20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Ég þykist sjá, að það muni verða samkomulag um að bíða 3. umr. með báðar brtt., sem ágreiningur hefir orðið um: í það minnsta hefir mér skilizt það á n., að hún myndi geta sætt sig við það, og þá hefi ég ekkert við það að athuga, að brtt. mín og meðflm. míns sæti sömu meðferð. Ég vildi aðeins minnast lítið eitt frekar á latínuna, og vil ég þá taka það fram, að ég hefi að nokkru mína vizku úr hv. 3. landsk. um nauðsyn latínukennslu í menntaskólum. Mig minnir, að hann hafi sagt, er við ræddum málið í n., að það væru einkanlega læknanemendur, sem þyrftu latínu með. (JÞ: Það sagði ég ekki). Ég skil ekki i, að mig misminni það, en hinsvegar sé ég ekkert við það að athuga, þótt hann geti núna komið fram með ýmislegt, sem mælir með frekari latínukennslu.

Með þessari till. vakir það engan veginn fyrir okkur flm. að útiloka menn frá því að geta numið málið, heldur hitt, að þeir, sem það vilja, eigi þess kost, en hinir, sem ekkert kæra sig um latínunámið, geti verið lausir við það.

Hv. 3. landsk. var eitthvað að sneiða að mér sem þm. Ak. fyrir það, að ég vildi ekki gera menntaskólann þar jafnfullkominn og hann þóttist vilja gera hann með að skylda nemendur til latínunáms. Ég lít þannig á, að mestri fullkomnun verði ekki náð með því að skylda nemendur til þess að læra það, sem þeir sjálfir álíta sér gagnslaust að læra. Umhyggja hans fyrir kjördæmi mínu þar norður frá verður því ekki tekin alvarlega, og ummælum hans um fyrirhyggjuleysi mitt vísað heim til hv. 3. landsk.