14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í C-deild Alþingistíðinda. (1559)

338. mál, gelding hesta og nauta

Jörundur Brynjólfsson:

Það munum vera við, sem andmælum þessu frv., sem pexum að dómi hæstv. forseta.

Maður skyldi ætla, að hv. þm. V.-Sk. sé ekki vaxinn upp í sveit á Íslandi. Hann man víst ekki, að það er vani að gelda hesta snemma á vorin, og samkv. lögum á það að vera búið fyrir tiltekinn dag, eða í þetta sinn eftir fáa daga. Fyrir þann tíma eiga menn víst að vera búnir að læra þetta. Geldingu nauta þarf varla að telja með. — Annars er auðséð, að ekki þýðir fyrir mig að andmæla þessu frv. Um röksemdir er ekkert hirt, og þó menn verði neyddir til þess að brjóta sum ákvæði þessa frv., ef að lögum verður, og önnur ákvæði þess stór varhugaverð, á samt að drífa það í gegn.