08.05.1929
Efri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Páll Hermannsson):

Jeg get búist við því, að það, sem fyrst og fremst kunni að vekja eftirtekt hv. þdm., sje það, hvað fjvn. hefir haft stuttan tíma frá því er frv. kom til hennar og þar til það nú kemur til 2. umr. En eins og hv. þdm. er ljóst, var liðinn langur tími frá þingsetningu þangað til frv. var sett í n. hjer. Telst mjer til, að það sjeu 75 dagar þar á milli. Nú er það vitanlegt, að þótt sjálfsagt sje að hrapa ekki að jafnþýðingarmiklu máli til að losna við langt þing, þá er hitt þó þýðingarmikið atriði, að þingtíminn verði ekki óhæfilega langur. Þetta var n. ljóst, og hún hefir að nokkru leyti haft hliðsjón af því við afgreiðslu málsins. N. vildi ekki hrapa að sínum till., en hraðaði verkinu meira en hún hefði gert, ef styttra hefði verið liðið á þingtímann. Það orkar líka tvímælis, hvort nokkuð hefst upp úr því að hanga lengi yfir fjárlögunum. N. getur því að nokkru afsakað sig með því, hvað tíminn var stuttur, ef sjerstakir gallar kunna að finnast á starfi hennar, en þó vona jeg, að enga stórgalla sje hægt að finna fyrir þessar sakir. Jeg hygg, að það sje óvanalegt, að fjvn. hafi fjárl. svona stuttan tíma undir höndum, þar sem ekki er nema vika síðan hún fjekk þau til meðferðar. Af þessum ástæðum hefir n. leitt hjá sjer viss þýðingarmikil atriði, eins og t. d. tekjuhliðina, þar eð hún hefir ekki komið fram með neinar till., sem miða að því að jafna tekjuhallann. N. var það ljóst, að hún á að skila tekjuhallalausum fjárl., með varlegri áætlun tekna og gjalda. En eftir að Nd. hefir afgreitt þau með 50 þús. kr. tekjuhalla, þá er ekki við því að búast, að hann verði lækkaður nú við þessa umr., því það er ekki nema eðlilegt, að þeir hv. þm., sem hjer sitja, hafi líka sínar kröfur, þannig að tekjuhallinn aukist, en minki ekki. N. fanst heppilegra að draga álit sitt um útrýmingu tekjuhalla til 3. umr. og koma þá fram með sínar till. um, hvað út af fjárlögum skuli tekið, því að þá fæst meira yfirlit yfir, hvað gera þarf, ef skila á frá d. tekjuhallalausum fjárl. Þær breyt., sem n. leggur til, eru í heild sinni smávægilegar. Hún hefir hvorki skift sjer af stórum tekjuliðum nje gjaldaliðum, en reynt hinsvegar að sníða af þá annmarka, sem á frv. voru, og einnig borið fram þær hækkunarkröfur, sem henni fanst að væru rjettmætar og eðlilegar. Náttúrlega má segja, að fyrir liggi fjöldi hækkunartill., sem gott væri að þingið gæti orðið við, en þær eru misjafnlega tímabærar og getan smá, og við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Það leiðir af líkum, að þótt góð samvinna hafi verið í n., hafa nm. ekki verið sammála um alt, enda hafa þeir þá óbundnar hendur. Þar sem minst er á n. í nál., er annaðhvort átt við n. alla eða meiri hl. hennar. Svo verður þetta einnig í framsögunni. Jeg sje ekki ástæðu til að tala frekar um störf n., en vil aðeins geta þess, að hún hafði kynt sjer þau skjöl, sem fyrir lágu, áður en fjárl. komu til hennar, og við það studdist hún. Ef þær till. verða samþ., sem n. mælir með, mun tekjuhallinn aukast um 30 til 40 þús., eða verða full 80 þús. kr. í alt.

Vil jeg svo víkja að brtt. n., hverri fyrir sig, og skal reyna að vera eins stuttorður og mjer frekast er unt, enda er þýðingarlítið að fjölyrða mikið um slíkar till., eftir að skrifað hefir verið um þær nál.

Fyrsta brtt. n. er við 10 gr. frv. og er í því fólgin, að lagt er til, að núv. ríkisbókara verði greidd 1000 kr. persónuleg launaviðbót. Er þetta gert að till. hæstv. fjmrh. Hann tjáði n., að laun bókarans væru lítil, en hann væri fátækur maður og starfsmaður góður. Hinsvegar leit ráðh. svo á, að þetta myndi kleift án þess að hækka liðinn til ríkisfjehirðisstarfa í heild. Fjelst því fjvn. á þessa till. hæstv. fjmrh.

Við 11. gr. hefir n. gert eina brtt., um að hækka liðinn, sem ætlaður er til endurskoðunar skipamælinga, úr 500 kr. upp í 1000 kr. Starfi þessu hefir Páll Halldórsson skólastjóri gegnt síðan 1904 og jafnan fyrir lítið gjald. Þannig fjekk hann ekki nema 300 kr. á ári til ársloka 1917, en úr því 500 kr. Nú er það upplýst. að störf þessi hafa aukist mjög mikið síðan 1904, og að engin breyt. var gerð á launum fyrir þau 1919, þegar launalögin voru endurskoðuð. Nú fer skólastjórinn fram á, að þóknun fyrir þetta starf verði hækkuð tilsvarandi því, sem aðrir hliðstæðir liðir voru hækkaðir 1919. Með hækkun þessari hefir hæstv. fjmrh. líka mælt, og þar sem n. telur hana sanngjarna, leggur hún til, að hv. d. samþ. brtt. þessa.

Þá hefir fjvn. gert nokkrar brtt. við 12. gr., og er sú fyrsta þess efnis, að liðurinn, sem ætlaður er læknum til utanfarar, verði hækkaður úr 2000 kr. upp í 3000 kr., og svo er jafnframt lagt til, að lækninum í Vestmannaeyjum, Ólafi Ó. Lárussyni, verði veittar af þessu fje 1500 kr. til utanfarar, en að öðru leyti á að verja fje þessu eftir sömu reglum og áður hafa gilt um úthlutun þess. N. leit svo á, að þessi maður hefði nokkra sjerstöðu meðal íslenskra lækna, fyrst og fremst sökum þess, hve tíðar eru skipakomur við Eyjar, og jafnframt slysa- og sjúkdómahætt þeim, sem þar stunda atvinnu. Er því nauðsyn að hafa á þessum stað mann með góðri þekkingu og atorku. Að vísu komu fram í n. raddir um það, að læknir þessi myndi svo efnum búinn, að hann gæti farið utan upp á eigið fje án styrks frá hinu opinbera, þar sem hann sæti nú í góðu og tekjumiklu hjeraði. En því er alls ekki þannig varið með þennan lækni. Hann er fátækur fjölskyldumaður, sem lengst hefir setið í mjög tekjurýru hjeraði og er því frumbýlingur á þessum stað. Meiri hl. n. vill því leggja til, að honum verði veittur þessi utanfararstyrkur. Upphaflega sótti læknir þessi um 3000 kr. utanfararstyrk, til dvalar í sjúkrahúsum í Austurríki og Þýskalandi við framhaldsnám í almennum lækningum. Þá má geta þess, að í n. kom fram sú skoðun, að rjettara myndi að greiða betur en gert hefir verið að undanförnu fyrir læknum í embætti til utanfarar, til þess að kynnast nýjungum í læknisfræði, en veita aftur færri mönnum námsstyrk í sama augnamiði. Þetta ber þó ekki að skoða sem till. frá n.

Þá er hjer við 12. gr. brtt. um það, að fella niður þrjá sjúkrastyrki, til Ólafs Stefánssonar, Unnar Vilhjálmsdóttur og Þorgilsar Þorgilssonar. Á þessa till. n. ber þó ekki að líta þannig, að hún geti ekki vel fallist á, að þessir sjúklingar hafi fulla þörf fyrir slíka hjálp sem þessa styrki, heldur eru þessar till. hennar bygðar á þeirri skoðun, að ekki sje hægt og ekki verði hægt að veita slíka sjúkrastyrki svo rjettlæti verði í. Fyrst og fremst er það tilviljun ein, hverjir sækja um þá, og þá ekki síður tilviljun, hverjir komast inn í fjárl. Ljóst dæmi þessa er það, hve mikið komst inn í fjárl. við 2. umr. í Nd. af persónulegum styrkjum, en varla nokkur við 3. umr. þar. Var það því skoðun n., að ekki ætti að veita slíka styrki, þar sem engin trygging væri fyrir því, að þeir kæmu rjettlátlega niður. N. leit líka svo á, að ríkið gerði töluvert fyrir sjúka menn, og því væri ekki sanngjarnt að gera kröfu til, að það gerði meira fyrir þá en hægt væri að gera í landinu sjálfu.

Þá eru brtt. n. við 13. gr. Fyrsta brtt. er sú, að fella niður þann lið, sem ætlaður er til dragferju á Hólsá í Rangárvallasýslu. Að n. leggur þetta til, er ekki fyrir þær sakir, að hún telji ferju þessa óþarfa, heldur telur hún, að hjer sje um fyrirtæki að ræða, sem ekki hafi áður verið kostað af fje ríkisins á sama hátt og hjer er ætlast til. Reyndar má geta þess, að farartæki þetta mun hugsað öðruvísi en slík farartæki hafa verið áður, þar sem ætlast er til, að hægt verði að ferja hjer bifreiðar. Líka fanst n. mál þetta vera miður undirbúið en skyldi, og auk þess er ferja þessi einu sinni ekki á sýsluvegi. Þá virtist n. líka, að lög myndu standa þannig til, að ekki þyrfti að fá sjerstakt framlag til ferju þessarar, ef leiðin, sem hún er á, yrði gerð að sýsluvegi. Þó að n. þyki leitt að ráðast á verklegar framkvæmdir, þá leggur hún þó til, að þessi liður verði tekinn út að þessu sinni.

Einnig leggur n. til, að aths. við fjárveitinguna til símalagninga falli niður, þar sem svo var tiltekið, að nokkur hluti þessa fjár færi til ákveðinnar símalínu á Vestfjörðum. Nú lágu fyrir n. upplýsingar um það, að af þeim 350 þús. kr., sem áætlaðar eru til símalagninga, sje þegar fastráðstafað 300 þús. kr. Er því ekki nema um 50 þús. kr. að ræða af þessu fje, sem ekki eru þegar ráðstafaðar. Fanst n. því ekki tiltækilegt að binda hendur landssímastjóra og stj. um það, hvernig þessum 50 þús. kr. skyldi varið. Þetta er þó alls ekki bygt á því, að n. telji ekki, að þörf sje á símalínu þarna vestur frá. Þvert á móti viðurkennir hún þörf hennar fullkomlega, því að hún er önnur af tveimur línum, sem ennþá eru ólagðar af þeim línum, sem taldar eru í símalögunum frá 1913. Hin er niður í Þykkvabæinn í Rangárvallasýslu. Þá vil jeg líka geta þess, að síðan n. samdi till. sínar, hefir hún orðið þess vör, að töluverður ágreiningur er um það þar vestra, hvernig lína þessi skuli liggja. Hafa t. d. borist óskir um það símleiðis, að lína þessi verði lögð annarsstaðar en hún mun ákvörðuð nú. Á þetta atriði leggur n. vitanlega engan dóm, en það virðist þó frekar benda til þess, að ástæða sje til að ákvarða ekki neitt fast um þessa línu nú.

Þá hefir n. lagt til, að tekinn verði upp í 13. gr. nýr liður, 5100 kr. til lendingarbóta við Unaós, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar frá. Fyrir n. lá áætlun um þetta verk, gerð að tilhlutun vitamálastjóra. Í áætlun þessari er gert ráð fyrir, að verkið alt kosti 10200 kr. Þeir, sem kunnugir eru þar eystra og þekkja til staðhátta, eru allir á einu máli um það, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða. Unaós er eini staðurinn við Hjeraðsflóa, er notaður verður sem lendingar- og upplagsstaður fyrir vörur. Hann liggur þar, sem erfitt er um vegi og langt til annara kaupstaða, og hafa því verið lagðar þar upp vörur alt til þessa. En nú hefir viljað svo til, að sá staður þarna, sem notaður hefir verið til lendingar, hefir eyðilagst af völdum náttúrunnar. Vík, sem lent hefir verið í, hefir fylst af sandi. Nú hagar þannig til þarna, að skamt frá þessari gömlu vík er önnur vík, sem lenda má í, en í kringum hana eru hamrar, svo ekki er hægt að koma upp vörunum nema með því móti að lyfta þeim upp á hamra þessa, en til þess þarf að setja tæki á þá, sem hægt er að lyfta upp vörunum með, og við slík tæki er áætlun þessi einmitt miðuð.

Nú er strandferðaskipinu „Esju“ ætlað að koma þarna við í tveimur ferðum, en þær viðkomur skipsins koma að engum notum fyrir Hjeraðsbúa, ef ekki verður búið að koma þessum umbótum á áður. Að síðustu vil jeg geta þess, að þær vörur, sem þarna hafa verið settar upp, hafa oft bjargað fjenaði í harðindavetrum, a. m. k. í 5 hreppum, því að svo hagar til þarna, að fjöllin umlykja hjeraðið á alla vegu, nema að því leyti, sem það nær að Hjeraðsflóa. Er því oft ókleift til aðdrátta yfir þau. Til umbóta þessara hefir sýslunefnd Norður-Múlasýslu lofað 2000 kr. Hitt það, sem til vantar, verður að borgast af einum fátækum hreppi.

Þá hefir n. einnig lagt til, að tekinn verði upp í þessa grein nýr liður, 16 þús. kr., eða 1/3 kostnaðar, til hafnargerðar í Ólafsvík. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir þetta mál verið hjer á ferðinni áður. Mun láta nærri, að búið sje að leggja í þetta mannvirki 45 þús. kr., og er nú gert ráð fyrir, að hægt verði að ljúka þessu verki, ef hinar umræddu 15 þús. kr. fást. Reyndar er nú svo, að til eru lög frá 1919 um stórkostlegri hafnarmannvirki í Ólafsvík en þetta, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 1/4 kostnaðar. Hjer er frekar um lendingarbætur og þá máske einskonar bátahöfn að ræða, og er því lagt til, að veittur verði 1/3 kostnaðar í stað 1/4, sem gert er ráð fyrir í umgetnum lögum um hafnargerð í Ólafsvík.

Þá vil jeg geta þess í sambandi við þennan lið, að fyrir n. lá einnig beiðni um ábyrgð frá Ólafsvíkurbúum vegna Íslendingarbóta þessara, en til hennar hefir n. ekki tekið afstöðu ennþá, en mun gera það fyrir 3. umr. N. lítur nú svo á, að nauðsynlegt sje að fullgera þetta verk, sem þegar virðist vera orðið nokkuð dýrt, svo árangur af verkinu geti farið að koma í ljós.

Við 14. gr. hefir n. gert 10 brtt., og er þá fyrst að nefna þá brtt., að n. leggur til, að námsstyrkur sá, sem úthluta á eftir till. mentamálaráðsins, verði hækkaður úr 8 þús. kr. upp í 12 þús. kr. 8000 kr. myndu ekki hrökkva til að sinna allra nauðsynlegustu kröfum þeirra, sem komust inn í fjárl. í fyrra og þyrfti að styrkja áfram. Það er nú mín skoðun, að alt of margir námsmenn hafi komist inn í fjárl. í fyrra, enda var það látið í ljós bæði hjer og í Nd., að ekki bæri að skilja styrkveitingarnar svo, að um áframhald á þeim væri að ræða yfirleitt. Jeg býst við, að sumir hafi fallið frá styrknum vegna þessarar yfirlýsingar, og aðrir þeir, er styrks nutu í fyrra, hafi nú lokið námi. En jeg verð að viðurkenna, að óheppilegt er, að þingið skuli byrja á því að styrkja menn til náms erlendis með það fyrir augum, að svifta þá styrk á næsta ári. Yfirleitt er það óheppilegt, að þingið sjálft taki ákvarðanir um þessa styrki. Því hefir n., eða meiri hl. hennar, fallist á, að rjett sje að hækka heildarupphæðina, sem veitt er í þessu skyni, í 12000 úr 8000 kr., ef hægt er með því móti að losna við alla einstaka námsstyrki. En jafnframt þessu hefir n. lagt til, að feldur yrði niður styrkur til Kristins Björnssonar, sem er að vísu við framhaldsnám í læknisfræði, með það fyrir augum, að mentamálaráð veitti honum þennan styrk af heildarupphæðinni, ef því svo sýndist.

Þá hefir n. lagt til, að hækkaður yrði styrkur til Iðnaðarmannafjelagsins á Akureyri til kvöldskólahalds úr 1200 í 2000 kr. Þetta fjelag heldur uppi myndarlegum skóla og á vandað skólahús, þótt það hafi eigi kostað nema 20 þús. kr. Nálægt 30 iðnnemar hafa verið í skólanum í vetur, og auk þess um 50 almennir kvöldskólanemendur. Fræðslumálastjóri hefir mælt mjög með því við einstaka nm., að þessi styrkur yrði hækkaður og telur skólann mjög góðan. Iðnaðarmannafjelagið hafði sótt um 3500 kr. í þessu skyni, en n. sá sjer ekki fært að veita meira en 2000 kr.

Þá leggur n. til, að veittar sjeu 800 kr. til samskonar skóla í Hafnarfirði. Fjelagið sótti um 1000 kr., en n. þótti rjett að veita 800 kr.

Ennfremur leggur n. til, að tekinn sje nýr liður inn á 14. gr., 4000 kr. til endurbóta á húsi kvennaskólans á Blönduósi. Sótt var um 5000 kr. og lá fyrir áætlun um verkið. N. virtist þörf á, að verkið væri unnið, og leggur því til, að veittar væru 4000 kr. til þess.

N. leggur til, að tekin verði út fjárveiting til gagnfræðaskóla Reykvíkinga, sem svo er nefndur, 2000 kr. N. leit að vísu svo á, að þetta væri ekki of há upphæð, ef styrkur væri veittur á annað borð, heldur taldi meiri hl. n., að hjer væri að ræða um skóla fyrir einstaka menn, sem hefðu ráð á að halda honum uppi, og enn síður ástæða til að styrkja skólann vegna þess, að hjer væri nýstofnaður skóli, sem væri eigi svo markaður bás, að hann hefði eigi getað tekið við nemendum „gagnfræðaskólans“, ef aðstandendur þeirra hefðu viljað nota hann.

Þá hefir n. og lagt til, að tillagið til Flensborgarskólans yrði veitt í sameiningu við tillagið til annara lýðskóla í landinu. Þetta er ekki gert með það fyrir augum að rýra tillagið til skólans. N. leggur ekki til, að upphæðin í heild lækki um meira en 1000 kr. en sú lækkun þyrfti ekki endilega að koma niður á Flensborgarskólanum. En stj. hafði lagt til, að styrkurinn væri veittur í einu lagi, og n. þótti rjett, að þessi skóli væri sömu skilyrðum háður og aðrir slíkir skólar úti um land.

Þá þótti n. rjett að leggja til, að styrkurinn til útgáfu kenslubóka yrði hækkaður úr 2500 kr. í 3500 kr. Þetta er gert með hliðsjón af þörf mentaskólans á nýjum kenslubókum á íslensku. Liðurinn er að vísu ætlaður til kenslubóka yfirleitt. En mentaskólinn hafði kvartað mjög um skort á íslenskum kenslubókum og óskað eftir sjerstöku tillagi til sín í þessu efni. N. vildi hækka liðinn með hliðsjón af þessum skóla, en láta aðra skóla njóta góðs af. N. telur, að ilt sje, að nægar kenslubækur sjeu ekki til á íslensku og vill með þessu bæta nokkuð úr þeirri þörf.

Þá er við þessa gr. brtt. um að setja inn í fjárl. allstóran lið, borinn saman við aðrar brtt. n. Það er 20000 kr. framlag til húsmæðraskóla, gegn jafnmiklu annarsstaðar frá. Flestir munu sammála um, að þörf sje á nýjum húsmæðraskólum úti um land og að hin brýnasta þörf sje á því, að bæta úr skorti á húsmæðrafræðslunni umfram það, sem verið hefir. N. þótti rjett, að svona liður væri í fjárl., sem taka mætti til, þar sem ástæður væru fyrir hendi. Um þetta atriði varð þó alvarlegur ágreiningur í n., og þetta er eina ágreiningsatriðið, sem bókað er í nál. En í sambandi við þetta hefir slæðst inn prentvilla, eða, sem jeg tel líklegra, misritun hjá mjer í nál. Þar stendur, að minni hl. sje mótfallinn nokkru framlagi til húsmæðraskóla, meðan ekki sje komið fast skipulag á þessi mál, en á að vera auknu framlagi. Annars mun jeg ekki fara nánar út í þetta efni að sinni, þar sem jeg býst við, að hv. minni hl. muni gera grein fyrir afstöðu sinni í umr. í dag, og verður þá tækifæri til þess að ræða liðinn nánar.

Í fjárlfrv. eins og það kom frá Nd. voru ætlaðir tveir styrkir til íslenskra glímusýninga erlendis. önnur fjárveitingin var til glímufjelagsins „Ármanns“ til að sýna íslenska glímu í Þýskalandi, en í 41. lið 15. gr. var einnig veittur styrkur til íþróttafjelags stúdenta, til þess að fara utan í sama augnamiði. N. þótti viðurhlutamikið að veita hjer tvo styrki í sama tilgangi. Hinsvegar átti hún ekki gott með að gera upp á milli þessara tveggja fjelaga og var heldur ekki viss um, að nauðsynlegur undirbúningur væri fyrir hendi. N. ræður því deildinni til að fella báða þessa styrki.

Þá kemur 15. gr. Við hana hefir n. gert nokkrar brtt. Er þá fyrst að telja 1000 kr. til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði. Amtsbókasafnið hafði sótt um 2000 kr. styrk til bókakaupa og til að halda opnum lestrarsal. Reikningur yfir rekstur safnsins 1928 lá fyrir, og sást á honum, að töluvert hafði verið hlynt að safninu, þótt úr litlu væri að spila. Bærinn hafði veitt 1300 kr. til safnsins, Norður-Múlasýsla 200 kr. og ríkið 200 kr. Hafði verið varið um 9C0 kr. til að semja spjaldskrá yfir safnið, 800 kr. til bókbands, en einum 74 kr. til bókakaupa. Nú er veitt talsvert fje til amtsbókasafnsins á Ísafirði og Akureyri til þess að halda þessum söfnum í góðu lagi og halda opinni lestrarstofu. Að vísu stendur nokkuð sjerstaklega á um þessi tvö söfn, því að fjárveitingin til þeirra er að nokkru leyti skáldastyrkur, sem bundinn er við nöfn einstakra manna. Af þeirri ástæðu hefir n. ekki sjeð sjer fært að leggja til hærri upphæð en 1000 kr.

Þá er nýr liður til Björns K. Þórólfssonar, til að skrásetja og afrita skjöl, er Ísland varða á söfnum í Kaupmh., 1500 kr. Þetta er kunningi frá þinginu í fyrra og var þá tekið fram, að þetta verk tæki fleiri ár. Hafa legið fyrir meðmæli frá merkum vísindamönnum um, að þessi maður sje starfinu vaxinn og verkið nauðsynlegt. N. leit svo á, að ljúka þyrfti þessu verki og lagði til, að sama upphæð yrði veitt til þess og í fyrra.

N. leggur til, að styrkurinn til Leikfjelags Akureyrar verði hækkaður úr 1000 kr. í 1500 kr. Leikfjelag þetta er vel útbúið á okkar vísu, hefir góðum kröftum á að skipa og hefir haft myndarlegar leiksýningar. N. þótti líka rjett að hækka þennan lið, vegna þess að eftir því sem ákveðið er í fjárl. er Akureyrarbær skyldur til að leggja fram hærra tillag á móti ríkissjóðsstyrknum heldur en Reykjavík og Ísafjörður. Akureyri á eftir frv. að leggja fram helming tillags, en Rvík og Ísafjörður þriðjung. N. þótti rjett að jafna þennan mismun með því að hækka tillagið til Leikfjelags Akureyrar, þannig að hlutföllin yrðu þau sömu.

N. vill lækka styrkinn til Karlakórs Rvíkur, til að afla sjer kenslu í söng, úr 2000 kr. í 1000 kr. N. taldi athugavert að ganga inn á þá braut að styrkja söngfjelag til að fá kenslu, en vildi þó til samkomulags veita 1000 kr. og taldi það myndi koma að nokkrum notum, meðfram með hliðsjón af því, að annað söngfjelag nýtur óbeinlínis styrks úr ríkissjóði.

Þá hefir n. lagt til, að ferðastyrkur til hins góðkunna landa okkar, Jóns Sveinssonar, prests í Frakklandi, yrði hækkaður um 600 kr. Stendur til að bjóða honum hingað 1930, og n. leit svo á, að úr því að stuðlað væri að því á annað borð, að þessi maður kæmi hingað heim, þá ætti a. m. k. að gera hann skaðlausan af ferðakostnaði. Er gert ráð fyrir, að til þess nægi 1200 kr.

N. hefir lagt til, að feldur yrði niður styrkur til Samúels Eggertssonar til að gefa út hlutfallauppdrátt af sögu Íslands. N. er ekki kunnugt um, að fram hafi komið óskir um þetta frá skólum, eða þessháttar kort vanti. N. þótti og vafasamt, að þvílíkt kort kæmi að fullu liði, þótt gert yrði, og leggur því til, að liðurinn verði feldur niður.

Við 15. gr. er einnig sú brtt., að fella niður glímustyrkinn til stúdenta, en um hana hefi jeg þegar talað.

Við 16. gr. hefir n. gert 8 brtt. Er þá fyrst að minnast á nýjan lið, 20000 kr. til rannsókna í þarfir atvinnuveganna. Þetta er sjálfsagt eftir þeim lögum, sem samþ. hafa verið um rannsóknir í þarfir atvinnuveganna, því að þar er svo ákveðið, að fje til þeirra sje veitt í fjárl. — Í sambandi við þessa till. er lagt til, að niður falli 4000 kr. til rannsóknar búfjársjúkdóma, því að nú er gert ráð fyrir, að þessi nýja rannsóknarstofa taki það hlutverk að sjer.

Einnig leggur n. til, að gjaldaliður, 8800 kr., til síldarmatsmanna falli niður. Það er einskonar leiðrjetting, sem gerð er vegna þess, að síldareinkasalan á nú að gjalda síldarmatsmönnunum kaup. Þess vegna leiðir það af sjálfu sjer, að þessi upphæð þarf ekki að standa í fjárl.

Þá leggur n. til, að liður sá, sem ætlaður er til gerlarannsókna, verði niður feldur. Sá maður, sem vann fyrir þessum styrk, Gísli Guðmundsson, er nú dáinn. Að vísu hefði ef til vill getað komið maður í hans stað, en þar sem ætlaðar eru 2500 kr. til rannsóknarstofu háskólans, taldi n. rjett, að þessi liður yrði feldur niður.

N. hefir borið fram aths. við gjaldaliðinn til Samb. ísl. heimilisiðnaðarfjelaga, þar sem ætlast er til, að af honum verði greiddar 500 kr. til Geirs Þormars, til að halda uppi kenslu og námskeiðum í trjeskurði á Norður- og Austurlandi, á sama hátt og ákveðið var á þinginu í fyrra. Þá var álitið rjett að styrkja hann til kenslu í trjeskurðarlist á líkan hátt og Guðmund frá Mosdal á Ísafirði. Ástæður fyrir þessu eru hinar sömu og í fyrra og aths. hagað eins.

Þá hefir n. lagt til, að styrkur til landsfundar kvenna verði hækkaður úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Taldi hún það rjettlátt, vegna þess að búast mætti við, að landsfundurinn yrði fjölmennari en þeir fundir hafa verið áður og hafa meiri þýðingu en endranær.

Þá vildi n. fella niður styrkinn til Dýraverndunarfjelagsins. Ekki vegna þess, að hún vildi gera sjerstaklega lítið úr starfi þess, heldur bjóst hún við, að því fje yrði ráðstafað til þess að bera uppi blaðaútgáfu fjelagsins. Þar sem n. var kunnugt, að fjelaginu safnast fje á annan hátt, þá leit hún svo á, að þessi styrkveiting til blaðsins væri ekki nauðsynleg.

Þá ber n. fram nýjan lið, þar sem hún leggur til, að Hjörleifi Björnssyni á Hofsstöðum verði veittar 500 kr. í viðurkenningarskyni fyrir að hafa haft á hendi brjefhirðingu endurgjaldslaust í full 30 ár. Fyrir n. lágu skjöl um þetta efni, þar sem talið er, að hann hafi mjög lagt sig fram til að greiða fyrir póstflutningi í nágrenni sínu. Áður höfðu oft verið bornar fram óskir um, að þar yrði sett upp brjefhirðing, en það var ekki gert fyr en á síðastl. ári. Þar sem n. áleit fullar ástæður fyrir þessu og meðmæli lágu fyrir um, að hann hefði leyst þetta starf mjög vel af hendi, þá leggur hún til, að honum verði veittar þessar 500 kr. í eitt skifti fyrir öll. Það nemur rösklega 15 kr. á ári í 30 ár, ef brjefhirðing hefði verið á þessum stað.

Við 17. gr. flytur n. nokkrar brtt. Í fyrsta lagi leggur hún til, að feldir verði niður styrkir til tveggja minningarsjóða, minningarsjóðs Maríu Össursdóttur á Flateyri, 1000 kr., og styrktarsjóðs Margrjetar Bjarnadóttur í Bergvík, 800 kr. Það ber alls ekki að líta svo á, að n. viðurkenni ekki þessa sjóði góðar og þarflegar stofnanir, en hún leit svo á, að það væri að leggja út á hála braut; minningarsjóðirnir væru margir til í landinu og fleiri gætu komið á eftir með slíkar styrkbeiðnir. Vegna fordæmis og samræmis leggur n. því eindregið til, að þessir liðir verði feldir niður.

Þá ber n. fram nýjan lið, 2500 kr. til gamalmennahælisins „Höfn“ á Seyðisfirði, til stofnkostnaðar. Fyrir n. lágu skýrslur um, að fjelagið hefði á síðastl. ári komið upp myndarlegu gamalmennahæli. Fjelagið hafði keypt hús fyrir 16500 kr. Átti það 10000 kr. í sjóði, en tók að láni 6500 kr. Fjelagið hefir keypt húsbúnað og útbúið húsið þannig, að hælið er tekið til starfa, og rúmar það 15–20 gamalmenni. N. þótti rjettlátt, að ríkið styrkti fjelagið að einhverju leyti til þess að koma upp þessari nytja og mannúðarstofnun, en lýsir yfir því, að þessi styrkur er til stofnkostnaðar, þannig, að ekki er hægt að gera sjer vonir um árlegan rekstrarstyrk til hælisins.

Þá hefir n. breytt orðalagi um 1000 kr. styrkveitingu til gamalmennahælis Ísfirðinga þannig, að hún yrði skoðuð sem húsaleigustyrkur. N. veit ekki, hvort bærinn á húsið, en telur, að þetta geti orðið sambærilegt við styrkinn til hælisins á Seyðisfirði, og beri að skoða sem framlag til stofnkostnaðar.

Þá er komið að 18. gr. og hefur n. þar ýmsar till. Flestar þeirra eru þannig, að lítið þarf um þær að segja. Fyrst má nefna styrk til læknisekkju, Önnu Þorgrímsdóttur, sem ætlast er til, að hækki úr 1200 upp í 1300 kr. Er það aðeins leiðrjetting, gerð vegna þess, að börn hennar eru einu fleira en álitið var í upphafi.

Þá er nýr liður til læknisekkju Kristínar Þórarinsdóttur á Seyðisfirði, að upphæð 400 kr. Er það hliðstætt samskonar ekknastyrkjum. Hún er fátæk og á fullan rjett á þessum styrk.

Þá er enn nýr liður, til Óla P. Blöndals póstritara, 1800 kr. Þessi maður hefir orðið fyrir því óláni að missa heilsuna, er fjevana ómagamaður og ekki vinnufær. Í fjárl. hefir verið hliðstæður liður þessu til Friðriks Klemenssonar, 2000 kr., vegna heilsubilunar. Af því að þessi maður á rjett til 1000 kr. lífeyris, vill n. leggja til, að honum verði veittar 1800 kr., og telur það sambærilegt hinum styrknum. Fyrir n. lá umsókn frá hlutaðeiganda um 3000 kr. styrk, sem hún sá sjer ekki fært að taka til greina á annan hátt en þennan.

Þá leggur n. til, að styrkur til Ragnheiðar Bjarnadóttur, ekkju Þorleifs heitins Jónssonar póstmeistara, verði hækkaður úr 400 kr. upp í 1000 kr. Hún á engan rjett til ekkjutryggingar Maður hennar var orðinn svo gamall, þegar lög um lífeyrissjóð embættismanna gengu í gildi, að hann hafði ekki aðstöðu til að safna í þann sjóð. Það er svo að sjá, að þingið hafi hugsað sjer að bæta ekkjum hinna eldri embættismanna upp þann mismun, er þeir þannig yrðu fyrir samanborið við hina yngri. Þótti n. rjettlátt, með hliðsjón af hinu fjölþætta æfistarfi manns hennar, að hún njóti sömu aðstöðu í fjárl. og aðrar embættismannaekkjur.

Þá leggur n. til, að rithöfundastyrkur til Stefáns frá Hvítadal verði lækkaður úr 2000 kr. niður í 1000. N. hefir borist vitneskja um, að hann hafi fengið listamannastyrk samkv. 15. gr. fjárl. að tilhlutun mentamálaráðs. N. var ekki kunnugt um, hvort hann mundi verða sviftur honum þrátt fyrir þetta, og þótti því ekki ástæða til að veita svona háan styrk í þessari gr. fjárl. Telur n., að Stefán sje engum órjetti beittur með þessu.

Þá koma tveir nýir liðir til ljósmæðra: Önnu Þorsteinsdóttur á Blönduósi, 400 kr., og Kristínar Jónasdóttur, til heimilis hjer á Seltjarnarnesi, 300 kr. Báðar hafa þær tapað heilsunni, og af þeim sökum varð n. að fallast á, að þær ættu rjett til þessa styrktarfjár, eftir þeirri reglu, sem hingað til hefir verið fylgt um þessa styrki.

Ennfremur leggur n. til, að styrkur til Kristínar Gestsdóttur, ekkju Þorsteins heitins fiskimatsmanns í Reykjavík, verði hækkaður úr 400 kr. upp í 600 kr. Hún er talin að búa við örbirgð, en maður hennar var hinsvegar mikilhæfur og trúr sínu starfi, eins og kunnugt er.

Einnig leggur n. til, að Jakob Björnssyni, fyrv. síldarmatsmanni á Siglufirði og víðar fyrir norðan, verði veittur 1200 kr. lífeyrir. Hann er á áttræðis aldri, orðinn blindur og hrumur, en hefir rækt starf sitt vel. Hann hafði sótt um 1600 kr., en n. varð að telja þetta hæfilegt.

N. leggur til, að styrkur til Sigfúsar Sigfússonar á Eyvindará verði hækkaður úr 500 kr. upp í 800 kr. Fyrir n. lá umsókn frá 5 kunnum mentamönnum hjer í bænum, Sigurði Nordal, Guðm. Finnbogasyni, Árna Pálssyni, Hannesi Þorsteinssyni og Ólafi Lárussyni, þar sem óskað var eftir, að honum yrðu veittar 1500 kr. á ári, og tekið fram, að hann væri orðinn óvinnufær til annars en að vinna við þjóðsagnasöfnun sína. Talið er, að hann hafi ekkert til að lifa á, og muni því verða að láta safnið af höndum upp í útgáfukostnað þess. Vilja þeir, að hann geti fengið að dvelja hjer í Reykjavík meðan verið er að gefa út safn hans og líta eftir útgáfunni. N. sá sjer ekki fært að miða styrkinn við það, að hann gæti haft dvöl hjer í Reykjavík, en vill þó ekki, að maðurinn líði skort, og telur að hann mundi nokkuð bjargast með 800 kr. í þessari gr., ef hann dvelur áfram þar, sem hann nú er.

Þá eru eftir tvær till. frá n. við 22. gr. Sú fyrri er um það, að lánsheimild til símalagninga falli niður. Þessi till. er gerð samkv. bendingu frá hæstv. fjmrh., með því að viðlagasjóður hefir ekkert fje til útlána, en er í stórskuld við ríkissjóð. Leit n. svo á, að rangt væri að gefa tálvonir með því að láta þessar heimildir standa. Að vísu má segja það sama um fleiri liði þessarar gr., en þó telur n., að sjerstaklega standi á um þessa liði, einkum ef fleiri kynnu að æskja hins sama.

Þá er síðasta brtt. n. aths. um liðinn um eftirgjöf á láni til nokkurra manna á Stokkseyri vegna skaða í brunanum mikla 1926. Sex menn á Stokkseyri hafa sótt um eftirgjöf á þessu láni, en n. þótti ekki liggja fyrir nægileg gögn um, að sjálfsagt væri að veita þessa eftirgjöf. Þeir láta reyndar í veðri vaka, að stj. og jafnvel nokkrir þm. hafi lofað að gefa þetta lán eftir. Auk þess taka þeir fram, að þeir hefðu ekki látið sjer detta í hug að taka þetta lán, ef þeir hefðu ekki haft fulla von um, að það yrði eftir gefið. Á meðan n. veit ekki, hverju stj. kann að hafa lofað, sjer hún ekki ástæðu til að gefa eftir nema helming lánsupphæðarinnar, gegn endurgreiðslu hins hlutans jafnóðum.

Jeg hefi þá lokið að tala fyrir till. n. og hefi orðið miklu langorðari en jeg ætlaði. Sjálfur á jeg eina brtt. við fjárl., en vil ekki þreyta hv. þdm. með lengri ræðu nú.