05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Jón Þorláksson:

Það varð samkomulag í n., að skýrt væri frá breyt. þeim, er gerðar voru á frv. í hv. Nd., en n. hefir óbundnar hendur um atkv. sín.

Ég lít svo á, og hygg að því verði naumast mótmælt, að með þessari breyt. er búið að taka Akureyrarskólann út úr því skólakerfi, sem hér lá fyrir þinginu um gagnfræðaskóla og menntaskóla, og gerð sérákvæði um hann, einkum að því er snertir gagnfræðakennsluna. Sú ástæða, sem færð hefir verið fram af þeim, er beitt hafa sér fyrir málinu, bæði utan þings og innan, og á að réttlæta þessa breyt., er, að söguleg rök réttlæti þessa sérstöðu, sem skólanum er ætlað að hafa. Um leið og ég læt það hlutlaust, hvort frv. gengur fram eða ekki, vil ég benda á, að eftir samþykkt þessa frv. getur ekki komið til mála, að sama verði látið ganga yfir Reykjavík um gagnfræðakennslu og hina kaupstaðina. Fyrst látið er eftir kröfum Akureyringa af sögulegum ástæðum, þá getur Alþingi ekki heldur skotið sér undan kröfum Reykvíkinga, bæði af sögulegum og raunverulegum ástæðum. Ég hefi áður gert grein fyrir því, að hér eru margfalt fleiri nemendur en nokkursstaðar annarsstaðar. Ég vildi láta þessi orð fylgja, ef þau yrðu tekin til greina, þegar rætt verður um úrlausn á gagnfræðaskólamáli Reykjavíkur.