22.03.1930
Neðri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem að mér snéru. Hv. þm. las upp skýrslu um skuldir ríkissjóðs eins og þær hafa verið samkv. landsreikningunum mörg undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi farið rétt með þær tölur, sem hann tók upp úr landsreikningunum fram til ársloka 1928. En svo fór hann að gera áætlun um það, hvernig útkoman væri með skuldirnar árið 1929, og þá fataðist honum útreikningurinn. Ég undrast, að maður, sem hefir verið fjmrh., skuli láta sér sæma að fara með svo villandi tölur. Hann sagði, að árið 1929 hefðu skuldir ríkissjóðs vaxið úr 13,6 millj. kr. upp í 18,5 millj. kr. Þessa staðhæfing sína byggir hann á því, að á árinu 1929 hafi stj. tekið 5½ millj. kr. lán, og bætir því við skuldarupphæðina eins og hún var við árslok 1928.

Sannleikur þessa máls er sá, að á síðastl. hausti gerði stj. samning við enskan banka um 5½ millj. kr. lán, og mátti stj. nota svo mikið eða lítið af þessu láni, sem hún teldi sig þurfa.

Nú notaði stj. af þessu um 2½ millj., og var þeirri upphæð varið til að greiða aðrar skuldir, sem ríkissjóður var í og taldar eru í landsreikningnum 1928. Fór mest af þessu fé til Landsbankans. Hér er því aðeins um tilfærslu á skuldum að ræða.

Ég tók það fram við 1. umr. fjárl., að skuldir ríkissjóðs hefðu að mestu staðið í stað á árinu sem leið, og þó heldur minnkað. Við þetta stend ég hvar sem er. Allt tal hv. þm. um hækkun á skuldum ríkissjóðs á árinu 1929 er því vísvitandi fals og staðlausir stafir.

Þá kom hv. þm., með miklar bollaleggingar um það, hvernig það yrði með skuldir ríkissjóðs í framtíðinni. Hann sagði, að ef þetta og þetta lán yrði tekið, þá mundu skuldir ríkissjóðs verða svona og svona miklar. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að þar sem skuldir ríkissjóðs væru 18 millj. kr. — en það er vitanlega alrangt, — þá mundu skuldirnar verða 30 millj. kr., þegar búið væri að taka það 12 millj. kr. lán, sem stj. hefði heimild til.

Þetta er náttúrlega. auðvelt reikningsdæmi, sem óþarfi var að leggja fram hér. Allir vita, að 12 við 18 eru 30. Auk þess vita allir hv. þm., nema þá ef til vill hv. 1. þm. Skagf., að þessar 2½ millj., sem búið er að taka, eru hluti af 12 millj. kr. heimildinni. En hv. þm. er nú ekki að rekja sannleikann svo nákvæmlega. Og ef hv. andstæðingar hafa ekkert annað en ódrýgðar syndir stj. til að tala um, þá fara nú ásakanirnar að verða léttvægar.

Hv. þm. lét mjög á sér skilja, að lítil gætni væri sýnd í fjármálum. En ég verð að segja það, að ef athuguð er atkvgr. við 2. og 3. umr. fjárl. nú í þessari d., muni það koma í ljós, að það er hv. 1. þm. Skagf. og hans flokksmenn, sem hafa viljað fara ógætilega. Nú vill hv. 1. þm. Skagf. og hans flokksmenn, að byggðar séu raforkuveitur úti um allar sveitir, og í sambandi við það sé ríkissjóði steypt í milljóna ábyrgðir og skuldir. Ég hefi í raun og veru alls ekki á móti raforkuveitum, síður en svo. Þær framkvæmdir eru sjálfsagðar, þegar hægt er að koma þeim upp án þess að stofna héruðum og ríkissjóði í fjárhagslegan voða. En hv. þm. og hans flokksmenn vilja byrja á þessum framkvæmdum undir eins, án þess að athuga, hvort ríkissjóður hefir nokkurt bolmagn til að reisa rönd við slíkum útgjöldum. Eins og nú er ástatt, þá er enginn tekjuliður ákveðinn, sem mæti þessum raforkuveitum og þeim kostnaði, sem af þeim leiðir. Og þá er ekki um annað að gera fyrir ríkissjóð en að taka lán. Og get ég ekki séð hvað gæti komið ríkissjóði í skuldir, ef ekki það.

Þá sagði hv. þm., að áætlun 7. gr. fjárlagafrv., um vexti og afborganir lána, væri of lág, og sagði í því sambandi, að það mundi væntanlega koma fyrir, að lán yrði tekið á þessu ári. Það er nú fyrst og fremst ómögulegt um það að segja, hvort eða hve mikið lán verður tekið þetta ár, og því ómögulegt að segja um það, hve mikla vexti ríkissjóður verður að greiða. En þó að lán verði tekið, þá er nú svo með það lán, sem tekið verður til vissra stofnana og fyrirtækja, að þessi fyrirtæki standa undir sínum lánum sjálf, og kemur alls eigi á bak ríkissjóði að greiða vexti og afborganir. Svo er t. d. um síldarverksmiðjuna, símastöðina, skrifstofubygginguna og Byggingar- og landnámssjóðinn, og þangað fer þó mest fjármagnið. (MG: En Íslandsbanki?). Íslandsbanki sýndist standa í blóma, þegar frv. var samið, og ekki hægt að vita, að kassinn tæmdist svona hastarlega. (MG: Má maður koma með brtt.?). Já, hv. þm. má koma með brtt.; það bannar honum enginn. En það er vel á minnst hjá hv. þm., að allt útlit er fyrir, að Íslandsbanki muni verða þungur baggi á ríkissjóði. (MG: En framlagið til Landsbankans?). Landsbankinn greiðir 6% vexti af því. Veit hv. þm. það ekki? (MG: Nei, það hefir ekki verið upplýst). Það stendur þó í samningunum milli ríkisstj. og Landsbankans. Eða heldur hv. þm., að þetta sé ekki satt? (MG: Nei). Mig furðar það, að hv. þm., sem er endurskoðandi landsreikninganna, skuli ekki vita þetta, og ég held, að það hefði verið betra fyrir hann að kynna sér þetta mál, áður en hann fór að tala um það.

Þá sagði hv. þm., að það væri fært til vaxta í 13. gr., sem ætti heima í 7. gr. Þetta skiptir engu máli um fjárhagsafkomu ríkisins. Hann sagði, að þetta væri gert til að fela vextina, en þetta er gert eftir fyrirlagi þingsins, að vextir af byggingu landssímastöðva skyldu vera færðir í 13. gr., og fjvn. þessarar d. hefir fallizt á þetta.

Það, sem hv. þm. á hér við, eru vextir og afborganir af byggingarkostnaði landssímastöðvarinnar. Í frv. er þetta sett í 13. gr. beinlínis eftir fyrirmælum þingsins í fyrra, enda hefir fjvn. þessarar d. ekkert haft við þetta fyrirkomulag að athuga. Það þarf því ekki að eyða orðum að þessari firru hv. þm.

Hv. þm. var að tala um það, að ekki væru talin í 7. gr. fjárlagafrv. öll þau lán, sem ríkissjóður hefir tekið. Til þess er því að svara, að það hefir aldrei verið gert, að telja þar öll lán, sem landið hefir tekið. T. d. er það svo um lán til veðdeildarbréfakaupa, að þau hafa hvorki verið talin sem skuld á landsreikningnum né vextir af þeim verið færðir í 7. gr. fjárlagafrv.

Hv. þm. talaði um, að hv. 3. landsk. hefði lækkað skuldir ríkissjóðs á þeim árum, sem hann var fjmrh. Á þessum árum voru litlar framkvæmdir af hálfu hins opinbera, og var því hægt að borga nokkuð af skuldum. Ég viðurkenni fyllilega, að það var gert. En þó var það svo, að þessi hv. þm. (JÞ) tók í ráðherratíð sinni nokkurra millj. króna lán, en það sést bara hvergi í fjárl. eða landsreikningum. Þetta fé fór til veðdeildanna, og er að sínu leyti hliðstætt því fé, sem núv. stj. væntanlega tekur að láni til Byggingar- og landnámssjóðs. Sá er aðeins munur á, að það fé, sem hv. 3. landsk. tók til láns, fór til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum, en Byggingar- og landnámssjóður fer til þess að byggja upp sveitir landsins.

Þegar hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að útlit væri fyrir, að ríkissjóður myndi komast í stórskuldir í tíð núv. stj., gleymdi hann alveg að minnast á það atriði, að nú er verið að byrja hér stórkostlegar framkvæmdir, sem Alþingi hefir ákveðið, að í skuli ráðizt og veitt fé til. (MG: Ég tók þetta fram). Stj. á því ekkert ámæli fyrir þetta. Ef ekkert væri gert, en safnað stórum skuldum eins og árin 1920 og 1921, þá væri einhver ástæða til ásakana. Þá var allt etið upp og sást ekkert eftir.

Þá var hv. þm. enn með spádóma fram í tímann — hann sýnist halda mikið upp á þá —um það, hversu há fjáraukalögin fyrir næsta ár mundu verða. Sagði hann, að þau myndu verða ennþá hærri en „fjáraukalögin miklu“. Skal ég ekki fara að metast um þetta við hann; reynslan mun skera úr því. En út af því, sem hann sagði, að hann vissi til, að búið væri að greiða úr ríkissjóði ½ millj. kr. síðan ég gaf hér skýrslu mína við 1. umr., vil ég geta þess, að ég bætti við einn lið í þessari skýrslu minni 200 þús. kr. umfram það, sem greitt hafði verið. Verður a. m. k. að draga það frá upphæð þeirri, sem hv. 1. þm. Skagf. talaði um. Annars finnst mér þetta, hvort búið er að borga krónunni meira eða minna síðan þing kom saman, vera smámunir, sem ekki er hægt að eyða tímanum til að tala um.

Fleiru þykist ég ekki þurfa að svara úr ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hún var full af hógværum blekkingum og rökvillum í því nær hverju atriði. Sérstaklega er sú fullyrðing hans, að skuldir ríkissjóðs séu nú 18,5 mill. kr., algerlega röng, og er upphæðin nærri 5,5 mill. kr. of há, eins og ég benti á áður. Vil ég að lokum skora á hv. þm. að færa skýr rök að þessari staðhæfingu sinni; ella verður hún að teljast markleysa ein.