18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Eins og menn sjá, flytur landbn. allumfangsmiklar brtt. við frv. um sveitabanka. Leyfi ég mér að fara nokkrum orðum um málið almennt og í einstökum atriðum.

Við 2. umr. flutti hv. 1. þm. N.-M. nokkrar brtt. við frv., þar sem lagt er til, að sveitabankar taki einnig að sér að lána til bústofnskaupa. N. þótti þetta ekki vel geta samrýmzt þeim sérstaka tilgangi, sem sveitabankar hafa, nefnilega að veita stutt lán til búrekstrar. Varð samt að samkomulagi, að n. athugaði málið milli umr., ef hv. 1. þm. N.-M. tæki aftur sínar brtt. í bili, sem hann og gerði. N. hefir nú haft málið um hríð til athugunar. Hefir hún m. a. rætt málið við hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. N.-M. Að því loknu var skipuð undirnefnd í málið til að semja tillögur o. s. frv. Árangurinn af öllu þessu er þá brtt. þær, sem n. leyfir sér að bera fram við hv. deild á þskj. 292.

Þótt nefndin gæti ekki fallizt á að tvinna saman sveitabönkunum stutt rekstrarlán og lengri lán til bústofnskaupa, þá viðurkenndi hún fyllilega, að nauðsyn væri á, að bændur gætu átt kost á lánum til að auka bústofn sinn og til að kaupa hin dýrari jarðyrkju- og heyskaparverkfæri. Og því ber n. fram sjálfstæðan kafla um bústofnslánafélög.

Kafli þessi kemur á eftir 14. gr. og er í 9 greinum. Er hann að miklu leyti sniðinn eftir ákvæðunum um bústofnslánadeild í lögum um Búnaðarbanka Íslands. Vil ég í fám orðum minnast á einstök atriði í þessum kafla.

Í staflið a, sem verður 15. gr. frv., eru ákvæði um, að bústofnslánadeild Búnaðarbankans veiti bústofnslánafélögunum í sveitunum lán. Í lögum um Búnaðarbanka er gert ráð fyrir, að bústofnslánadeildin veiti einstaklingum slík lán, en þægilegra er, bæði fyrir bankann að geta skipt við félög í sveitunum, og fyrir lántakendur að geta fengið lánið heima fyrir. Þá er og svo fyrir mælt, að lánafélög þessi geti fengið lán hjá umboðsskrifstofum, sem bankinn kann að setja á fót.

Í b.-lið, sem verður 16. gr., er ákveðið, að bústofnslánafélögin verði starfrækt sem samvinnufélög, og að öðru leyti skulu gilda reglur 4. gr., eða þeir stafliðir þeirrar gr., sem geta samrýmzt þessum nýja kafla.

Í staflið c, sem verður 17. gr. er það tekið fram, að fela megi stjórn sveitabankanna að fara með mál bústofnslánafélaga, en fjárhagur og reikningar séu hafðir aðskildir. N. lítur svo á, að það geti létt undir með félögunum að fela sveitabönkum einnig reikningsfærslu lánsfélaga, þar sem sveitabanki starfar annars.

Í d.-lið, sem verður 18. gr., er ákveðið nokkuð starfssvið bústofnslánafélaga. Um hámark lána, 2.000 kr., skal játað, að n. setti það nokkuð af handahófi. Henni kom saman um, að ekki mætti fara hærra að svo vöxnu máli. Fyrir þá upphæð mætti fá t. d. 50 ær, ef ærin væri um 40 kr., 5–6 kýr o. s. frv.

Hvað lengd lánstímans snertir, sneið n. það eftir því, sem ákveðið er í búnaðardeildinni. Og er meiningin, að lánin megi standa allt að 10 árum en megi auðvitað greiðast á skemmri tíma, ef óskað er.

Um tryggingu fyrir lánum eru lík ákvæði og í bústofnslánadeild Búnaðarbankans. Ákvæði eru sett um það í g-lið, að stjórn bústofnslánafélags beri ábyrgð á því gagnvart búnaðarlánadeild, að lánsfé sé eingöngu notað eftir 97. br. laga um Búnaðarbanka, en þar er svo ákveðið, að þeim megi ekki verja til annars en kaupa á bústofni og til verkfærakaupa.

Þá eru ákvæði um það, að sá, sem búferlum flytur, verði að standa skil á sinni skuld, en auðvitað er það, að ef hann flytur þangað, sem bústofnslánadeild er fyrir, þá getur hann fengið upptöku í þá deild, og yrði þá aðeins reikningaskipti, en hvernig sem það er, þá er ekki nema eðlilegt, að félagsmaður verði að greiða skuld sína til þeirrar stofnunar, sem hann er bundinn við, þegar hann flytur.

Svo eru ákvæði 51. gr. laga um Búnaðarbanka Íslands; þau gilda einnig um bústofnslánafélög, eins og vitnað er til.

Ég hefi þá lítillega minnzt á þær brtt., sem hér liggja fyrir, eða þessar viðaukatillögur. Vænti ég, að ekki þurfi að skýra þetta meira. Það er ljóst, hvað fyrir n. vakir; hér er tekin upp ný deild til sveita, sem skipti við Búnaðarbankann. Ég skal geta þess, að þessi viðauki, sem við komum með, hefir verið borinn undir stjórn Búnaðarbankans, og hefir hún fallizt algerlega á þetta fyrirkomulag og telur, að það væri mjög hentugt að samþykkja það á þá leið, sem í þessum greinum segir.

Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þessar till. og að þær verði samþ. við þessa umr., svo að frv. fái að fara með þessum breyt. til hv. Ed., svo að málið geti fengið afgreiðslu nú á þinginu. Því ég vænti þess, að ekki verði fyrirstaða í hv. Ed. um það, sem þessi hv. d. hefir samþ. í því efni.