust vilja heimta alt, sem fyrir augun ber.

Þá kemur XXXV. till. í röðinni, sem hv. 2. þm. G.-K. flytur viðvíkjandi Flensborgarskólanum. Um hana er n. óbundin, og mun jeg ekki fara neitt nánar inn á hana, enda hefir verið um hana rætt bæði með og móti, svo jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi af þeim umr. getað skapað sjer skoðanir um hana.

Þá kem jeg að brtt. frá hv. þm. Vestm. um 1200 kr. til Bjargar Sigurðardóttur til að kenna matreiðslu á síld, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar frá. N. er klofin um till. þessa, og leggur meiri hl. á móti henni. Hinsvegar hefir hv. flm. sýnt mikinn áhuga í því að reyna að koma þessari síldarmatreiðslu í framkvæmd, þar sem hann hefir fengið síldareinkasöluna í lið með sjer að styrkja þessa konu, og frá mínu sjónarmiði horfir málið því öðruvísi við en áður. Þó skildi jeg ekki samhengið á milli verðleika Bjargar Sigurðardóttur í að kenna Íslendingum að eta síld og styrkhækkunar Þórbergs Þórðarsonar við 2. umr., sem hv. þm. Vestm. dró inn í umr.

Þá kem jeg að XXXIX. brtt., sem þeir bera fram í sameiningu hv. þm. V.-Sk. og hæstv. forseti deildarinnar, um styrk til Reginu Dinse. Það hefir nú verið talað vel og rækilega fyrir þessari styrkveitingu. Og þó að fjvn. leggi svo að segja eindregið á móti henni, þá get jeg ekki orða bundist um að leggja till. liðsyrði, af því að mín persónulega skoðun er sú, að hjer sjeu alveg óvanalegir hlutir á ferðinni. Þessi stúlka, sem er af góðu bergi brotin, hefir alveg sjerstakan áhuga fyrir Íslandi og að starfa fyrir það. Hún kemur hingað til lands og dvelur hjer sumartíma í sveit, lærir málið og tekur sjerstöku ástfóstri við land og þjóð. Þegar hún hverfur hjeðan heim til sín, berst hún fyrir því með dæmafáum dugnaði að koma á stofn skóla fyrir íslenskar stúlkur. Jeg hefi sjeð brjef frá stúlkunni, þar sem tekið er fram, að lögð sje stund á í skólanum að kenna garðyrkju, hannyrðir og matreiðslu sem best við hæfi íslenskra kvenna. Jeg er því sannfærður um, að þær íslenskar sveitastúlkur, sem úr landi leita sjer til gagns og þroska, hitta ekki fyrir betri stað en skóla Reginu Dinse. Það er einnig sannfæring mín, að ef Alþingi fjellist á þennan litla styrk og vottaði með því stúlkunni samúð sína fyrir það að hafa greitt götu íslenskra kvenna erlendis, að með þeim styrk væri unnið ekki minna gagn en með ýmsum styrkjum, sem veittir eru til kvenna hjer innanlands. En eins og jeg tók fram, er n. á móti þessum styrk, að undanteknum mjer, sem er persónulega með honum, og eru því þessi fáu orð sögð á eigin ábyrgð mína.

Um XL. brtt., um utanfararstyrk til Geirs Gígju kennara, ætla jeg ekkert að segja. N. hefir þar óbundin atkv., eins og sjást mun við atkvgr.

Næst er XLI. brtt., þar sem farið er fram á, að Gunnari A. Jóhannessyni verði veittur styrkur til þess að kynna sjer íþróttalíf erlendis. N. leggur svo að segja einróma á móti þessum styrk, án þess að hún sjái ástæðu til að gagnrýna frekar, hvað liggur þar til grundvallar.

Um næstu brtt., eða þá XLII, er sama að segja. N. getur ekki lagt til að fara að styrkja Skáksamband Íslands, og leggur því til, að bæði aðal- og varatill. sjeu feldar.

Þá er það XLIII. brtt., sem 9 hv. þdm. standa að, um 3000 kr. styrk til þess að gefa út rit í 50 ára minningu Möðruvallaskólans. Það hefir nú verið talað bæði með og móti þessari till., og get jeg því verið fáorður um hana, og það því fremur, sem meiri hl. n. er á móti henni. Sjálfur get jeg tekið í sama streng og hv. 3. þm. Reykv., að skóli þessi er mjög merkilegur og að menn, sem þaðan hafa komið og meðal annars hingað inn í Alþingi, bera menjar þessa góða skóla; en jeg vildi óska, að þessir menn bættu einni sönnuninni enn við um ágæti þessa skóla með því að sýna þann myndarskap að taka á sjálfa sig upphæð þessa, enda getur kostnaðurinn ekki orðið mikill, sem kemur á hvern einstakan.

Þá er næst utanfararstyrkur til Ingibjargar Steinsdóttur, til leiknáms. Meiri hl. n. er á móti þessari till. án þess jeg ætli að hafa frekari orð þar um, enda býst jeg við, þó að ræður yrðu haldnar um þetta, að þá mundu þær ekki verka betur en þau meðmæli, sem þessi kona hefir aflað sjer sjálf í leikhúsinu. Og ef henni hefir ekki með framkomu sinni þar tekist að bræða hjörtu hv. þdm., þá mun hvorki jeg nje annað það, sem hjer kann að verða sagt, gera það.

Þá er brtt. við 15. gr. 21, nýr liður: til Jónasar Tómassonar, til þess, að kynna sjer hljómlist erlendis og undirbúa útgáfu tónsmíða sinna. Meiri hl. n. er á móti þeirri fjárveiting, sem þarna er farið fram á; því þó að bæði jeg og aðrir viðurkennum, að þarna sje um nýtan mann að ræða, þá getum við ekki lagt til, að þessi styrkur verði veittur.

Brtt. hv. 2. þm. Eyf. um tónlistarnámsstyrk handa Guðmundi Matthíassyni frá Grímsey leggur n. eindregið á móti. Þó að Grímseyingar sjeu margs góðs maklegir, og ættingjar Matthíasar skálds Jochumssonar líka, þá er efamál, hvort Alþingi á að ýta undir unga menn að ganga út á örðuga og vanþakkláta braut listamannanna, þar sem nóg er um þyrna, sem stinga, en minna um rósir að baða í.

Sama er og um styrkinn til Maríu Markan að segja, að meiri hl. n. leggur á móti honum.

Þá er enn brtt. við 15. gr. 28, nýr liður: Til Jóns Ófeigssonar, til þess að vinna að samning þýsk-íslenskrar orðabókar, 5000 kr., eða 4000 kr. til vara. N. vill alls ekki vjefengja, að okkur geti verið þörf á að eignast slíka orðabók, en álítur hinsvegar, að ekki sje hægt að taka upp í þessi fjárl. alt, sem æskilegt væri fyrir okkur að fá; þó að upphæðin sje ekki stór, þá munar um hvern dropann, þegar að því er komið, að flói út úr útgjaldatunnu ríkisins. N. leggur því svo að segja eindregið á móti þessari fjárveitingu.

Þá leggur n. og á móti fjárveitingu handa Steini Emilssyni, til jarðfræðirannsókna, en hefir óbundin atkv. um næstu brtt., sem fer fram á lítils háttar hækkun á styrk til Páls Þorkelssonar. Er þar um svo litla fjárhæð að ræða, að ætla má, að nái samþ.

Þá er það LIII. brtt. í röðinni, um 7000 kr. styrk til íþróttafjelags Reykjavíkur, til þess að senda fimleikaflokk kvenna undir stjórn Björns Jakobssonar á íþróttamót í Finnlandi. Það var mitt hlutskifti í fyrra að mæla fyrir n. hönd á móti því að styrkja þennan flokk til utanfarar þá, en flokkurinn fór nú samt og gat sjer hinn glæsilegasta orðstír. Og jeg verð að segja það, að mjer þykir leitt að verða til þess að mæla á móti styrk til þessa flokks aftur, af því að jeg viðurkenni fyllilega ágæti hans. En sem sagt, mikill meiri hl. n. leggur á móti þessari fjárveitingu, og læt jeg því þetta nægja.

Þá kemur næst utanfararstyrkur til Kristins Pjeturssonar myndhöggvara. Flm. brtt., hv. 4. þm. Reykv., talaði fyrir nauðsyn þessa styrks, en gat þess þó í lok ræðu sinnar, að hann væri ekki dómbær á hæfileika þessa listamanns. N. stendur álíka að vígi að dæma þessa hluti, enda er ekkert um það að finna frá dómbærum mönnum í plöggum þeim, sem legið hafa fyrir henni. Leggur n. því svo að segja einhuga á móti þessari styrkveitingu.

Þá kemur brtt. við 16. gr., frá hv. þm. N.-Ísf., um að hækka liðinn til sandgræðslu um 1500 kr. og þeirri upphæð sje varið til vegagerðar um sandgræðslusvæðið í Bolungarvík, gegn jafnháu tillagi annarsstaðar að. N. hefir óbundin atkv. um þessa brtt., og mun meiri hl. á móti henni. Fyrir sjálfan mig get jeg sagt, að jeg hefi tilhneigingu að fylgja þessari brtt. Eftir því, sem upplýst hefir verið, er þarna um 200 ha. svæði að ræða, sem kæmi til ræktunar þegar sandfokið væri heft. Ríkið hefir líka áður lagt og leggur í töluverðan kostnað vegna sandgræðslu þarna, en um leið og landið yrði grætt upp, hyrfi sá kostnaður af ríkinu. En eins og jeg tók fram, hefir n. óbundin atkv. um brtt., og hefi jeg því ekki leyfi að mæla sjerstaklega með henni.

Þá kem jeg að brtt. hv. landbn. um 5000 kr. fjárveitingu til þess að búa til bráðapestarbóluefni. Hv. form. landbn. hefir mælt fyrir nauðsyn þessa máls og lýst með skýrum dráttum, hvernig þessi illi gestur fyrir sauðfjárrækt bænda, bráðapestin, virðist færast mjög í vöxt á seinni árum. Það má vafalaust segja, að því fje sje ekki illa varið, sem orðið gæti til þess að draga úr þessum vágesti. Og þar sem búið er að samþ. frv. um rannsóknir í þarfir atvinnuveganna, vil jeg fyrir hönd fjvn. leggja til, að fjárhæð þessi verði veitt, og tel þá rjett, að framkvæmdin verði falin þeirri stofnun, sem vænta má, að til þess vilji fá þann manninn, sem færastur er, og getur þá vel farið svo, að það verði sá dócentinn, sem nefndur hefir verið í þessu sambandi.

Þá er smábreyt. við 16. gr. 26, um 200 króna hækkun á styrk til Guðmundar Jónssonar frá Mosdal. N. hefir enga ákvörðun tekið um þessa litlu hækkun og hefir því óbundin atkv. um hana.

Þá er brtt. við 33. lið sömu gr., um að hækka styrk til landsfundar kvenna 1930 úr 1000 kr. upp í 2000 kr. N. hefir ekki gengið í gegnum fyrri samþyktir þessa máls. Hinsvegar má vel vera, að alþingishátíðarnefndin sjái ástæðu til að hækka þennan styrk og veiti stuðning í því á sínum tíma. En á meðan alt er óvíst um það, álítur n. ekki ástæðu til að hækka styrkinn nú frá því, sem áður er ákveðið.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. við 16. gr. 35, nýr liður: Til Dýraverndunarfjelags Íslands, til dýraverndunarstarfsemi, 1800 kr. Nokkuð hærri till. en þessi var feld hjer við 2. umr. og þá var meiri hl. n. á móti, og svo er enn. Eftir því, sem talað var fyrir till., þá virðist þessi styrkur aðallega eiga að ganga til þess að halda úti blaði fjelagsins, en n. gat ekki fallist á að veita fje til blaðsins, þar sem það er í hennar augum frekar ómerkilegt og kemur ekki að liði þeirri hugsjón, sem fjelagið berst fyrir, en bindur því aðeins fjárhagslegan bagga. Hinsvegar er starfsemi fjelagsins hjer inni í Tungu allra góðra gjalda verð, en með þeirri aðstöðu, sem fjelagið hefir þar, og með þeim miklu gjöfum, sem það hefir fengið, þá ætti sú starfsemi fjelagsins að geta borið sig sjálf.

Næst kemur brtt. frá báðum þm. Rang. við 16. gr. 39, nýr liður: Til mælinga og rannsókna vatnasvæðis Þverár og Markarfljóts, 15 þús. kr. N. hefir sjálf borið fram brtt. um sama efni, og kann hún því hv. flm. engar þakkir fyrir, enda hefir hún í sínum eigin till. gengið eins langt og hún sá sjer fært, og óskar því eftir, að þessi brtt. verði tekin aftur. (EJ: Jeg tek hana aftur).

Þá er brtt. við 16. gr. 33, styrkur til íslenskra háskólakvenna til þess að senda fulltrúa á þing alþjóðasambands háskólakvenna í Genf, 2 þús. kr. Meiri hl. n. var á móti þessu, og hefi jeg því ekkert leyfi til þess fyrir hennar hönd að mæla með þessu, þó að jeg hafi sjálfur mikla tilhneigingu til þess. Jeg verð að segja það, að af þeim stúdentum, sem jeg hefi kynst um dagana, hefi jeg mestar mætur á kvenstúdentum, að öðrum þó ólöstuðum. Jeg mun samt ekki fara fleiri orðum um till., með því líka að hv. aðalflm. hennar, hv. þm. Dal., hefir gert það mjög rækilega, hvort sem það nú dugir þegar til atkv. kemur.

Þá kemur enn brtt. við 16. gr. 51, frá hv. 4. þm. Reykv., og er hún í tveim liðum. Fyrri liðurinn er styrkur til Odds Valentínussonar hafnsögumanns til þess að kaupa hafnsögubát, og er n. á móti honum. Við sáum ekki ástæðu til þess, þó að þetta sje eflaust ágætismaður, að fara að veita honum styrk fremur en hverjum öðrum hafnsögumanni á landinu. Væri þetta gert, þá skapaðist líka fordæmi og aðrir mundu koma á eftir.

Sama er að segja um b-liðinn, sem er um styrk til Freygarðs Þorvaldssonar til þess að koma í framkvæmd uppfyndingu hans. Sá hv. þm., sem talaði fyrir þessu, gat þess, að hann hefði ekki þekkingu til þess að dæma um þessa uppfyndingu, og n. getur tekið undir það. Hún hefir heldur enga þekkingu á þessu, og það lágu ekki fyrir nein gögn um þetta. Það má vel vera, að þarna sje eitthvað mikilsvert á ferðinni, en n. gat ekki bundið nafn sitt við það, sem hún veit ekki hvað er.

Þá kemur brtt. við 17. gr. 11 (Stórstúkan), að í staðinn fyrir 8 þús. komi 10 þús. Meiri hl. n. mælir með þessu, en jeg verð að geta þess um leið frá sjálfum mjer, að jeg vil lýsa yfir vanþóknun minni á þeim ummælum, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði, þegar hann reifaði málið, og fór hann þá inn á mjög óheppilega braut, og ber hann algerlega ábyrgð á þeim umr., sem um þennan lið hafa orðið hjer í dag. Hann byrjaði með því að gera málið pólitískt og fór að tala um aðstöðu flokkanna til goodtemplarareglunnar. Þetta er með öllu órjettmætt, því að það voru allir flokkar jafnt, sem feldu hækkunartill. við 2. umr. Í reglunni eru menn af öllum flokkum, svo að það er ekki hægt að draga hana í neinn pólitískan dilk. Mjer var líka illa við, þar sem hv. þm. var að gera lítið úr gildi og eftirliti með áfengislögunum, og þótti mjer það koma úr hörðustu átt, — frá stórstúkunni sjálfri, sem hv. þm. (JÓl) telst til.

Sama er að segja um hv. þm. N.-Þ. Sá hv. þm. ljet hjer falla þau orð, sem voru algerlega órjettmæt í garð þessa þjóðþrifamálefnis. Það er öllum vitanlegt, að drykkjuskapurinn var hjer lengi þjóðarböl, og að hann er það ekki nú, er hvað mest starfsemi reglunnar að þakka, því að hún hefir rifið niður það álit, að það sje sómi að því að vera drukkinn við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Ef menn ætla nú að fara að eyðileggja þennan fjelagsskap og draga úr áliti hans, þá er það ekki þeim, sem að slíku standa, að þakka, ef drykkjuskapurinn verður hjer ekki þjóðarböl aftur. Jeg vil svo beina því til hv. þdm., að minnast þess hjer sem oftar, að þó að menn sjeu syndugir sjálfir, þá er þó eitt þrep neðar, og það er að lítilsvirða og eyðileggja tilraunir annara í þá átt að halda sjer hreinum af þeim sömu syndum.

Þá kemur till. frá hv. 2. þm. Reykv. við 17. gr. 19. Það er nýr liður um styrk til sjúkrasjóðs verkamannafjelagsins Drífanda í Vestmannaeyjum. N. hefir ekki tekið neina ákvörðun um þetta mál, en eftir þeim gögnum, sem jeg hefi fengið í hendur, virðist þetta fjelag hafa sömu aðstöðu og önnur hliðstæð fjelög. Jeg vil því mæla með varatill.

Næsta brtt. er við 18. gr. II. a. 2, nýr liður: Til Sigurðar Kvarans hjeraðslæknis, 405 kr. N. klofnaði um þessa brtt. og hefir óbundin atkv. um hana.

Þá kemur till. frá tveim hv. þm. um hækkun á eftirlaunum Kristbjargar Marteinsdóttur ráðherraekkju, og hefir n. einnig óbundin atkv. um hana.

Sama er að segja um till. frá hv. þm. V.-Ísf. um hækkun á eftirlaunum Jóhannesar Sigfússonar og Sigurjóns Rögnvaldssonar. N. hefir óbundnar hendur um þessa brtt., og einnig um brtt. frá hv. þm. N.-Þ. um 100 kr. hækkun til Guðmundar Kristjánssonar.

Þá kemur brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. um 300 kr. styrk til Einars Ólasonar pósts, og hefir n. óbundnar hendur um hana. Jeg vil þó gera þá aths. frá sjálfum mjer, að jeg hefi sjálfur mikla tilhneigingu til þess að vera með þessu. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá hefir þessi maður orðið fyrir órjettmætum ásökunum, álitshnekki og atvinnumissi fyrir mörgum árum. Væri þetta því vel viðeigandi uppreisn fyrir hann á gamals aldri, að veita honum þennan litla styrk.

Um LXXVII. brtt., við 18. gr. II. g. 6, sem er um styrk til Guðmundar Friðjónssonar, hafði n. óbundin atkv. við 2. umr., og svo er enn.

Næst kemur brtt. við 18. gr. frá hv. 1. þm. Skagf. Það er nýr liður, til Sigríðar Magnúsdóttur hjúkrunarkonu, 500 kr. Jeg talaði um þessa brtt. við 2. umr., og það er með hana eins og þá, að n. er á móti henni. Það er þó ekki af því, að þessi hjúkrunarkona eigi ekki alt gott skilið, heldur er það eingöngu af því, að ef fjárl. eru opnuð fyrir þessari einu, þá eru þar komnar opnar dyr fyrir allar aðrar hjúkrunarkonur á landinu. Það kann vel að vera, að hjúkrunarkonur verði einhverntíma settar á eftirlaun, en þá verður að setja ákvæði um það í launalögin. (MG: Það er ein komin áður, fröken Kjær). Já, en það stóð víst öðruvísi á um hana, því að eftirlaun hennar verða að skoðast sem sjerstök heiðurslaun.

Þá er brtt. frá hv. þm. Barð. um að bæta Suðurfjarðahreppi í hóp þeim hreppa, sem fá uppgjöf vaxta og gjaldfrest um 1 ár á lánum úr viðlagasjóði. Það lágu ekki fyrir n. neinar upplýsingar um fjárhag þessa hrepps, og hún getur ekki fallist á þetta meðan ekki koma óyggjandi sannanir um, að þess sje þörf.

Þá kemur brtt. frá sama hv. þm. við 22. gr., að aftan við gr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: „Stj. er heimilt að gefa Halldóri Arnórssyni umbúðasmið eftir eftirstöðvar af viðlagasjóðsláni því, er honum var veitt 1922“. N. er á móti þessu, en hefir þó ekki nema alt gott um manninn að segja. Hann nýtur hylli og trausts allra, og ríkið hefir áður veitt honum styrk og lán til þess að smíða gervilimi, og n. gat ekki betur sjeð en að búið væri að gera vel við hann og ekki væri ástæða til þess að hlaupa nú upp til handa og fóta og gefa honum eftir lánið, meðan ekki væru fyrir hendi neinar upplýsingar um, að þess væri þörf. Gervilimir frá þessum manni eru, eftir því sem hv. þm. Barð. skýrði frá, ódýrari og betri heldur en þeir útlendu, og ætti það að vera næg trygging fyrir því, að þeir verði keyptir hjá honum og hvergi annarsstaðar. — Mjer finst rjett í þessu sambandi að minnast á eina brtt. frá fyrri hl., sem hefir dregist hjer inn í umr. Hún er frá hv. 1. þm. Árn. og er þess efnis, að styrkur til gervilimakaupa sje bundinn því skilyrði, að gervilimurinn sje smíðaður innanlands. Jeg verð að leggja mjög á móti þessari brtt., því að ef þessi maður, sem hjer er um að ræða, skyldi nú t. d. deyja, þá væri ekki lengur nein heimild til þess að veita veikum mönnum styrk til þess að kaupa sjer gervilimi.

Svo koma þrjár allstórvægilegar brtt., sem n. hefir ekki getað tekið afstöðu til, og ætla jeg því að geyma þær þangað til seinna í kvöld, þegar jeg hefi átt tal um þær við n.

Síðan kemur till. frá hv. 1. þm. Skagf. um að endurgreiða ekkju Bjarna Jónssonar frá Vogi úr lífeyrissjóði embættismanna það, sem hann hafði í sjóðinn greitt. Þetta hefir legið fyrir n. áður, og allir nm. höfðu mikla löngun til þess að gera þetta, en voru hræddir um, að það væri ef til vill ekki lögum samkv. Þar sem það er nú lögfræðingur, sem ber þetta fram, þá má víst ganga út frá því, að ekkert sje við það að athuga að forminu til, og mun jeg því greiða atkvæði með þessu, í þeirri von, að flm. till. hafi hjer lög að mæla.

Brtt. á þskj. 431 verð jeg að láta bíða þangað til síðar, að n. hefir tekið afstöðu til hennar.

Þá er það að síðustu brtt. á þskj. 442, frá hv. 1. þm. Reykv., um hækkun á styrk til Ólafs Rósenkrans. N. leggur mjög eindregið með því, að þessi aldraði sómamaður fái þetta og viðurkennir, að hann sje vel að því kominn, og að hún tók þetta ekki upp sjálf, stafar frekar af gleymsku.

Jeg man svo ekki eftir, að það sje fleira, sem jeg þarf að taka fram fyrir hönd n. að sinni.