29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

361. mál, fjáraukalög 1929

Fjmrh. (Einar Árnason):

Í aths., sem fylgja þessu frv., er stuttlega gerð grein fyrir flestum eða öllum liðum þess. Ég sé því ekki ástæðu til að fara út í smærri liðina. Það eru ekki nema fáir liðir, sem mynda meginútgjöldin. Fyrst eru þá 26 þús. kr. til þess að endurbæta húsakynni Menntaskólans, gera við skemmdir, mála húsið og þar fram eftir götunum.

Árið 1929 hafa verið veittar rúmlega 50 þús. kr. til sjómælinga, aðallega á Húnaflóa. Það er mikil nauðsyn að framkvæma sjómælingar víða kringum landið, og árangurinn þarna á síðastl. sumri hefir orðið sá, að líkindi eru til, að siglingaleiðir um flóann verði öruggari en áður.

Rúmlega 30 þús. kr. hafa verið greiddar til flugferða. Þessi styrkur var veittur með samþykki margra þm. og er talinn nauðsynlegur þessari tilraun, sem hafin var hér á landi í fyrra.

Stærsta upphæðin er kostnaður vegna alþingishátíðarinnar, rúmlega 300 þús. kr. Á Þingvöllum hafa verið lagðir vegir, brýr byggðar, hús flutt og reist að nýju, og auk þess alls, sem hátíðarnefndin sjálf hefir talið nauðsynlegt og fengið fé til, hefir verið greitt fé til ýmsra fleiri framkvæmda. Það hefir verið talið sjálfsagt, að fé yrði veitt til undirbúnings hátíðarinnar, þó að ekki hafi verið tiltekin nein upphæð í fjárl. 1929.

Enn skal ég nefna endurgreiðslu á tunnutolli til Norðmanna, full 60 þús. Þetta hefir verið ágreiningsmál síðan 1918 eða 1919. Frá Noregi kom krafa um allstóra upphæð. Fyrrv. stj. mun hafa gert Norðmönnum tilboð um ákveðna upphæð, ef þeir slepptu öðrum kröfum. Síðastl. sumar var gengið að þessu tilboði, að greiða rúmlega 61 þús. kr.

Þessir fáu liðir gera samtals hátt á 5. hundrað þús. kr., og er því mikill meiri hluti þeirrar upphæðar, sem í þessu frv. felst. Að öðru leyti vísa ég til grg. frv. og óska, að málinu verði vísað til fjvn.