07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (1439)

172. mál, einkasala á tóbaki

Héðinn Valdimarsson:

Ég þarf ekki að svara hv. þm. miklu, en þó hafa nokkur þau orð borizt að mér, sem ég vil ekki með öllu láta ósvarað.

Það, sem mér finnst mestu máli skipta, er, að stofnað verði nýtt fyrirtæki, tóbakseinkasala. Hv. þm. hélt því fram, að þeir, sem störfuðu við tóbakseinkasöluna, hefðu haft bækur og skjöl fyrirtækisins fyrir sér. Þetta er rétt, en ég get ekki séð, hvernig þeir hefðu átt þess vegna að hafa séraðstöðu til að geta náð sér í nauðsynleg sölusambönd, sem hún hafði. Nöfnin gat hver kaupmaður séð á tóbakspökkunum, sem þeir seldu sjálfir. Um söluskilmálana var líka mörgum kaupmönnum kunnugt, enda urðu þeir ekki sömu eins og hjá Landsverzlun.

Viðvíkjandi olíuverzluninni gleymdist mér að mótmæla því, er hv. þm. sagði, að ég mundi ekki verða með því, að ríkið tæki hana að sér. (ÓTh: Það fullyrði ég nú alveg). Hv. þm. veit þó, að hæstv. stj. þarf engin ný lög til að taka hana að sér. Hún getur hagnýtt sér þau einkasölulög, sem til eru nú. Það er því nokkuð öðruvísi ástatt um steinolíu og tóbak. Með því að uppfylla 3 skilyrði er hægt að koma olíueinkasölu á, útvega nægilegt fjármagn, tryggja sér fast viðskiptasamband erlendis og setja löggjöf, er nokkurnveginn tryggi útistandandi skuldir, og þó er hægt að uppfylla síðasta skilyrðið með söluskilmálum frá einkasölunni án löggjafar. En það er miklu stærra mál en einkasala á tóbaki.

Um hagnað minn af olíuverzluninni verð ég að gleðja hv. þm. með því, að það er ekki rétt, sem hann sagði, hvorki um tunnutöluna eða um hagnaðinn af hverri tunnu. Það er svo fjarri réttu máli allt saman, að augljóst er, að hv. þm. hefir enn einu sinni leyft sér að fara með fullkomna lygi. Annars er það mál ekki hér til umr., en ef það kæmi fyrir nefnd, mundi ég geta gefið allar upplýsingar um það mál.