04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í C-deild Alþingistíðinda. (1592)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Magnús Guðmundsson:

Ég vil fyrst og fremst nota þetta tækifæri til að hreyfa atriði viðvíkjandi þessum lögum, sem ég hefi áður spurt um, en ekki fengið svar við, sem sé, hvort fyrirætlunin sé, að sjóðurinn eigi sjálfur að greiða árlegar afborganir til ríkissjóðs af því láni, sem væntanlega verður tekið handa honum. Það er auðsætt, að ef sjóðurinn á á ári hverju að greiða afborganir af lánum, fer svo, að eftir að búið er að lána bændum þessar 5 milljónir, hættir lánsstarfsemin alveg og 5 millj. kr. eru eins og krækiber í ámu til þess að byggja upp sveitirnar.

Annars kemur mér ekkert undarlega fyrir, þó að það sé þegar komið í ljós, að þessum lögum þurfi að breyta. Það er búið að segja það fyrir löngu, að 9. gr. er svo úr garði gerð, að ómögulegt er að una við hana. Stjórn Búnaðarbankans hefir nú séð þetta og reynir að ráða bót á því að nokkru leyti. En ég efast um, að þær breyt., sem hv. þm. Mýr. bar fram, séu nægilegar. Við skulum taka til dæmis jörð, sem er í leiguábúð virt á 2000 kr. (landverð). Á henni er byggt fyrir 7000 kr. og fengið loforð um lán úr byggingar- og landnámssjóði. Nú má aðeins taka í eftirgjald 4% af landverðinu — en það verða 80 kr. — og 2% af húsverðinu — en það verða 140 kr. Samtals er þetta 220 kr. En í byggingar- og landnámssjóð verður að borga 350 kr. á ári vegna lánsins. Hvar á að taka þær 130 kr., sem upp á vantar? Það sjá allir, að í þessu er ekkert vit. Nú hefir komið fram till. um að breyta hundraðstölunum í 5% og 3%. Þá er hægt að fá í eftirgjald 100 kr. + 210 kr. = 310 kr. Enn vantar 40 kr. upp á, sem eigandinn verður að gefa með eigninni fyrir það að hann hefir látið byggja á henni með ágætum kjörum. Þetta er hrein vitleysa. Það má ekki taka svona aftur með annari hendinni það, sem gefið er með hinni. Annaðhvort verður að heimila hærra eftirgjald, eða að það er rangt með öllu af því opinbera að styðja byggingu á þessum stað.

Það er annað atriði í 9. gr., sem sízt er betra; sem sé það, að hefta sölu á eigninni. Einkum er þetta ranglátt, þegar um eigendaskipti er að ræða, sem ekki er hægt að komast hjá, eins og t. d. við erfðir. Það er haft að viðbáru, að koma verði í veg fyrir brask, en slíkt er fjarri lagi. Þetta er eignarnám hjá sumum erfingjunum, og brask er ómögulegt að hindra með lagafyrirmælum.

Út af 5. gr. vil ég taka það fram, að ég skil hana svo, að þegar fyrri málsgr. 18. gr. fellur niður, sé þar með burt fallin sú nefnd, sem á að vera í ráðum. Ég er þessu meðmæltur. Mér finnst mesti hégómi að hafa 6 manna nefnd til að ákveða lánin. Annars vil ég segja það um lán úr þessum sjóði, að þau hafa farið í ýmsa staði, sem ég hélt, að þeim mundi ekki vera ætlað að fara. Ýmsir stórbændur hafa fengið lán, en ég verð að segja, að það er ekki í samræmi við það, sem látið var í veðri vaka og lögin mæla fyrir unt. Ég get að vísu ímyndað mér, að erfitt sé fyrir stjórn sjóðsins að vita nákvæmlega, hverjir hafi brýna þörf fyrir lán og hverjir ekki, vegna þess að þau vottorð hér að lútandi, sem heimtuð eru, hafa litla þýðingu. Ég þekki þess dæmi, að maður hefir fengið lán, sem hæglega hefði getað byggt fyrir peningainnstæðu, sem hann á hjá öðrum.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál fari til landbn., og ég vona, að hún athugi, hvort ekki er ástæða til að breyta meiru en frv. ráðgerir. Það er virðingarvert af stjórn Búnaðarbankans að vilja laga stærstu misfellurnar, en þessar breyt. ganga bara of skammt.