24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (1401)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. þm. Skagf. hafa viljað aðgreina beina og óbeina skatta með nokkuð öðru móti en ég, en sú eina rétta skilgreining er þannig, að beinir skattar teljast þeir, sem ekki eru yfirfæranlegir, þ. e. a. s., sem gjaldendur ekki geta velt yfir á aðra. Það er raunar stundum örðugt að greina á milli þess, hverjir skattar séu yfirfæranlegir og hverjir ekki. Um tekjuskattinn er t. d. það að segja, að hann getur verið yfirfæranlegur, ef hann er lagður á þurftartekjur, en sé hann greiddur af gróða og hátekjum, er hann ekki yfirfæranlegur. Stimpilgjaldið leggst á verð fasteignar eða vöru, og sama er að segja um bifreiðaskatt og lestagjald, hvorttveggja færist á kaupendur í hækkuðu vöruverði. Hinsvegar skal ég játa það, að skólagjöld ber að telja til beinna skatta, en sú upphæð er svo lítil, að hún breytir hlutfallinu ekkert.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði ennþá, að tekjuskatturinn væri mjög misjafn. Ég hefi að vísu játað, að nokkru getur munað á honum frá ári til árs, en munurinn er ekki eins mikill og hv. þm. vill vera láta, eins og ég sýndi fram á í fyrri ræðu minni. Hv. þm. benti á, að árið 1925 hafi tekjuskatturinn farið 100% fram úr áætlun. Þá fóru tekjurnar í heild 100% fram úr áætlun, svo það er ekkert sérstakt með tekjuskattinn. Og í ár hafa tekjur af áfengissölu farið meir en 100% fram úr áætlun, og sömuleiðis ýmsar aðrar tekjur 50–100% fram úr áætlun.