02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (1199)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Þegar þetta frv. var hér til umr. fyrr, þá voru það aðallega tvö atriði, sem gerðar voru aths. um. Annað atriðið var um frádrátt tekjuskatts og eignarskatt til útsvars, en hitt um mismunandi persónufrádrátt. Um fyrra atriðið, þ. e. frádrátt á tekju- og eignarskatti til útsvars, var sagt, að það væri ekki rétt skatta-„princip“ að draga frá aðeins helminginn, eins og fyrir liggur frá n., en um það má segja, að ekkert er „absolut“ rétt, enda sýnir það sig í því, að upphaflega var ekki heimilaður frádráttur áður en skattur var lagður á, en síðar var það leyft, svo að það sýnir sig bezt, að engin skýlaus rök eru fyrir því, hvað sé algerlega rétt í þessu efni, og er þetta þá ekkert annað en miðlunartill., sem fer bil beggja, og væri þá líklegt, að hún væri réttust. Annars er það svo um mig, að ég mæli ekki svo mikið með þessari miðlunartill., því að ég álít réttast að leyfa ekki þennan persónufrádrátt, en ég hefi gengið að þessu sem miðlunartill., sem ég og aðrir geta þá sætt sig við.

Annars vil ég út af þessu atriði víkja nokkru nánar að þessu með samanburðinn, og getur það þá gilt að nokkru leyti til andsvars hv. frsm. minni hl.

Ég tek það sem dæmi, að maður nokkur hafi 50 þús. kr. tekjur ár eftir ár. Ég geri ráð fyrir, að það muni vera álitið, að hann muni eiga að greiða jafnháan tekju- og eignarskatt og útsvar árlega, en ef sú regla er höfð að draga frá tekjuskatt og útsvar, þá er langt frá, að þetta verði; þá verða á þessu stór stökk upp og niður, sem ég nú skal leitast við að sýna.

Ég ætla að taka fyrir dæmi tekjuháan einstakling, vegna þess að dæmið verður þá skýrara en ella. Ég geri þá ráð fyrir, að útsvörin séu að meðaltali þreföld á við tekjuskattinn, og er það þó of lítið, því að þegar þau eru borin saman við tekjuskattinn einan, má gera ráð fyrir, að þau séu allt að fjórföld. Ég ætla samt ekki að hafa þau nema þreföld, til að vera viss um að fara ekki of hátt.

Ég ætla þá að gera samanburð á, hvað verði tekjuskattur og hvað muni verða útsvar í 5 ár, sé um einstakling að ræða, sem hefir 50 þús. kr. tekjur hvert ár. Það er fljótt frá sagt, að ef ekki er dregið frá, verður þetta eins á hverju ári. Það eru 50 þús. kr. tekjur. Tekjuskatturinn af því er 8337 kr. Útsvarið, sem ég geri nálega þrefalt, en reikna þó ekki nákvæmlega, heldur svo, að það komi út í heilum hundruðum króna, og hefi ég þá venjulega fellt af útsvarinu, til að fá upphæðina þannig, verður þá 24663 kr., eða samtals 33 þús. kr.; þannig miklu meira en 50%. Þá hefir maðurinn eftir til eigin afnota aðeins 17 þús. kr. Þetta verður svo eins á hverju ári, þá hefir hann samtals greitt 41685 kr. í útsvar og 123315 kr. í tekjuskatt, eða samtals 165 þús. kr. Tekjur hefir hann haft samtals í 5 ár 250 þús. kr. Í afgang hefir hann haft á hverju ári 17 þús. kr., og það verður í 5 ár 85 þús. kr.

Hinsvegar, ef höfð er sú regla að draga tekjuskatt, eignarskatt og útsvar frá, þá verð ég að taka þannig upp dæmið, að það hafi verið næsta ár á undan tekjuskattur og útsvar eins og það er af þessum tekjustofni óskertum, eða 33 þús. kr. Þá hefir hann afgang 17 þús. kr., sem kemur til skatts; tekjuskattur af því er 1372 kr. og útsvar 4128 kr., samtals 5500 kr. Afgangurinn er þá 44500 kr. — Annað árið, þegar tekjurnar eru gerðar alveg eins, kemur til frádráttar aðeins 5500 kr. Þá koma til skatts 44500 kr.; tekjuskattur verður 7072 kr. en útsvar 21128 kr., afgangur það ár 21800 kr. — Þriðja árið kemur til frádráttar 28200 kr. Þá er tekjuskattur 2263 kr., en útsvar 6737 kr., samtals 9 þús. kr. — Fjórða árið verður svo aftur hærri skattur, af því að nú er lægri frádráttur, aðeins 9 þús. kr., en til skatts koma 41 þús. kr. Tekjuskattur verður þá 6267 kr., en útsvar 18733 kr., samtals 25 þús. kr.; afgangur 25 þús., svo að það ár greiðir hann nákvæmlega helming af tekjum í tekjuskatt og útsvar. — Fimmta árið kemur til frádráttar þessi tekjuskattur og útsvar frá fyrra ári, svo að skatturinn verður aðeins lagður á 25 þús. kr. Tekjuskattur og útsvar verður til samans 11500 kr., og verða þá eftir 38500 kr.

Með því þannig að draga tekjuskatt og eignarskatt frá, áður en útsvarið er lagt á, þá leiðir af því, að þessi skattur, í þau missiri, sem maðurinn hefir þó haft jafnar tekjur, verður svona stórkostlega misjafn frá ári til árs, og verður sum árin tiltölulega mjög lítill, en sum árin nokkuð hár. Ef þessi frádráttur er ekki leyfður, verður þetta jafnhátt á hverju ári af jöfnum tekjum.

Þegar ég nú ber saman þessar tvær reglur eftir þessu dæmi, sem ég hefi hér fyrir mér, þá hefir tekjuskattur án frádráttar í 5 ár orðið samtals 41685 kr., en með frádrætti alls 19861 kr. Mismunurinn, sem kemur fram í þessu dæmi, er 21824 kr.; skatturinn, verður sem sé meira en helmingi lægri í þessu dæmi, en vitanlega kemur annað út, þegar aðrar tekjur eru. Útsvörin verða án frádráttar í 5 ár samtals 123315 kr., en með frádrætti 59339 kr.; mismunurinn 63976 kr.; það eru náttúrlega sömu hlutföll eins og með tekjurnar. Og eins fer, þegar þessar upphæðir eru teknar saman, í fyrra tilfellinu verður upphæðin 165 þús. kr., en í síðara tilfellinu 79200 kr.; mismunurinn 85800 kr.

Ég vil nú geta þess, að þegar ég gekk að þessari till. um leyfi til frádráttar, gerði ég það með tilliti til þess, að þetta kæmi raunverulega verr niður á hátekju mönnum, en það var mín skoðun í n., að í raun og veru hækkaði skattstiginn ekki hlutfallslega eða jafnt eftir núgildandi lögum, og ég gekk að þessu með þeirri hugsun, að það yrði nokkur rétting á skattstiganum.

Þegar þetta var rætt í upphafi í mþn., og reyndar alltaf, þá var hv. minni hl. (HG) samþykkur þessari till. En þegar hann var búinn að ákveða sinn háa skattstiga, fann hann, að skattkröfurnar urðu offors og að þá yrði að leyfa þennan frádrátt. En þetta ákvæði átti að vera til þess að jafna eða bæta upp þá tekjurýrnun, sem yrði af því, ef leyfður er hærri persónufrádráttur, og það var álit okkar nm., að það mundi vega ríflega á móti.

En samt er erfitt að leggja fram tölulega útreikninga á því, vegna þess að skattgrundvöllurinn breytist bæði af auknum og misháum persónufrádrætti og er skattur og útsvar dregst ekki frá.

Það er rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að það munar talsverðu, ef leyft er að draga frá helming þess, sem greitt hefir verið í útsvar og tekjuskatt á árinu. Þetta er miðlunartill. Ef hún nær samþykki, þá mætti taka til athugunar að hækka skattstigann, ef þörf þætti. Til þess er nógur tími enn á þessu þingi.

Hitt atriðið, misháan persónufrádrátt, hefir áður verið talað um hér á þingi. Virðist vera ágreiningur um þann hækkaða og mismunandi persónufrádrátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Því verður ekki neitað, að mismunandi dýrt er að lifa í ýmsum hverfum landsins. Hv. þm. Borgf. hefir flutt till. um að hafa þann frádrátt jafnan alstaðar á landinu, af því að ekki sé ástæða til að gera neinn mun vegna mismunandi dýrtíðar, og hann sagði, að þessi flokkun, sem í frv. var gerð, væri ónóg til þess, að úr yrði réttlæti. Ég skal viðurkenna, að flokkunin er e. t. v. ónóg og að þetta er ekki nákvæmlega útreiknað. En með slíkum reikningi yrði mismunurinn svo óendanlega margbreytilegur, að reglurnar yrðu óframkvæmanlegar. Þessi mismunur, sem frv. gerir ráð fyrir, er byggður á þeirri almennu vitund, að mismunandi dýrt er að lifa á ýmsum stöðum í landinu, og þó að ekki náist fullt réttlæti, þá nálgast það þó meir réttlætið en að ganga að till. hv. þm. Borgf.

Ég skal þá víkja að einstökum atriðum í ræðu hv. frsm. minni hl. og í nál. hans. Hann byrjaði á að láta í ljós óánægju yfir því, að frv. var afgr. þegar hann var ekki á fundi. Þetta getur litið svo út, að hann hafi ástæðu til að kvarta. En ég skal geta þess, að ég hafði tvisvar sent honum skrifleg fundarboð um fund á hinum tilsetta fundartíma n. og þar getið þess, að þetta mál yrði tekið til afgreiðslu. Fyrst hann sýnist ekki hafa haft svo mikinn áhuga, að hann hirti um að sækja fund í n., þegar málið var rætt og ráða átti því til lykta, taldi n. þetta hans sök, en ekki sína. Enda var það vitað í n., að hann gæti ekki orðið okkur hinum sammála. (HV: Var það vitað áður en málið var rætt?). Það hafði verið rætt á tveimur fundum a. m. k., og ég álít, að málin séu alltaf til athugunar fyrir nm., jafnt á fundum sem utan funda, þangað til þeir hafa myndað sér ákveðna skoðun á þeim. Á fundum er of lítill tími til að athuga og ráða fram úr öllu. (HV: Á ekki n. að lesa frv. sameiginlega?). Það hafði verið gert.

Hv. frsm. talaði um, að frv. gerði aðeins lítilsverðar breyt. á gildandi lögum. Má þó geta þess, að hv. minni hl. mþn. vann að því með okkur hinum og var búinn að fallast á það eins og það liggur fyrir frá meiri hl., nema skattstigann. (HV: Greinir þá ekki á nema um skattstigann?). Ekki verulega, og að því leyti sem það er, þá kom það fram eftir á. Það er alkunna, að jafnaðarmenn álíta, að taka megi miklu meiri hluta af tekjum ríkissjóðs með beinum sköttum en nú er gert. En þegar málið er athugað, verður það ekki svo auðvelt. Undir eins og álögurnar fara fram yfir 50% og ef leyfður er frádráttur sá á tekjuskatti og útsvari, sem hv. minni hl. virðist hallast að og líka hv. flm. hins annars skattafrv., sem hér liggur fyrir, þá fer það að gefa „negativa“ útkomu fyrir ríkissjóðinn. Og eins og ég las upp áðan, geta menn séð, að í ýmsum tilfellum yrðu tekjurnar fyrir ríkissjóð ekki nema lítið brot af því, sem þær ættu að vera af jafnháum tekjum, ef frádráttur er leyfður á útsvari og tekjuskatti.

Eins og áður hefir verið sagt, hefir meiri hl. tekið upp nokkrar af till. hv. minni hl. mþn., þær sem fjhn. allri finnst vera til bóta. Aftur eru aðrar, sem meiri hl. fjhn. getur ekki fallizt á eða telur lítils virði. Meðal þeirra er till. um að reikna dráttarvexti. Ef leyft er að draga borgun á gjöldum og dráttarvextir ekki reiknaðir fyrr en nokkur frestur er liðinn, þá verður reyndin sú, að enginn borgar, fyrr en sá frestur er liðinn. Nú verða menn að greiða strax, þegar þeir eru krafðir.

Ekki þykir meiri hl. þörf á lengri fresti hér í Reykjavík en annarsstaðar og ekki rétt að hafa hann lengri en tiltekið er í frv. En ef þingið er á öðru máli, þá mætti með brtt. mismuna í þessu atriði.

Þá er það skattstiginn yfir hlutafélög og hvort þau eigi að borga sama skatt og einstaklingar. Meiri hl. gat ekki út frá grundvallarhugsun sinni fallizt á það. Fyrst mælir það á móti, að með því að krefjast hærra skatts væri gengið á rétt bæjarfélaga og sveita og þau sneydd tekjustofnum. Svo er það ekki rétt, að í öllum tilfellum falli skattur þyngra á minni félögin en þau stærri. Það verður því aðeins, að hlutaféð gefi mikinn arð, og á því hafa þessi ákvæði verið byggð í upphafi.

Ég held, að ég hafi þá vikið að flestum aths., sem við frv. hafa verið gerðar, og sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt.