28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Eins og nál. á þskj. 308 ber með sér, leggur meiri hl. menntmn. til, að frv. þetta verði samþ., með einni lítilli breyt. Þetta nál. hafa undirritað 4 af 5 nm. Einn af þeim hefir þó nokkra sérstöðu, af því að hann flytur sérstaklega eina brtt. Minni hl. n., hv. 1. þm. Reykv., virðist a. m. k. ekki leggja á móti frv. Það, sem n. hefir klofnað um, er því ekki það, hvort málið eigi að ganga fram eða ekki, heldur vill hv. 1. þm. Reykv. gera á frv. víðtækari breyt. en við hinir höfum viljað fallast á, einkum í þá átt, að slá öllum ákvæðum um menntaskóla í Reykjavík og á Akureyri saman í eitt frv.

Eins og hv. þdm. vita, er þetta mál komið frá Ed., og hefir þar haft fylgi allra flokka, bæði á þinginu í fyrra og nú. Hv. Ed. hefir tvisvar sinnum fallizt á að lögfesta menntaskóla á Akureyri, og þar sem málið hefir fengið svo góðar viðtökur í menntmn. þessarar hv. d., verður ekki annað sagt en að mjög góðar horfur séu á því, að málið nái fram að ganga. Sem gamall flm. málsins hlýt ég að láta í ljós gleði mína yfir velgengni þess.

Þetta mál, að breyta gagnfræðaskólanum á Akureyri í lærðan skóla, er sem sé ekki nýtt hér á Alþingi, en þegar ég flutti það hér fyrst — þó að í öðru formi væri —, fékk það mun kaldari viðtökur en nú. Ég skal og geta þess, að það væri alveg sérstaklega ánægjulegt, að geta afgr. þetta frv. sem lög á þessu þingi, af því að svo stendur á, að á næsta vori er 50 ára afmæli norðlenzka skólans, sem fyrst var á Möðruvöllum, síðan á Akureyri, svo að það væri mjög skemmtilegt fyrir skólann að fá þá afmælisgjöf frá ríkinu. að hann yrði lögfestur sem lærður skóli.

Um efni frv., að því er fyrirkomulagsatriði skólans snertir, hefir ekki orðið neinn ágreiningur í Ed., og eiginlega má segja það sama um meðferð málsins í n. hér. Þar hefir ekki, a. m. k. í verulegum atriðum, orðið neinn slíkur ágreiningur. Eins og hv. dm. vita, hefir þetta frv. inni að halda þá breyt. frá núv. fyrirkomulagi menntaskólans í Reykv., að í stað þess, að honum er nú skipt í 2 deildir, gagnfræðad. og lærdómsd., sem hvor um sig starfar í 3 ár, er ætlazt til, að Menntaskólinn á Akureyri verði óskiptur fjögurra ára skóli, með sérstöku inntökuprófi. Það má líta svo á, að þetta sé í framkvæmdinni það sama og að lengja lærdómsdeildina um 1 ár, þ. e. a. s. láta hana byrja einu ári fyrr en hún gerir nú. Og allir, sem um málið hafa fjallað í fyrra og nú, eru sammála um þetta atriði. enda engar till. komnar fram til að breyta því. Aðeins er ágreiningur um, hvort kennsla í tveimur neðri bekkjum gagnfræðadeildar þeirrar, sem ráðgert er að ákveðið í frv., að inntökupróf skuli vera þannig, að þar sé beinlínis stefnt að undirbúningi undir menntaskólann eða að gagnfræðadeildin hafi sitt sjálfstæða takmark. Um þetta hefir orðið nokkur ágreiningur, og það spursmál er opið eftir frv. og till. meiri hl. n. Að vísu er svo ákveðið í frv., að inntökupróf skuli vera og settar reglur um það, en með því er ekkert ákveðið um gagnfræðadeildina.

Þessi eina brtt. meiri hl. á þskj. 308 er þess efnis, að í stað þess, að ákveðið er í 21. gr. frv., að um gagnfræðadeild Menntaskólans skuli fara eftir lögum um gagnfræðaskóla, vill n. leggja til, að farið verði eftir reglugerð, sem kennslumálaráðuneytið setji. Ástæður fyrir þessu eru í fyrsta lagi sú, að þar sem ákveða á í þessum lögum að þarna skuli starfa gagnfræðadeild, virðist óeðlilegt að fara að vísa til annara laga um það, hvernig hún skuli starfa.

Í öðru lagi verð ég að líta svo á, að gagnfræðadeildin á Akureyri hafi og eigi að hafa þá sérstöðu, að sömu lög eða áákvæði geti ekki átt við um hana sem um gagnfræðaskóla í öðrum kaupstöðum.

Þessi gagnfræðadeild verður í sambandi við menntaskóla, en gagnfræðaskólinn á Ísafirði og aðrir gagnfræðaskólar verða ekki í slíku sambandi. Því þótt próf frá 2. bekk gagnfræðadeildar heimili ekki inngöngu í 1. bekk Menntaskólans, verður þar þó nokkurt samband á milli, t. d. sömu kennarar. Þess vegna álít ég ekki rétt að rígbinda þennan skóla sömu ákvæðum sem aðra gagnfræðaskóla.

Gagnfræðaskólinn á Akureyri hefir aldrei verið neinn héraðsskóli. Þegar Möðruvallaskólinn var stofnaður, mun hafa verið litið svo á, að hann væri menntastofnun fyrir land allt, eða a. m. k. fyrir allt Norðurland. Það má líka gera ráð fyrir því, að á Akureyri verði kennslukraftar betri en við aðra gagnfræðaskóla, og þar af leiðandi verði hann sóttur víðar að en af Akureyri og Eyjafirði. Þykir mér líklegt, að sótt verði að skólanum víðsvegar að, eins og verið hefir: Menn, sem lokið hafa námi við héraðsskóla, geta t. d. stundað einskonar framhaldsnám í 3. bekk gagnfræðadeildarinnar. Ég skal gjarnan kannast við, að þessar ástæður, sem ég hefi fært fram hér um sérstöðu gagnfræðadeildarinnar á Akureyri, eru frá mér persónulega. En ég get sagt það fyrir hönd n., að hún álítur, að það sé rangt að ákveða um gagnfræðadeild skólans í öðrum lögum, úr því sérstök lög eru sett um hann.

Um brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 271 og brtt. frá hv. minni hl. á þskj. 314 skal ég ekki ræða að svo stöddu.