28.03.1930
Efri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Mér virðist, að andmæli hv. 5. landsk. séu byggð á misskilningi. Hann talaði fyrst um fyrri brtt. okkar og að þau ákvæði, sem við vildum taka upp í frv., yrðu til þess, að menn borguðu ekki á réttum gjalddaga og vendust því á vanskil. En ég get ekki séð, að það verði til að koma vanskilum á, þó að gjalddaginn sé ekki ákveðinn sá sami fyrir alla, heldur eftir því, sem um semst um hvert einstakt lán. Ef 7. gr. verður samþ. óbreytt, verður gjalddaginn ákveðinn einhvern vissan dag ársins, t. d. 1. des. Þá verða allir að borga. En ef okkar till. verður samþ., þá er það ekki annað en það, að lán og skuldir eru ekki greidd alltaf á sama degi ársins, heldur á mismunandi tíma. Hvort lánið á að greiðast á þessum gjalddaga eða hinum, t. d. 1. des. eða 1. jan. skiptir engu máli. Það, sem máli skiptir, er, að stj. sveitabankans haldi fast við það, að lánin séu greidd á upphaflega tilsettum tíma. Það er því líka tilætlun okkar, að lánstíminn verði ekki nema 1 ár, en við viljum ekki, að öllum lánum sé lokað á einum og sama gjalddaga.

Þá var það brottrekstrarákvæði frv. Þetta þurftu þm. að laga í hendi sér. Það var ekki hægt að taka við þessu eins og það stóð í frv., að menn væru skilmálalaust reknir úr félagsskapnum, ef þeir sýndu hin minnstu vanskil. Hv. þm. sagði að vísu, að þeir yrðu aðeins reknir, ef þeir gerðu sig bera að svikum. Að vísu er stj. veitt heimild til að undanþiggja menn þessu ákvæði, ef sérstaklega stendur á. En menn eiga það þá líka eingöngu undir geðþótta stj. Réttara er, að aðalfundur ákveði þetta, eins og venja er til í öðrum samvinnufélögum, í hverju einst. tilfelli. Ákvæði frv. er alltof harkalegt.

Þá kom hv. þm. að annari brtt. okkar, sem er við 20. gr. Vildi hann halda því fram, að eins og hún væri orðuð í frv., væri hún í samræmi við búnaðarbankalögin. Ég held, að hv. þm. hafi ekki lesið þau lög nógu vel. Í 20. gr. þessa frv. stendur: „Sé veðið í öðru búfé en kúm, setji félagsmenn auk þess hreppsábyrgð, handveð eða fasteignarveð sem viðbótartryggingu“. En í 45. gr. laga Búnaðarbankans stendur: „Ekkert lán má veita gegn veði í búfé, öðru en kúm, nema eigandi fjárins setji auk þess hreppsábyrgð sem viðbótartryggingu, eða aðra tryggingu, sem bankastjórnin tekur gilda“. — Þarna er það því komið undir mati bankastjórnar í hvert sinn, en er ekki einskorðað við handveð, fasteignarveð eða hreppsábyrgð. Með brtt. okkar er því þetta fært í sama horf og ákveðið er í lögum Búnaðarbankans. Er það meira til samræmis og þægilegra fyrir lántakendur. Ég vil halda því fram, að þessi ákvæði okkar séu mjög gætileg. Það er gert ráð fyrir því, að mest skuli lánað út á helming af verði búfjárins samkv. verðlagsskrá. — Ég vil nú segja, að hefðu bankarnir aldrei lánað gegn lélegri tryggingum en þetta, þá væru töp þeirra ekki eins mikil og raun er orðin á. Hv. þm. var að segja tröllasögur að norðan um fénaðardauða. Þetta getur auðvitað komið fyrir, en sem betur fer, er það þó mjög sjaldgæft. Og þó svo hrottalega tækist til, að helmingur fénaðarins dræpist á einum bæ, þá er þó lánið tryggt eftir sem áður, og meira en það, þar sem aðeins er lánað út á ½ verðlagsskrárverð, en það er ávallt nokkru lægra en söluverð. Ég held því ekki, að þetta þurfi að óttast.

Ég get út af brtt. hv. þm. A.-Húnv. getið þess, að meiri hl. n. fellst á hana.