12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, fjárlög 1931

Hannes Jónsson:

*) Ég vil víkja nokkrum orðum að brtt. minni, enda þótt ekki sé nema rúmlega helmingur deildarmanna á fundi. (HK: Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, að það er varla hægt að halda áfram umr. um fjárlög, þegar ekki er nema helmingur deildarmanna á fundi).

Þessi brtt. mín er á þskj. 260,IV. og er í tvennu lagi. Önnur þeirra er um það, að við 13. gr. B. II. a. bætist nýr liður: Til Húnavatnssýsluvegar 15 þús. kr. Hinn liður till. minnar er um það, að fjárveiting til Vatnsskarðsvegar, falli niður. Hér er því aðeins um tilfærslu upphæða að ræða, sem verja skal til vegagerða. Ég hefi í fyrra við umr. um þessi mál tekið það fram, að bæði fyrrv. landsverkfræðingur og núv. vegamálastjóri hafa talið brýna nauðsyn þess, að vegur verði lagður sem fyrst yfir Víðidal, og í tillögum vegamálastjóra frá 1925 er gert ráð fyrir því, að þessi vegur verði fullgerður fyrir 1932, svo að ekki er seinna vænna að taka hann upp í fjárlögin. Ég hefi áður bent á, að skynsamlegra er að leggja fyrst vegi innan héraða, áður en vegir eru lagðir yfir fjöll milli héraða. Ég hefi átt tal um brtt. mína við vegamálastjóra Geir Zoëga, og hefir hann sagt, að ef ætti að taka fé frá fjallvegum, þá áliti hann Vatnsskarðsveginn helzt mega við því, en jafnframt tók hann fram, að hann áliti verr farið, að ekki væri hægt að byrja að byggja Vatnsskarðsveginn sumarið 1931. En samkv. áætlun vegamálastjóra myndi þessi vegur kosta minnst 65 þús. kr., ef hann á að koma að nokkru haldi. Þess vegna er það alveg víst, að þessi 15 þús. kr. spotti, sem gert er ráð fyrir í fjárlfrv., yrði algerlega gagnslaus, vegna þess að hann liggur svo langt frá veginum, sem nú er farinn. Það er þess vegna miklu skynsamlegra að bíða nokkur ár með slíka vegi, en taka þess á milli svo mikið af þeim, að að gagni megi koma. Í brtt. minni er þetta kallað Húnavatnssýsluvegur, og er þar aðallega átt við veg milli Gljúfurár og Víðidalsár, en vitanlega réði vegamálastjóri, hversu framkvæmdum yrði hagað, og gæti tilfært fjárhæðir eftir því sem bezt hentaði. Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja frekar um þetta að svo stöddu og vil láta nægja að vísa til þess, sem ég hefi sagt um þetta mál á þinginu í fyrra.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég beina þeirri ósk til hæstv. atvmrh., að hann sjái um, að hafin verði strax í sumar bygging vegar yfir Holtavörðuheiði norðan frá, en ekki sunnan frá eins og hingað til, vegna þess að þörfin á vegi er áreiðanlega miklu brýnni norðan til á heiðinni en sunnan til. Sömuleiðis vil ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann láti fram fara rannsókn á vegarstæðum á Holtavörðuheiði norðanverðri, því að þar mun vera um tvær leiðir að ræða. Önnur þeirra mun vera að ýmsu leyti hentugri, vegna þess að hún er til muna styttri og auk þess sennilega töluvert snjóléttari, því að vestari leiðin hefir þann mikla annmarka, að tæplega verður komizt á bíl niður af heiðinni norðanmegin, vegna snjóþyngsla. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, og ég vona fastlega, að hæstv. atvmrh. taki það til frekari athugunar.

* ) Ræðuhandr. óyfirlesið.