23.01.1930
Efri deild: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er hluti af stærra bálki, sem stj. bar fram á síðasta þingi og þessi hv. d. hafði þá til meðferðar. Var mikið unnið að þessu máli í fyrravetur og komst það í gegnum 3. umr. í þessari hv. d. með litlum breytingum, en dagaði svo uppi, enda komið undir þinglok, er það fór úr deildinni.

Nú er þessum bálki, sem borinn var fram í fyrra í einu lagi, skipt í þrennt. Eru tvö frv. þegar fram komin og bæði á dagskrá hér í dag, en þriðja frv. er aðeins ókomið fram, og er vikið lítilsháttar að því í grg. þessa frv.

Á þessu stigi málsins er ekki þörf að tala ítarlega um frv., enda er það að mestu shlj. því, sem endanlega var samþ. í þessari hv. deild í fyrra. Þó vil ég nefna lítilfjörlega breyt., sem gerð er samkv. ósk skólameistarans á Akureyri, en hún er sú, að fella niður úr frv. í fyrraákvæðið um skólaráð. Ákvæði þetta fékk daufar undirtektir í fyrra, en hélzt þó eins og gengið var frá frv. þá. En síðan hefir komið á daginn, að kennarar við menntaskólana hér og á Akureyri eru mótfallnir þessu ákvæði, og þykir ekki ástæða til að halda því til streitu að þessu sinni.

Stærsta breyt., sem gerð er á frv. frá í fyrra, er sú, að engin latína verði kennd í Menntaskólanum á Akureyri, en aðaláherzlan lögð á kennslu nýju málanna. Að því er vikið í aths., að í nágrannalöndunum er nú minni áherzla lögð á að kenna mönnum latínu, en aðaláherzlan lögð á kennslu nýju málanna. Virðist sú stefna einnig vera að ryðja sér til rúms hér á landi. Latínan hefir því aðalgildi nú sem stuðningur undir nám nýju málanna, en ekki eins og fyrr, á meðan hún var aðalþjálfmeðal og aðalmenntamál hinna lærðu skóla.

Þá er ein smábreyt. enn frá frv. í fyrra, um að jafna kennslutímann í skólanum hér og á Akureyri. Eins og kunnugt er, þá er kennslutími Menntaskólans hér mánuði lengri en í Akureyrarskólanum. Er með breyt. þessari lagt til að stytta skólatímann hér í fyrstu tveimur bekkjunum til maíloka, en lengja hann á Akureyri lítið eitt fram í júnímánuð tvö síðari námsárin. Er þetta gert með tilliti til þess, að auðveldara er að koma við ýmsum útiíþróttum og ferðalögum á vorin, og þykir þá rétt, að þetta gangi jafnt yfir báða skólana. Að vísu eykur þetta lítilsháttar námskostnað á Akureyri, en þar sem ódýrara er að lifa á Akureyri en hér, þá ætti þetta ekki að valda neinum erfiðleikum fyrir nemendur.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Málið var þrautrætt í þessari hv. deild í fyrra. Óska ég því, að frv. fái að ganga til 2. umr. og geri að till. minni, að því verði vísað til hv. menntmn. að umr. lokinni.