29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Í fyrra sinn, sem ég talaði hér við þessa umr., ætlaði ég að víkja nokkrum orðum að hæstv. dómsmrh. í sambandi við ýmisleg ummæli og gerðir hans í varðskipamálum. Það er reyndar nokkuð útrætt mál, bæði um ónauðsynleg ferðalög og fleira. En síðan þetta var, hefir hann komið með ummæli, sem snerta björgunarmálefni landsins. Mér þykir einkennileg þessi uppgerð hans milli skipstjóranna á varðskipunum; tveir þeirra séu aðeins miðlungsmenn, en einn þeirra, skipstjórinn á Ægi, sé einhver einstakur afburðamaður. Ég hygg, að þeir sem til þekkja, áliti Friðrik Ólafsson skipstjóra á Þór og Jóhann P. Jónsson á Óðni ágæta sjómenn. Ég er ekki að segja, að skipstjórinn á Ægi sé ekki góður sjómaður. Ráðh. má bara ekki hæla honum á kostnað hinna, sem landslýður þekkir svo vel.

Hæstv. ráðh. minntist á þá kunnáttu og sérmenntun, sem þeir Jóhann og Friðrik hefðu, og reyndi að gera eins lítið úr henni og unnt var. Ég hefi bent á, að Jóhann P. Jónsson hefir lokið meira skipstjóraprófi bæði í Danmörku og hér heima með ágætum vitnisburði, og Friðrik Ólafsson hefir líka meira próf. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. kennslumrh. sé kunnugt um, að það þurfi meira en meðalmann að gáfum til þess afreks í námi, sem Friðrik hefir sýnt, þegar hann stóð sig betur en allir dönsku námsmennirnir í skólanum, þó að hann væri kominn á þroskaár og að sjálfsögðu farinn að stirðna til náms. Ég ætla ekki að fara að telja upp þær 15 greinar, sem þessir menn hafa tekið próf í á foringjaskólanum; ég gerði grein fyrir því á þinginu 1927.

Ég veit ekki hvað hefir þýðingu, ef þessi sérmenntun er lítilsvirði. Þeir, sem vita, að það er enginn barnaleikur að stýra varðskipi hér við land, þeir skilja, að hún er nauðsynleg. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. um brjóstbarn hans, skipstjórann á Ægi. Hvers vegna lét hann, hann ekki ná sömu sérmenntun og hina? Um sérmenntun hans í björgunarmálum er náttúrlega gott eitt að segja. Hana eignaðist skipstjórinn á örstuttum tíma í Noregi, Þýzkalandi, Englandi og ég man ekki hvað víða. En ég vil fullyrða, að þessir ágætismenn tveir, sem alltaf er verið að halla á bæði á þingi og í blöðum, þeir hafa líka reynst vel við björgun, þó að þeir hafi aldrei haft þessa „sjö landa sýn“, sem hæstv. dómsmrh. talaði um. Og skipstjórinn á Ægi hefir enda sýnt hæfileika sína til björgunar áður en hann fór í þessa siglingu sína. — Það er ákaflega leiðinlegt, þegar hæstv. dómsmrh. minnist á Jóhann P. Jónsson, og þótt honum dyljist ekki mannkostir hans og dugnaður, þá hefir hann alltaf horn í síðu hans, sýnilega af því, að það var íhaldsstj., sem réð hann og Friðrik Ólafsson í embætti. Strax á þinginu 1927, þegar laun þeirra voru ákveðin, undi hann því illa. Hann barðist fyrir því á þinginu 1928 að taka nokkuð af kaupi þeirra. En fyrir landhelgissjóð hefir það ekki orðið neinn gróðahnykkur, því að samkv. l. frá 1927, um varðskip, var kaup skipstjóra og vélamanna 88.461,28 kr., en við þá breytingu, sem samþ. var á þinginu 1928, þegar hann réð lögum og lofum, hefir þessi upphæð komizt nokkuð yfir 96 þús. kr. Það fór svo, að sjóðurinn eða ríkið græddi ekkert á þessu brölti hæstv. ráðh., en vitaskuld náðist það, að þessir menn sátu við skarðan hlut.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt um þetta, en vildi aðeins benda á, að það er ákaflega leiðinlegt að vera alltaf að leggja þessa menn á vogarskálar, sem allir vita það um, að ef þeir eru dæmdir með tilliti til sjómennsku sinnar, þá veit allur landslýður, að þetta eru ágætis sjómenn, sem erfitt verður að gera upp á milli um það, hver beztur sé, en hitt veit ég, að tvo þessara manna vill hæstv. ráðh. setja skör lægra, sem þó eru að öllu betur menntir og hæfari í stöðum sínum en hinn þriðji, sem er óskabarn ráðh.

Svo eru það björgunartækin, sem eru á Ægi. (Dómsmrh.: Og nú á Óðni líka). Já, það er mjög gleðilegt, að hæstv. ráðh. hefir látið setja þessi tæki á skipin, en hann gat gert það og sagt frá því rétt og satt, þótt hann færi ekki að setja hnútur í bæði mig og aðra, sem eitthvað hafa haft með björgunarstarfsemi að gera. Hæstv. ráðh. sagði, að Þór hefði verið illa útbúinn, en ég veit ekki betur en að hann hafi haft línubyssu, ljóskastara og dráttartæki. Hann var vel útbúinn að því, sem honum var nauðsynlegt að hafa til þess að bjarga bátum, og ég veit ekki til að honum hafi nokkru sinni mistekizt björgun fyrir það, að hæfileg tæki hafi vantað. Sem betur fór, þá fór saman gifta mikil á því skipi og dugnaður, svo að björgun heppnaðist ætíð. — En þetta viðbjóðslega gort, að enginn maður hafi gert neitt að gagni nema hæstv. dómsmrh., er svo leiðinlegt að hlusta á, að því verður ekki með orðum lýst. Hvað, sem hæstv. dómsmrh. minnist á, þá hefir allt, sem horfir til bóta, orðið til í hans tíð, sama hvort talað er um skip, skóla eða annað. Ég veit ekki, hvað hæstv dómsmrh. hyggur um skilning þessarar þjóðar, hvort hann heldur að það sé vissust og sigursælust leið stjórnmálamanns að hæla sjálfum sér nógu mikið, en mér finnst, ef svo á að fara fram, þá verði það til að leiða heldur óhollan anda inn í þjóðlífið.

Ég ætla svo ekki að tala meira við hæstv. dólnsmrh., en vildi þó bæta því við, þegar hæstv. dómsmrh. staðhæfir, að undir sinni stj. hafi landhelgisgæzlan batnað að mun, að það væri skárra ef hún versnaði við það að fá Ægi í viðbót. Skyldi ekki aðstaðan vera betri við það, að Ægir er kominn í viðbót við Óðinn?

En svo er það eitt, sem kemur þráfaldlega fyrir hjá hæstv. dómsmrh., sem ég vildi benda honum og hv. dm. á, að er dálítið óvenjulegt, að oft sé hampað af manni í hans sæti, þegar talað er um verðleika varðskipsforingjanna. Þá vegur hæstv. ráðh. allt á þá reizlu, hve marga togara hver þeirra hafi tekið. Það er eins og það sé höfuðtakmarkið með landhelgisgæzlunni að taka sem flesta togara. Ég veit ekki hvort það eru 10 eða 11 togarar, sem Ægir á að hafa tekið, en ég álít engan skipstjóra betri fyrir það, þótt hann dragi 10 eða 11 togara inn á höfn, og dómstólarnir verða svo að sýkna þá á eftir í mörgum tilfellum. Ég hygg, að þau útlend stjórnarvöld, sem ef til vill fengju að heyra skoðun hæstv. dómsmrh. á þessu máli, þætti nokkuð athugaverður grundvöllurinn fyrir því, hve margir togarar væru teknir, og hvað væri lögð áherzla á með okkar landhelgisgæzlu, því að það lítur þá út fyrir það, að við viljum ekki fyrst og fremst að landhelgin sé varin, heldur að sem mestum sektum sé safnað í landhelgissjóð. Þetta er hættulegt landhelgisvörnum okkar, að útlendingar heyri þessari skoðun haldið fram af dómsmrh. landsins.

Ég ætla þá að víkja að því máli, sem ég vildi aðallega gera að umtalsefni hér, og ef hæstv. fjmrh. mætti heyra mál mitt, þætti mér það gott. — Ég tók eftir því, að í svari hæstv. fjmrh. við þeim aths., sem ég kom hér fram með viðvíkjandi tildrögum að Síldareinkasölu Íslands og rekstri hennar í tvö síðastliðin ár, gætti meira vanstillingar en ég á að venjast af hæstv. ráðh., og það er satt að segja óvanalegt, að hæstv. fjmrh., sem ávallt er prúðmenni og venjulega heldur sér fast við umræðuefnið, safni saman eins miklu af köpuryrðum og hann gerði í það skipti. Sem sagt, hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði ekki farið með nema blekkingar og rangfærslur, fyrir utan það, sem ég hefði ekkert vit á málinu og væri því ókunnur. Ég ætla nú ekki að fárast yfir því í bili, en legg það undir dóm hv. d., eftir að hafa dregið fram nokkrar staðreyndir í málinu, hvor okkar hefir farið með fleiri sleggjudóma.

Hæstv. ráðh. sagði að ég vildi ekkert skipulag hafa á síldareinkasölunni. Þetta er ekki rétt, ég var með skipulagslögunum 1926, og hæstv. ráðh. veit það ennfremur, að ég, ásamt nokkrum öðrum sjálfstæðisþingmönnum á síðasta þingi, flutti ítarlegar brtt. við síldareinkasölulögin, sem miðuðu að því að skipuleggja síldareinkasöluna eins og samlagsfélagsskap, svo að það er alveg fráleitt, að ég vilji ekki hafa neitt skipulag; mér er það alveg ljóst, að slíkt verðar að vera.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði farið fram á að fá upplýsingar, sem ómögulegt væri að gefa. Þar ber þessum ráðh. ekki saman við hæstv. atvmrh., sem sagði, að ég ætti að koma fram með þessa spurningu á öðrum tíma en eldhúsdegi; en þrátt fyrir það, þótt þeim bæri ekki saman, fór hæstv., ráðh. samt að svara því, sem ég spurði um, þótt hann teldi ómögulegt að svara því. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ríkisstjórnin hefði enga íhlutun um stj. einkasölunnar, eða hvernig reikningar hennar væru færðir. Það verð ég að segja, að er dálítið einkennileg fullyrðing, þar sem endurskoðendur eru skipaðir af ríkisstjórninni, og þar sem þeir eru skipaðir af henni, getur hún lagt þeim lífsreglurnar og haft fullt eftirlit með því, hvernig reikningar síldareinkasölunnar eru færðir. En jafnframt því, að þetta er skoðun hæstv. stj., er það gott að þessi yfirlýsing kemur fram, því að hvar er þá vernd þeirra, sem eiga allt undir einkasölunni, ef stj. ræður engu, því að framleiðendurnir hafa engin tök á að hafa áhrif á þetta; þeim er algerlega bægt frá því með því fyrirkomulagi, sem nú er, fyrir því hefir hæstv. stj. og hv. þingmeirihl. rækilega séð. Það virðist þá, eftir því sem hæstv. ráðh. gaf í skyn, að stj. einkasölunnar sé einvöld.

Hæstv. ráðh. sagði, að einkasalan hefði gengið vel árið 1927, og ennfremur sagði hann, að þessi verðlækkunartrygging (Prisfaldgaranti) síldareinkasölunnar hefði ekki bakað henni neitt tjón. Ennfremur neitaði hæstv. ráðh. því, að samið hefði verið við Bræðurna Levi, og að því er snerti stærðina á síldinni, sem ég sagði að hefði verið óvarlegt að selja stærri síld en hægt hefði verið að afla, þá vildi hæstv. ráðh. kenna það reglugerð, sem Björn Líndal hefði samið.

En að því er snertir það atriði, sem ég nefndi áðan, verðlækkunartrygginguna, að það hefði ekki orðið að sök, þá ætla ég að nefna eitt ábyggilegt dæmi. Tveir af útsendurum einkasölunnar árið 1928 seldu í fyrstu sölu 5000 tn. af kryddsíld til kaupanda í Svíþjóð. Þessir tveir munu hafa verið hr. Ingvar Guðjónsson og hr. Einar Olgeirsson. Seinna seldu þeir aftur 1–2 þús. tn. af kryddsíld til annars kaupanda, og var það selt fyrir eitthvað 2–3 kr. lægra verð á tn., fyrri salan með verðlækkunartryggingu, en um hina veit ég ekki. Í seinni hluta ágústmánaðar, þegar síldin var afhent og átti að fara að borga þessar 5000 tn., þá snéri umboðsmaður kaupanda sér til eins af framkvæmdastjórum einkasölunnar og sýndi samninginn, sem tryggði honum lægsta verð. Hann vitnaði í hina söluna fyrir lægra verð, sem honum var kunnugt um. Hann knúði svo fram 15000 kr. afslátt á þessu „partíi“. — Fyrir þessu hefi ég ábyggilegar heimildir.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta hefði ekki komið að sök, en ég hefi hér eitt dæmi, og þau kunna að vera fleiri, og það er svo augljóst, hvort svona sölusamningar hljóta ekki að vera skaðlegir, að það þarf ekki að deila um það.

Þá hefi ég það fyrir satt, að samningur um sölu á síld af þessari stærð muni hafa farið fram áður en reglugerðin var samin, svo að um þessa sölu þarf ekki að kenna höfundi hennar. Um Bræðurna Levi ætla ég að sé alveg óþarft að deila, vegna þess að því var lýst yfir á fundi, sem útgerðarmenn héldu á síðastliðnu ári, að samið hefði verið við þá. Hvað það hefir kostað að fá þá til að sleppa samningi sínum, skal ég ekki segja neitt um, en það er vist, að slíkt verzlunarhús leikur sér ekki að því að sleppa samningi um umboðssölu alveg út í bláinn. Ég hefi heyrt sagt ,að þeir hafi orðið að fá „provision“ af sölunni eftir sem áður, og mér þykir það mjög trúlegt, að þeir hafi orðið að fá allríflegar skaðabætur. Hæstv. ráðh. sagði svo um matið, að það hefði verið óvenjulega gott í fyrra. Má vel vera, en ég vil aðeins benda á það, að sú hlið, sem snýr að framleiðendunum, hún er óvenjuleg, vegna þess að matið er framkvæmt af umboðsmönnum sjálfrar einkasölunnar. Þegar maður selur fisk eða kjöt, er matið framkvæmt af mönnum, sem ekki eru starfsmenn kaupmannsins eða kaupandans, sem hlut á að máli, en hjá einkasölunni eru það umboðsmenn hennar, sem matið framkvæma, svo að hið eiginlega opinbera mat er horfið, en það er aðeins flokkun einkasölunnar sjálfrar sem gildir.

Þá eru þau töp, sem gera má ráð fyrir, að einkasalan hafi orðið fyrir á árinu 1929 vegna óuppfylltra samninga. — Hæstv. ráðh. sagðist hyggja, að ekkert hefði verið greitt fyrir þessi samningarof. Getur vel verið, að hann hugsi það, en það hefði samt verið skemmtilegra, ef skýlaus yfirlýsing í því efni hefði legið fyrir. Það virðist vera fullur grunur á því meðal almennings, að síldareinkasalan hafi orðið fyrir miklum töpum. Hvort það er fært sem tap, eða það kemur niður í lækkuðu síldarverði, skal ég ekkert um segja, en tapið fyrir síldareigendur verður alveg það sama, hvernig sem síldareinkasalan skýrir frá því.

Ef menn vilja athuga það, hver líkindi eru til, samkv. því verði, sem síldareinkasalan ætlar sér að borga, og í almæli er að sé 14 kr. fyrir innihald hverrar tunnu, að hún hafi orðið fyrir einhverju áfalli 1929, samanborið við aðrar þjóðir, sem hafa veitt hér síld og selt, þá verður niðurstaðan allgrunsamleg.

Ég mun síðar sýna fram á það, að Norðmenn seldu sína framleiðslu 1929 fyrir verð, sem er svo miklu hærra en það, sem síldarframleiðendur hér fá, ef tekið er tillit til þess, að Norðmenn verka sína síld á miklu ódýrari hátt en Íslendingar, og þess, að íslenzk síld hefir hingað til verið talin mun betri markaðsvara en norskveidda síldin.

Þá minntist hæstv. ráðh. á Austfjarðasíldina og sagði, að það mætti deila um það, hvort rétt væri að greiða sama út á Austfjarðasíld og Norðurlandssíld. Ég verð að segja, að það sé alls ekki hægt að deila um það atriði; sjálf síldareinkasölulögin mæla nógu skýrt fyrir í þessum efnum. Í 4. gr. þeirra laga má lesa, — með leyfi hæstv. forseta :

„Skal það miðað við meðalverð allrar síldar það ár og sama verð greiðast fyrir alla síld af sömu tegund og gæðum, afhenta einkasölunni á sama stað“.

Þegar sýnt er og sannað, að Austfjarðasíldin er allt annarar tegundar, miklu smærri en Norðurlandssíldin, en miklu smærri þýðir það sama og að markaðsverð þeirrar síldar er miklu lægra, og að því er snertir staðinn, þá er það augljóst, að ekki er sami staður Siglufjörður og Austfirðir, svo að slíkt fer algerlega í bág við síldareinkasölulögin. Virðist mér því, að um þetta atriði sé ekki ástæða til að deila neitt. Það er alveg augljóst, að Austfjarðasíld er lakari; hún er á öðrum stað og að því leyti er skakkt að reikna nákvæmlega sama fyrir hana eins og Norðurlandssíld. Auk þess er það svo enn, að því er ég bezt veit, að jafnvel nú, þótt gott sé að selja síld, þá mun öll Austfjarðasíld frá síðastl. ári ekki vera seld ennþá. Það er enginn vafi á því, að með þessu móti er þeim óréttur gerður, sem koma með betri vöru til síldareinkasölunnur, að önnur lakari vara sé greidd jöfnu verði á þeirra kostnað.

Því vildi hæstv. ráðh. hrinda því, sem ég sagði um framleiðslu kryddsíldar. — Ég hafði sýnt fram á, að Íslendingar væru, að því er virtist, að missa tökin á framleiðslu kryddsíldar, og vil í því samb. benda á það, að árið 1927 krydduðu Íslendingar 59.181 tn., en Norðmenn aðeins 8.000 tn., árið 1928 50.176 tn., en Norðmenn 11.200 tn., árið 1929 krydda Íslendingar aðeins 17.001 tn., en Norðmenn ca. 40000 tn. Þetta sýnir glögglega, að framleiðsla kryddsíldar fer óðum þverrandi hjá Íslendingum síðan einkasalan tók til starfa, en vaxandi hjá Norðmönnum. Og hnignunin undir stj. einkasölunnar verður athugaverðari fyrir það, að Svíar eru sjálfir farnir að veiða síld hér við land, og veiddu, eftir því sem ég veit bezt, á 12–14 skipum, og þeir krydduðu alla þessa síld.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að framleiðsla á kryddsíld væri þó hlutfallslega eins mikil nú og árið 1927, samanborið við verðmagn veiðinnar. En þetta er heldur ekki rétt. Það nægir að geta þess, að þar sem árið 1927 voru kryddaðar um 60 þús. tn. af 240 þús. tn., sem veiddust, voru til samanburðar á síðastl. ári 17.000 tn. kryddaðar af um 125.000 tn., sem veiddust. Það er, m. ö. o., að af ársveiðinni 1927 voru um 25% krydduð, en af ársveiðinni 1929 voru aðeins um 14% krydduð, svo að hlutfallið hefir engan veginn haldizt. Þetta sem hæstv. ráðh. hélt fram, að ég væri að tala um framleiðslu Íslendinga á kryddsíld áður en einkas. tók til starfa, sem ekki hefði verið framleiðsla Ísl. sjálfra, er nákvæmlega það sama enn í dag, að því leyti, að Svíar leggja enn fram tunnur og salt. En hverjir fá svo peningana fyrir að framleiða þessa dýru vöru? Þessi framleiðsla er að hverfa frá okkur og til útlendinganna. Það er sérstaklega illt gagnvart reknetabútunum, að kryddsíldarframleiðslan er að hverfa úr höndum okkar, af því að það eru einmitt reknetabátarnir, sem höfðu beztan aðgang að því að selja síld til kryddunar, því að þeir komu inn með smærri slatta af síld, sem ekki var farin að skemmast eins og oft vill eiga sér stað í stóru skipunum, og því þægilegra fyrir þá að koma sinni vöru í peninga, svo að það má segja, að þessi hnignun hafi mest gengið út yfir smærri útgerðina.

En það er ekki einasta kryddsíldarsalan, sem er að hverfa, heldur er verðmæti aflans stórum fjarandi síðan einkasalan tók til starfa. Til þess að sýna það, að þetta er ekki eingöngu mín skoðun, heldur líka skoðun annara manna og sannanlegt af opinberum skýrslum, vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkuð upp úr nál. frá sjútvn. fiskiþingsins, sem var háð nú síðast.

„Til nefndarinnar var vísað áskorun til fiskiþingsins, sem samþ. var með öllum greiddum atkv. á fjórðungsþingi Austfirðingafjórðungs, að það hlutist til um það við ríkisstjórnina og Alþingi:

1. Að síldareinkasalan fái aukið fé til umráða, svo að hún geti greitt sem mest út á síldina jafnóðum og hún veiðist, helzt sem svarar veiði- og verkunarkostnaði, og geti séð fyrir nægilegum tunnubirgðum í öllum veiðistöðvum landsins.

2. Mótmæli fjórðungsþingsins í Norðlendingafjórðungi gegn því, að menn, sem eigi reka síldarútgerð, séu endurskoðendur reikninga síldareinkasölunnar og ósk um, að minnsta kosti annar endurskoðandinn sé valinn úr hópi síldareigenda“.

Þetta er áskorun, sem sjútvn. Fiskifélagsins hafði til meðferðar. Fyrri áskorunin fer fram á það, að einkasalan hafi fé til umráða.

Sjútvn. Fiskifélagsins rannsakaði síldarútflutning og verðmæti hans um nokkur ár áður en síldareinkasalan tók til starfa, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa það upp:

„Saltsíld:

1923 .......

18.920.481 kg.

5.878.680 kr.

1924 ........

9.386.531 —

4.882.483 —

1925 ........

16.725.195—

7.397.094 —

1926 ........

11.464.912—

5.075.245 —

1927 ........

19.626.671—

5.769.609 —

Kryddsíld:

1923 ........

2.578.723 kg.

1.089.738 kr.

1924 ........

2.354.690 —

1.986.080 —

1925 ........

3.410.096 —

1.962.264 —

1926 ........

3.739.220 —

2.089.531 —

1927 ........

5.004.022 —

2.242.873 —

Meðalafli þessara 5 tilgreindu ára hefir því numið 18.642.108 kg., eða 214.679 tunnum. Og meðalverðmætið 7.710.719 kr., eða tæplega 36 kr. á tunnu. Hinsvegar varð framleiðsla salt- og kryddsíldar á árinu 1928 ekki nema 185.700 tunnur, samkv. reikningi síldareinkasölunnar, sem birtur er í Lögbirtingablaðinu 30. maí 1928. Og sé gert ráð fyrir, að þær liðlega 7.000 tunnur síldar, sem óseldar voru um áramótin, þegar reikningurinn var gerður, hafi selzt svipuðu verði og það, sem út var flutt fyrir áramótin, hefir samanlagt verðmæti salt- og kryddsíldar numið um 565 millj. kr., eða nálægt 2 millj. kr. minna en meðaltal undanfarinna 5 ára.

Reikningar síldareinkasölunnar fyrir árið 1929 hafa ekki verið birtir ennþá, svo sem kunnugt er, en mestöll framleiðsla ársins af salt- og kryddsíld mun vera seld og borguð. Framleiðsla síldaraflans árið 1929 var aðeins um 125 þús. tunnur, og er það minna en nokkru sinni áður yfir meira en 20 ára tímabil, að einu aflaleysisári undanskildu (1918), og verðmæti það, sem fengizt hefir fyrir aflann, mun tæplega vera hærra á tunnu en það varð á árinu 1928, eða ekki yfir 30 kr. á útflutta tunnu að meðaltali. Sé gert ráð fyrir því, að meðalverð á tunnu af ársframleiðslunni muni vera 30 kr. tunnan, verður heildarútkoman aðeins 3.750 þús. kr., eða nálega helmingi minna en meðalverðmætið var 5 árin áður en síldareinkasalan tók til starfa.

Nú var það vitanlegt, að þessi lækkun á framleiðslu og verðmæti salt- og kryddsíldar stafar ekki af aflaleysisárum þessi tvö s. l. ár, þar sem sjaldan mun meiri veiði hafa borizt að en einmitt s. l. sumar, heldur virðist lækkunin stafa af öðrum ástæðum.

Af þessu er bert, að síldareinkasalan hefir ekki orðið til fjárhagsbóta fyrir landið eða landsmenn, og getur því n. ekki mælt með því að svo vöxnu máli, að fiskiþingið verði við áskorun fjórðungsþingsins í Austfirðingafjórðungi um aukið fjármagn til síldareinkasölunnar.

N. leggur til, að fiskiþingið samþ. svohljóðandi ályktun:

„Fiskiþingið ályktar að skora á Alþingi, að taka til alvarlegrar íhugunar fyrirkomulag síldareinkasölunnar og gera tilraun til þess að bæta úr þeim göllum á fyrirkomulagi síldarverzlunarinnar, sem stendur þessum atvinnuvegi fyrir þrifum.

Fiskiþingið telur ósk fjórðungsþingsins í Norðlendingafjórðungi, um að minnsta kosti annar endurskoðandi að reikningum síldareinkasölunnar sé valinn úr flokki síldarútgerðarmanna, að öllu leyti sanngjarna og eðlilega, þar sem þekking á síldarútgerð og síldarverzlun er nauðsynleg fyrir endurskoðendur, ef um annað en töluendurskoðun er að ræða“.

Ég vil geta þess, að ályktun n. var samþ. af Fiskifélaginu.

Hæstv. fjmrh. minntist á söltunarleyfin. En eins og ég hefi þegar tekið fram, þá er þýðingarlaust að hugsa sér að fara frá Suðurlandi til Norðurlands með reknetabát, þegar hann hefir ekki leyfi til að salta nema 500 tunnur, eins og síðasta sumar. Hæstv. ráðh. segir, að sama sé gert við stærri skipin t. d. togarana. Þeir hafi ekki nema 2.000 tunnu söltunarleyfi og verði að selja allan annan síldarafla sinn í bræðslu, og þannig sé aðstaðan lík. Ég verð að halda, að hæstv. ráðh. hafi ekki athugað þetta. Það er óhugsandi, að reknetaútgerð geti borið sig með því að selja síldarafla sinn í bræðslu við því verði, sem á henni er.

Hugsum okkur, hvernig útkoman yrði, ef ætti að gera reknetabát út undir svona skilyrðum. Það er varla skynsamlegt að gera ráð fyrir, að hann afli meira en 1.200 tunnur. Setjum svo, að hann megi selja 600 tunnur til söltunar, 14 kr. tunnan. Allan annan afla, 600 tunnur, yrði hann að selja í bræðslu á 4 kr. tunnuna. Andvirði alls aflans yrði þannig 10.800 kr. Sé gert ráð fyrir, að halda verði bátnum úti frá 10. júlí til 20. sept., sem að líkindum þyrfti að gera, ef hann ætti að afla þetta mikið, þá má telja það gott, ef hann sleppur við 5 þús. kr. tap. Það er því gert alveg út í bláinn, að halda því fram, að þeir bátar, sem veiða í reknet, geti selt í bræðslu. Það getur alls ekki komið til greina.

Hjá togurunum er útkoman allt önnur, vegna þess að þeir veiða svo mikið í sínar nætur, sem auðvitað eru snurpinætur, og það er allt annað að veiða í snurpinætur en reknet. Þessi takmörkun á söltuninni kemur því harðast niður á smærri atvinnurekendum, því að það eru helzt þeir, sem gera reknetabátana út. Það er óskiljanlegt, hvers vegna einkasalan er svo treg að gefa leyfi til söltunar, þar sem hún getur stöðvað söltunina hvenær sem henni sýnist. Það er alveg eins og ætlast sé til þess, að söltunin verði svo lítil, að smærri bátar geti alls ekki stundað síldveiði.

Hæstv. ráðh. minntist á tunnuskortinn og sagði, að slíkur skortur væri engin einsdæmi; hann hefði oft komið áður. Til þess að gera sér grein fyrir, hvort þessi fullyrðing sé rétt eða sennileg, má athuga það, að þegar veiðin brást í fyrra, var búið að salta og krydda í kringum 125 þús. tunnur. Þrátt fyrir það, að snemma tók fyrir veiðina, var hún í heild sinni óvenjulega mikil, ef litið er á það, sem fór í bræðslu, þegar allt var í vandræðum vegna tunnuleysis.

Ef tekið er árið 1927, þá var búið að salta kringum 207 þús. tunnur á því ári um sama leyti og veiðin þraut síðasta ár. Ekki hefir tunnuleysi bagað það ár. En mismunurinn í þessi tvö ár á sama tíma ársins 1927 og 1929, er um 80 þús. tunnur. En ef miðað er við það, sem einkasalan leyfði að salta, 190 þús. tunnur, þá er mismunurinn 65 þús. tunnur. Hefði nú ekki vantað tunnur, hefði vel verið hægt að salta þessar 65 þús. tunnur, þangað til veiðin þraut. Það var eingöngu tunnuskorturinn, sem hefti þá framleiðslu.

Þó að tunnuskortur hafi komið á undanförnum árum, þá hefir hann aldrei orðið eins stórfelldur og síðan einkasalan kom. Þó að einn og einn mann vantaði tunnur, var það ekki tilfinnanlegt, því að þá gátu aðrir hjálpað honum. En þegar allt er komið undir einn hatt, liggur hættan í því, að mistök, sem hjá privat mönnum verða ekki öðrum til tjóns en þeim sjálfum, verða fjölda atvinnurekenda til stórhnekkis, þegar þau koma fyrir hjá jafnstóru fyrirtæki og síldareinkasalan er, sem menn eru bundnir við. Þetta kom ljóslega fram síðasta sumar.

Hæstv. ráðh. sagði, að lögin bæri að skilja þannig, að enginn hafi leyfi til að panta tunnur nema einkasalan. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt, en ef svo er, að einkasalan ein eigi að annast pantanir á tunnum, þá er hennar ábyrgð ennþá alvarlegri.

Hæstv. ráðh. minntist á, að einn maður hefði fengið 3.000 tunnur hjá einkasölunni, og gaf í skyn, að hann hefði fengið leyfi einkasölunnar til að panta tunnur.

En ég vil leyfa mér að gefa þessari hv. d. þær upplýsingar, að þessi maður, Þormóður Eyjólfsson, hafði ekkert leyfi til að panta tunnur og hann fékk þessar tunnur hjá stj. síldareinkasölunnar.

Ég minntist á það í fyrri ræðu minni og leiddi rök að því, að þótt tilgangurinn með þessari stofnun sé að efla atvinnuveg þennan, hefir hún ekki getað náð þessum tilgangi ennþá. Sjútvn. Fiskifélagsins styður líka þessa skoðun mína. Þessi n. er skipuð starfhæfum og góðum mönnum, og vil ég leyfa mér að lesa upp nöfn þeirra til að sannfæra hv. þdm. um það. Það eru þeir Jón Ólafsson 3. þm. Reykv., Arngrímur Bjarnason, Níels Ingvarsson, Árni Geir Þóroddsson og Jón Bergsveinsson. Þessi n. hefir samkv. útreikningum hagstofunnar sýnt, að árið 1928 hefir verið flutt síld út fyrir 2 millj. kr. minna en meðaltal næstu 5 ára á undan, meðan verzlunin var frjáls. Og árið 1929 er verðmætið aðeins 33/4 millj. kr., eða helmingi minna en meðaltal næstu 5 ára á undan því, að einkasölulögin gengu í gildi, og er þá gert ráð fyrir 30 kr. meðalverði á tunnu 1929.

Þá vil ég snúa máli mínu að því, hvort líkur séu til þess, að einkasalan hafi orðið skaðabótaskyld árið 1929. Hæstv. ráðh. fullyrti ekkert um það, en kveðst þó hyggja, að svo hefði ekki verið.

Ég hefi heyrt, að mál hafi risið upp út af skaðabótakröfum. En hvað sem því líður, má þó benda á, að verðið 1929, ca. 14 kr. tn., er svo lítið samanborið við Norðmenn, að menn hljóta að komast að þeirri niðurstöðu, að um óvenjulegan kostnað sé að ræða.

Ég hefi fyrir framan mig opinbera skýrslu, sem birt er í Udenrigsministeriets Tidskrift, sem danska stj. gefur út. Þar er skýrt frá síldarafla Norðmanna hér við land síðasta sumar, og hvað þeir hafi fengið fyrir hann.

Þar segir svo, að þeir hafi fengið 23 aura nettó fyrir hvert kg. (að frádregnum tunnum og salti). Sé miðað við þá þyngd, sem venjulega mun vera á síldartunnum, virðist mér að Norðmenn hafi fengið 20,70 norskar krónur eða kring um 25 íslenzkar kr. fyrir hver 90 kg., og er þá auðsætt, að þegar þeir hafa lakari vöru og ódýrari verkun, að Íslendingar verða ekki vel úti með sitt 14 kr. verð til samanburðar.

Árið 1929 hafa Norðmenn fengið mikið meira en Íslendingar fyrir sama framleiðslumagn, og sá mismunur finnst mér meiri en svo, að það sé með öllu af eðlilegum ástæðum. Auðvitað fellur nokkur kostnaður á vöruna fyrir stj. og umsjón með einkasölunni, en það mætti nú fyrr vera en hann væri svona mikill.

Það er líklegt, að skaðabótagreiðslur, beinar eða óbeinar, eigi þátt í þessum mismun.

Hæstv. ráðh. sagði, að eiginlega væri allur síldarútvegur eilíf og eintóm mistök. Flokksmenn hæstv. ráðh. hafa oft haldið fram, þegar rætt hefir verið um þennan atvinnuveg, sérstaklega eins og skipulag hans hefir verið, að hann væri eintóm mistök. M. ö. o., það er sem staðreynd út af fyrir sig í hug þeirra þm., sem tala um þessi mistök, að þau afsaki öll skakkaföll einkasölunnar. Það hafa oft fallið óvildarorð frá þeim í garð síldarútvegsins. Hvað hefir þessi atvinnuvegur þá unnið til saka? Á síðasta ári voru gerð út á síldveiðar 70 íslenzk snurpinótaskip og 100 reknetabátar. Við þau hafa þúsundir manna fengið atvinnu. Af engri vöru, sem flutt er til útlanda, eru borgaðir eins háir skattar. Þeir gefa hundruð þúsundir króna í ríkissjóð. Hvers vegna er þá alltaf verið með svona fullyrðingar um eilíf töp? Ég veit ekki til, að bankaútibúin á Akureyri og Siglufirði hafi verið neitt ver stæð en önnur útibú, þegar verið var að rannsaka töp þeirra, og þau eru þó þau útibú, sem síldarútgerðarmenn skipta mest við. Þau hafa þvert á móti fremur verið betur stæð en hin, eftir því sem rannsóknirnar hafa leitt í ljós.

Hæstv. ráðh. segir, að ég sé með sleggjudóma. Ég vil mælast til þess, að hann líti þar nær sér, hvort ekki liggi steinn í götunni í þessu efni.

Þá hefi ég nú athugað ræðu ráðh. og sýnt fram á, að af Prisfaldsgarantie sölusamningnum leiddi beint tjón, að salan með síldarstærð, sem er ekki fáanleg, fór ekki fyrst fram samkv. reglugerð, sem Björn Líndal samdi, heldur átti sér stað áður, að samningur var gerður við Brödrene Levi, að meðferð einkasölunnar að greiða fyrir Austfjarðasíld sama verð og Norðurlandssíld er ekki heimiluð með lögum, að kryddsíldarsöltunin hefir stórum minnkað síðan einkasalan komst á stofn, bæði beinlínis og líka, ef miðað er við veiðina yfir höfuð að tala eða hlutfallslega, og að ummæli ráðh. um síldarútveginn á undanförnum árum eru órökstuddir sleggjudómar.

Þá hefi ég fært sterkar líkur fyrir því, sem raunar er á hvers manns vörum, að einkasalan hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum, sem hafa komið á bak landsmanna með lækkuðu síldarverði, og að einkasalan hafi orðið að greiða miklar skaðabætur síðastliðið ár.

„Einkasalan á heimtingu á því að njóta sannmælis“, sagði hæstv. fjmrh. Það er hverju orði sannara. Ég hefi ekki staðið upp á þessum eldhúsdegi til að bera sakir á einkasöluna, sem eru ekki sannar. En ég vil aðeins spyrja að því, hvort ekki megi tala satt um einkasöluna, þó að það leiði í ljós galla, sem eru á rekstri og fyrirkomulagi hennar. Virðist ekki hæstv. fjmrh. nauðsynlegt, að bent sé á gallana á fyrirtækinu? Eða hvað virðist honum um álit sjútvn. fiskiþingsins? Og eigi þessi stofnun, sem sjálfsagt er, rétt á að njóta sannmælis, hvort eiga þá viðskiptamenn hennar, framleiðendurnir, enga heimtingu á að fá að vita sannleikann um rekstur hennar og tilhögun? Jú, þeir eiga kröfu til að fá að vita, hvort þetta fyrirkomulag er eins gott og af hefir verið látið úr herbúðum hæstv. st., og að menn bindi sig ekki við skipulag, sem ekki hefir orðið landsmönnum til hagsbóta. En sjútvn. fiskiþingsins hefir leitt í ljós, að það hefir síldareinkasalan ekki orðið. — Menn mega ekki láta sér þykja svo vænt um ákveðið skipulag, að þeim þyki ekki vænna um atvinnuveginn sjálfan.

Ég veit ekki hvort ég á að fara að svara hv. þm. Ísaf. Ég get víst alveg sparað mér það. Hann vildi sýna fram á, að einkasölufyrirkomulagið hefði reynzt til bóta, en bæði ég og n. í fiskiþinginu, sem ég hefi áður nefnt, höfum sannað hið gagnstæða, en það er líka staðreynd, sem allur þorri landsmanna veit, að einkasalan er mislukkuð.

Hæstv. forsrh. taldi mig hafa verið með „slettur“, er ég talaði um að bændur ofan úr sveit hefðu verið gerðir endurskoðendur einkasölunnar. Því fer mjög fjarri, að hér hafi verið um nokkrar slettur að ræða af minni hálfu, heldur benti ég hér á alveg „praktiskt“ atriði. Ég sýndi það, að hæstv. stj. hefir ekki lagt sig í líma um að hafa stj. einkasölunnar eins fróða um síldarútveginn og kostur er á. En ég vísa því alveg frá mér, að ég hafi viljað kasta nokkurri rýrð á þá hv. þm., sem höfðu endurskoðunarstörfin á höndum. Ég er ekki heldur einn um þá skoðun, að óheppilegt hafi verið að hafa bændur fyrir endurskoðendur einkasölunnar. Sjútvn. fiskiþingsins hélt hinu sama fram. Og hæstv. stj. mun nú vera komin á hina sömu skoðun, að einhverju leyti, ef það er rétt, sem mér er sagt, að búið sé að velja mann úr hópi framleiðenda til að vera endurskoðandi í stað hæstv. fjmrh. (IngB: Það var búið löngu áður en hv. þm. fór að tala um þetta).

Ég vil nú biðja hæstv. stj. að taka til athugunar, hvort ekki sé ástæða til að breyta fyrirkomulagi síldareinkasölunnar þannig, að framleiðendunum séu leyfð meiri afskipti af fyrirtækinu en nú er. Það verður ætið ábyrgðarhluti að taka ráðin af framleiðendum og leyfa þeim ekki að segja neitt um það, hversu reka beri það atvinnufyrirtæki, sem þeir eiga afkomu sína og sinna undir.

Þetta vil ég láta vera niðurlagsorðin á ádeilu minni á stj. síldareinkasölunnar, eins og hún hefir verið til þessa.