12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (1609)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Þótt ég sé dauður, vil ég svara þeirri fyrirspurn, sem beint var til mín, nokkrum orðum.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að lán til fyrirmyndarbúa yrðu veitt efnamönnum, og þau ákvæði, sem að þessu lúta, kæmu því í bága við tilgang sjóðsins. Það er nú engan veginn víst, að það verði eingöngu efnamenn, sem þessi lán hljóta. Í þessu efni verður fyrst og fremst litið á hæfileika manna og dugnað, og framkvæmdasemi og góður efnahagur fer eigi ávallt saman, enda skil ég ákvæðin svo, að heimilt sé að veita lánin, án tillits til þess, hvort maðurinn er efnaður eða ekki.

Þá spurði hv. þm., hvað sjóðsstj. gerði, ef maður, sem slíkt lán hefði fengið, reyndist ekki fær um að reka fyrirmyndarbú. Því er til að svara, að rekstur slíkra búa verður undir eftirliti Búnaðarfélagsins, og Búnaðarfélagið verður því að sjá um, að maðurinn sé starfi sínu vaxinn, og geta vikið honum burt, ef hann reynist það ekki. (JS: Og eins þótt hann eigi jörðina sjálfur?). Þá verður að láta hann endurgreiða lánið. Annars er þetta framkvæmdaratriði, sem heyrir undir stj. Búnaðarfélagsins.