05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (1420)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ég hefi ekki frá mörgu að segja á þessu stigi málsins fyrir hönd meiri hl. n. Eins og menn munu hafa tekið eftir, er n. klofin; 3 nefndarmenn leggja til, að frv. verði samþ., en tveir eru á móti.

Ástæður okkar meirihl.manna, a. m. k. tveggja, fyrir því að leggja til, að frv. gangi fram, eru eingöngu tekjuvonir þær, sem ætla má, að fáist með samþykkt frv. En þar sem þetta er 2. umr. og engin brtt. liggur fyrir, sé ég ekki ástæðu til að hefja neinar almennar umr. um málið.

Ég skal aðeins geta þess, að það hefir komið til tals að verja tekjunum af einkasölunni í sérstökum tilgangi, sem sé til styrktar raforkuveitum í sveitum, en um það hefir nefndarhlutinn ekki tekið neina afstöðu, enda liggur það ekki fyrir. En ef till. kæmi fram um það, væri nógur tími til að ræða það við 3. umr., ef málið verður samþ. við þessa umr.