21.02.1930
Efri deild: 31. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Það stendur í nál. menntmn., að n. hafi orðið sammála um þær breyt., sem hún leggur hér fyrir hv. d. á þskj. 130. En síðan störfum hennar lauk, hefi ég leyft mér að gerast flm.brtt. á þskj. 149, sem felur í sér dálítið aðra meðferð á a.-liðnum í brtt. 2 á þskj. 130. Það er þó ekki fyrir það, að það sé ekki rétt til tekið í þessu nál., að menntmn. hafi orðið sammála um þær brtt., sem hún leggur hér fyrir hv. d., að ég flyt þessar brtt. með öðrum hv. þdm., heldur er ástæðan til þess annarsstaðar frá, sem ég mun víkja að síðar.

Þessar brtt., sem n. flytur, eru flestar gerðar með tilliti til þess að samræma þetta frv. til laga um menntaskóla á Akureyri við það frv., sem afgr. hefir verið héðan úr d. um menntaskóla í Reykjavík. Það voru, eins og hv. þdm. sennilega muna, gerðar dálitlar breyt. á því af menntmn., og þessar breyt., sem hér liggja fyrir, eru mjög í sömu átt eins og hinar fyrri við frv. til laga um menntaskóla í Reykjavík. Þó hefir þurft að gera hér nokkrar leiðréttingar á frv. eins og það var lagt fyrir upphaflega, sem að sumu leyti liggja í því, að það var lagt fyrir þingið í fyrra frv. um þessa menntastofnun, og í sambandi við það frv. um gagnfræðaskóla í kaupstöðum. Nú hefir frv. um gagnfræðaskóla verið tekið út úr og lagt fyrir þingið sem sérstakt frv., algerlega fráskilið frv. báðum um menntaskólana.

Það, sem ég vildi sérstaklega minnast á þessar leiðréttingar við þetta frv., er það, að í 6. gr. frv. leggur n. til, að fellt sé niður orðið menntadeild, og að í staðinn fyrir það komi menntaskóli, af því að frv. er aðeins um annað, en ekki hvorttveggja, og þess vegna getur ekki verið rétt að tala um menntadeild, þar sem átt er við sérskilinn menntaskóla; er þetta því meira leiðrétting á máli heldur en breyt. að efni til.

Hinar aðrar breyt., sem hér eru taldar á undan, eru, eins og ég gat um áðan, gerðar í samræmi við það, sem n. hefir áður flutt. Sama er að segja um brtt. við 8. gr. Það er orðabreyt., sem leiðir af því sama og áður, að þetta er frv. um sérstæðan skóla, en ekki um leið frv. fyrir gagnfræðaskóla, eins og það var í fyrra.

Þá hefir n. talið eðlilegt að bæta inn í 10. gr. námi í þýzku og einnig, að í stað orðanna „og sænsku“ komi: eða sænsku. Munurinn á þessu er skiljanlega sá, að ef þetta stæði óbreytt í frv., að talað væri um dönsku og sænsku, þá væri gert ráð fyrir, að bæði málin verði kennd, en það er ekki, heldur að annaðhvort málið sé kennt í skólanum, og því verður að breyta þessu orði „og“ í „eða“.

Þá hafa verið gerðar hér nokkrar breyt. á 16. gr., og liggur aðalbreyt. í því, að gert er ráð fyrir, að stundakennarar mæti á kennarafundum, ef skólameistari sérstaklega kveður þá til eða þeir óska eftir því, en það er ekki gert ráð fyrir að þeir hafi atkvæðisrétt.

Þá hefir fallið niður úr frv. ein gr., sem virðist vera nauðsynleg, en það er að ákveða með lögum, að menntaskólinn heyri undir kennslumálaráðuneytið; en það hafði einhvern veginn láðzt að setja það í frv. eins og það var upphaflega lagt fyrir.

Þá komst n. að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að fella niður úr þessu frv. það, sem talað er um skólagjöld fyrir gagnfræðadeild, því að um þess háttar ætti að vera ákvæði í lögum um gagnfræðaskóla, en rétt að taka þetta út úr frv. um menntaskóla. Þessi setning hefir lent á tveim stöðum í sömu gr. Tillaga n. er, að þetta verði fellt niður úr frv., en verði aftur á móti tekið upp í lögin um gagnfræðaskólana. Þá virðist oss og, sem algerlega vanti í frv. grein um það, að heimild sé til að skipa að öðru leyti fyrir með reglugerð um starf skólans, og í frv. um menntaskólann í Reykjavík er alveg sérstök grein um skólaleyfi og þess háttar. N. gerir ráð fyrir, að með reglugerð verði skipað fyrir um skólaleyfi m. a. og annað það, sem þörf þykir á að skipa fyrir um í reglugerð og ekki er nægilega tekið fram í þessu frv.

Þetta eru þær aðalbreyt., sem n. flytur, og af þessum breyt. leiðir dálítið aðra röðun á gr. í frv. og er gert ráð fyrir því í brtt., að röðin á gr. í frv. breytist eftir því sem með þarf.

Ég ætla þá örlítið að víkja að brtt. á þskj. 149, sem við flytjum, hv. 6. landsk. og ég. Er fyrri brtt. fólgin í því, að í stað þess, að gert er ráð fyrir því í 1. gr. frv., að menntaskólanum á Akureyri sé heimilað að starfrækja gagnfræðadeild með þremur óskiptum bekkjum, þá sé ákveðið, að honum sé skylt að starfrækja gagnfræðadeild með þremur bekkjum, og einu þeirra skiptanlegum.

Önnur brtt. er það, að í staðinn fyrir það, að n. hefir lagt til sem breyt. við 4. gr., að inn í hana sé bætt fyrirskipun um það, að latína sé kennd í skólanum, þá komi aftan við gr. heimild um það, að kenna þeim nemendum latínu, sem óska eftir því, en að það megi þá samhliða draga úr kennslunni í frönsku hjá þeim nemendum; sem stunda latínunám. — Breytingarnar virðast ekki vera mjög miklar og sennilegt; að hv. d., geti fallizt á þetta, því að það orkar fyrst og fremst nokkuð tvímælis, hvort ástæða sé til að leggja mikla stund á latínukennslu í svona löguðum skóla, og a. m. k. ef hún er á annað borð, þá virðist það vel til fallið, að nemendur sjálfir geti ráðið, hvort þeir leggja stund á nám í latínu eða ekki.

Ég hefi svo ekki fleira um þetta frv. að segja að svo komnu.