20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Páll Hermannsson:

Ég þarf ekki að minnast neitt á till. menntmn., sem er að finna á þskj. 130. Um þær var bezta samkomulag í n., eins og hv. frsm. hefir skýrt frá, og hefi ég þar engu við að bæta, en ég stóð upp til þess að taka undir það með hv. 3. landsk., að hv. 6. landsk. ætti að geyma sína brtt. til 3. umr. Virðist mér þá ekki nema sanngjarnt, að n. geymi einnig sínar till., svo að báðar sæti þar að þessu sinni sömu örlögum.

Það var rétt hjá hv. 3. landsk., að bezta samkomulag var innan n. sjálfrar, og eins við þann hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, og sáum við engar ástæður til að koma með aðrar breyt. en þær, sem n. ber fram. Þó að það gæti komið til mála við nánari íhugun að breyta latínunáminu eitthvað; álít ég ekki rétt að koma fram með ákvæði um það án þess að ráðfæra sig við menntmn. og kennslumrh. Vil ég því mælast til þess, að hv. 6. landsk. taki sína till. aftur, en ef hún kemur hér til atkv., mun ég greiða atkv. gegn henni.