05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í C-deild Alþingistíðinda. (1423)

172. mál, einkasala á tóbaki

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þykir vel hlýða nú að rifja dálítið upp það, sem gerðist á þinginu 1925, þegar rætt var um afnám tóbakseinkasölunnar. Eins og sjá má af þingskjölunum frá því þingi, t. d. grg. frv. um hækkun tóbakstollsins og frv. um afnám einkasölunnar, héldum við, sem að frv. þessu stóðum, því fram, að ríkið mundi hafa eins miklar tekjur af tóbakstollinum með þeirri hækkun, sem þá var samþ., eins og það hafði haft af einkasölunni og tollinum til samans.

Aftur á móti hélt þáverandi minni hl. því fram, að ríkið mundi tapa 326 þús. kr. á ári á þessari breyt., að leggja niður einkasöluna en hækka tollinn. Andstæðingarnir byggðu útreikninga sína um tekjur einkasölu á tekjumesta árinu, sem sé árinu 1924, en þá voru tekjur ríkissjóðs af tóbakseinkasölu og tolli til samans 977 þús. kr. Minni hl. vildi ekki viðurkenna þau rök okkar, að frá þessum tekjum ætti að draga 67988 kr., sem greiddust vegna gengisbreyt. á árinu, og heldur ekki þær um 100 þús., sem græddust vegna 25% gengisviðaukans, því hann gerði það að verkum, að vörubirgðir einkasölunnar voru í 25% hærra verði í árslokin heldur en þeirra raunverulega verð var. Auk þess var einmuna góðæri árið 1924 og kaupgjald hátt. Hefir sennilega farið þá eins og endranær, þegar fólk hefir meiri auraráð en venjulega, að munaðarvörukaupin hafa verið óvenju mikil. Á þessu mikla tekjuári urðu tekjurnar af einkasölunni og tollinum til samans ekki nema 810 þús. kr., ef gróðinn af gengisbreyt. og tollviðaukanum er dreginn frá, og við héldum þá fram, að tollurinn einn með þeirri hækkun, sem við lögðum til, myndi gefa eins miklar tekjur, eða meiri. Minni hl. hélt aftur fram, að tolltekjurnar mundu ekki verða meiri en 651 þús. kr.

En hver hefir nú reynslan orðið? Við sögðum á þinginu 1925, að reynslan yrði að skera úr, þegar ekki var hægt að sannfæra hv. minni hl. með tölum. Við vissum þá, að við fórum mjög gætilega í áætlunum okkar, enda hefir reynslan orðið betri heldur en við gerðum ráð fyrir. Dómur reynslunnar er sá, að tolltekjurnar voru árið 1926 1134000 krónur. Það þótti ekki tiltökumál, menn bjuggust við, að birgðir mundu aukast í landinu og tolltekjurnar verða meiri en í meðallagi. 1927 voru þær 900 þús. kr., 1928 1 millj., og 1929, að því er hæstv. fjmrh. hefir skýrt frá við 1. umr. fjárl. 1249736 krónur, og er þó eitthvað ókomið í ríkissjóð af tolltekjunum 1929. Reynslan er sú, að ríkissjóður hefir haft 1124000 króna jafnaðartekjur árin 1926–1929 af tollinum einum. Það er sýnilegt, að hér skakkar mjög miklu frá því, sem minni hl. áætlaði 1925. Áætlun hans var 651 þús. kr., en áætlun okkar meirihlutamanna hinsvegar 900 þús. kr. Við færðum þá góð rök fyrir máli okkar, sem menn sjá, að hafa staðizt. En samtímis þessu verðum við auðvitað að líta á aðstöðu neytenda. Hafa þeir fengið lakari vöru með hærra verði eða betri vöru með lægra verði? Í desember 1925 lækkaði tóbaksverð einkasölunnar um 10%, en í janúar 1926, strax og nýr innflutningur var hafinn í frjálsri samkeppni, lækkaði verðið um 12%. Það er vitanlegt, að frumverðið lækkaði ekkert frá því í september 1925 þangað til í marz 1926, svo að verðlagið á heimsmarkaðinum gat ekki skapað þessa lækkun.

Þá er að líta á vörugæðin. Ég held, að enginn geti neitað því, að síðan einkasalan hætti, hefir vöruval verið meira, og meira af góðum vörum en meðan einkasalan var við lýði. Þegar einkasalan var sett á stofn árið 1921, var það eingöngu vegna þess, að þeir, sem henni fylgdu þá, þar á meðal ég, vildu reyna, hvort nást mundu meiri tekjur í ríkissjóð án þess að skaða neytendur en með gamla fyrirkomulaginu. Það voru fyrir löngu farnar að heyrast háværar raddir um, að rétt væri að reyna einkasölu, og þá var sjálfsagt að byrja á einhverri ónauðsynlegri vörutegund, munaðarvöru. En eins og ég hefi sýnt fram á, hefir reynslan skorið úr um þetta og sannarlega sýnt, að heppilegast er, fyrst og fremst fyrir ríkissjóð, að fara tollaleiðina. Það mætti að vísu segja, að lítið geri til, þegar um óþarfavöru er að ræða, hvort hún kosti 5–10% meira eða minna. En það er skylda ríkisvaldsins að vera ekki Þrándur í Götu þess, að neytendur fái góða og ódýra vöru.

Eins og menn sjá, eru þær niðurstöður, sem ég hefi komizt að, miður heppilegar fyrir einkasöluna; hið mikla veltuár 1924 er útkoma hennar mun verri en frjálsrar verzlunar 1926, 1927 og 1928, hvar af a. m. k. 2 fyrstu árin voru mjög léleg ár. Annars ætla ég ekki að fara að endurtaka þau rök, sem hv. 1. þm. Reykv. færði fyrir ágæti frjálsrar verzlunar fram yfir einkasölu. En það ætti að vera öllum ljóst af því, sem ég hefi sagt um útkomu einkasölunnar sálugu, að það væri a. m. k. ekki gert fyrir ríkissjóð og ekki heldur fyrir neytendur, ef nú yrði sett á stofn einkasala. — Það má segja, að innflutningurinn hafi aukizt fyrir það, að verzlunin er frjáls. Það er rétt að nokkru leyti, en við verðum að gæta þess, að þegar um einkasölu er að ræða, er eftirlit almennt um undanbrögð við innflutninginn mjög ófullnægjandi. Má vera, að það valdi nokkru um hina lélegu útkomu áranna 1922 til 1925, þó að það sé ekki eina ástæðan. Ég get ekki neitað því, að ég hefi heyrt sannorða menn segja, að í einum fjórðungi landsins hafi verið flutt mikið inn af tóbaki frá Færeyjum, meðan á einkasölunni stóð, en síðan einkasalan lagðist niður, hefi ég heyrt þá sömu menn segja, að fyrir þetta hafi tekið. Þetta er eðlilegt, af því að þegar menn hafa frjálsan aðgang að að kaupa inn og selja í samkeppni við aðra, líta þeir nokkuð eftir hver hjá öðrum. Það skaðar þá, ef óleyfilegur innflutningur á sér stað, en þegar um einkasölu er að ræða, skaðar það þá svo óendanlega lítið.

Jafnvel minni hl., sem vildi 1925 halda við einkasölu á tóbaki, viðurkennir, að löglegur innflutningur á tóbaki muni aukast um 12%, og hv. frsm. virðist í sinni ræðu viðurkenna, að óleyfilegur innflutningur eigi sér stað með einkasölufyrirkomulaginu, en hverfi, þegar verzlunin er gefin frjáls. En mikið af þeim rökum, sem hv. minni hl. færir fyrir sínu máli, eru tyllirök. Einkum gerir hv. minni hl. mikið til að gylla það, hvað einkasölufyrirkomulagið gefi miklu meira en tollurinn gefi, og slær óspart á þann streng, að við séum að rýra tekjur ríkissjóðs um 326238 kr. 85 aura. Hv. minni hl. er svo sem ekki í vafa um, hver upphæðin sé. Aurarnir eru teknir með! En reynslan hefir sýnt, að tekjur ríkissjóðs af tollinum einum eru í vondu ári 300 þús. kr. hærri en hið einstaka góðæri 1924 gaf með einkasölufyrirkomulaginu. Í þessu sambandi er ekki rétt að taka árið 1925, því að þá er verzlunin gerð upp. Ekki er heldur rétt að bera saman öll árin 1922, 1923, 1924 og 1925, af því að vitanlegt er, að einkasalan hlýtur að græða minna en í meðallagi á fyrstu árunum. Tekjur af tolli og einkasölu urðu 1922 524 þús. kr., 1923 742 þús. kr. og 1924 903 þús. kr., en þar frá ber að draga a. m. k. 160 þús. kr., sem er verðhækkun vegna gengisviðauka og svo gengishækkun. Yfirleitt er svo um gengiságóðann, að hann hverfur í gengistapi, þegar gengið breytist. Auk þess er talinn til tekna verzluninni varasjóður, sem lagður var til hliðar, en nú má sjá, að er allur uppetinn í skuldatöpum. Aðeins nokkrar þús. eru eftir af 72 þús. kr. varasjóði.

Því hefir verið haldið fram, að ef einkasala kæmist á, yrði minna fé bundið í veltu en þegar um frjálsa verzlun er að ræða. Það var bent á það 1925, að tóbaksbirgðir í landinu voru 1921 rúm 1 millj kr., en í lok ársins 1924 360–370 þús. kr. En þess er ekki gætt, að birgðirnar komu ekki allar til greina í árslok 1924. Ótaldar voru þær birgðir, sem kaupmenn og kaupfélög höfðu í búðum sínum. Það hefir verið svo, að smásalar liggja með miklu meiri birgðir samanlagt en heildsalar, svo að menn sjá, að það fé, sem bundið er í verzluninni þegar einkasölufyrirkomulag er, er ekki minna en bundið er í verzluninni með frjálsri samkeppni.

Af því, sem ég hefi sagt um reynslu undanfarinna ára, er sýnt, að verðlag hefir verið lægra, neytendur fengið fjölbreyttari og betri vöru og ríkissjóður grætt meira í frjálsri samkeppni en með einkasölu. Hvaða ástæða er þá til að setja á stofn einkasölu? Ég get með engu móti séð neina ástæðu, nema þá, að hér eru til menn, sem vilja gera þetta að principmáli, án þess að hirða um afleiðingarnar. Og ég er satt að segja að vona, að þetta frv. sé fram borið nú eins og oft áður einungis til að sýna fastheldni við princip, en ekki í þeim tilgangi, að það varði samþ. Ég minnist þess ekki, að á síðustu árum hafi einkasölupostularnir viljað rökræða þetta mál á þingmálafundum, enda er það eðlilegt. Hv. þm. Dal. benti á, að það væri hæpið nú rétt fyrir kosningar að vera að skella á okkur einkasölu, því að það mega þeir vita, sem að þessu standa, að það verður ekki nema örlítið brot af kjósendum, sem getur fylgt flm. frv. og þeim, sem samþ. það.

Ef hv. stjórnarflokkur hinn stærri hefði trúað á þann málstað, sem hann hélt fram á þinginu 1925, er ekki óeðlilegt, að þeir hefðu skellt einkasölunni á strax og þeim gafst færi til. Þeir gátu „mótiverað“ afstöðu sína með því að þeir hefðu áður á þingi 1925 sýnt nokkur rök, þar sem var hin fáránlega áætlun þeirra, og lokað augunum fyrir öllu öðru, meðan ekki var fengin fyllri reynsla en þá var fengin. En nú, eins og komið er, er það meira en lítið undarlegt, ef Framsóknarflokkurinn ætlar að fylgja þessu frv., og ekki annað sýnna en að þeir geri það bara til að þóknast þeim mönnum, sem hafa þetta að principmáli, nefnilega jafnaðarmönnum.