14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Jón Auðunn Jónsson:

Það munu fáir hafa búizt við því, að frv. þessu líkt mundi koma hér fram í þinginu, eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. atvmrh. gaf, þegar rætt var um Íslandsbankamálið á lokaða fundinum í Sþ. Hæstv. atvmrh. fullyrti þá, að hann væri búinn að tala við stj. Landsbankans og ráðstafa því, að Landsbankinn tæki að sér að veita rekstrarfé þeim lífvænlegu atvinnufyrirtækjum, sem áður skiptu við Íslandsbanka. En hvað er hér á ferðinni? Hver á að meta og greina í sundur, til hverra lánin skulu veitt? Ekki væri óeðlilegt, að ríkisstj. léti annast það, þar sem ríkissjóður á að taka ábyrgðina. Annars lýsir fyrirhyggjuleysi hæstv. stj. sér hér í þessu eins og öllu Íslandsbankamálinu yfirleitt. Henni mátti vera það ljóst, að erfitt myndi vera að koma á flot öllum þeim útveg, sem lífvænlegur er og Íslandsbanki hefir styrkt með lánsfé að undanförnu, nema því aðeins, að Landsbankinn hefði gefið ákveðin loforð um að taka hann að sér og tryggt sér að einhverju viðbótarlánsfé erlendis. Þetta fullyrti hæstv. atvmrh. í upphafi, að séð væri fyrir, en nú er það sýnilegt, að Landsbankinn hefir engin loforð gefið í þessu efni. Hér er verið að binda ríkissjóð við áhættusamasta atvinnuveg landsmanna, atvinnuveg, sem að vísu er aðallífæð þjóðarinnar. Við þessa ráðstöfun eykst ekki veltufé landsmanna, en aukning veltufjár í hlutfalli við það, sem Íslandsbanki hefir haft frá útlöndum, er nauðsynleg, ef forðast á stöðvun atvinnuveganna. Ríkissjóðsábyrgðin er ekki úrlausn, en hún er hættulegt fordæmi.

Ég þykist þess fullviss, að þessar dyr, sem hér er verið að opna, muni ekki verða svo harðlæstar á næstu árum, að þær verði ekki opnaðar upp á gátt þegar á verður knúð, og hver komizt þar inn um sem vill.

Ég geri ráð fyrir því, að það verði svo í framkvæmdinni, að Landsbankinn ráði, hverjum eru veitt lánin, og þá fæ ég ekki skilið, hvers vegna hann biður um ábyrgð. Samkv. gildandi lögum hefir hann ótakmarkaða ábyrgð ríkisins, og því sé ég ekki, hvaða ástæða er til þess, að hann fái sérstaka ábyrgð fyrir þessari upphæð. Ég held satt að segja, að þegar lagt er út á þá braut að láta ríkissjóð ganga í sérstakar ábyrgðir, þótt það sé nú bundið við eina milljón, þá muni mörgum þykja sem þeir eigi heimting á láni, hvort sem líkindi séu til, að þeir geti greitt þau eða ekki. Nú vildi ég spyrja hæstv. atvmrh. um það, hvort þessi ábyrgð ríkissjóðs á að ná til þess eins að koma skipunum út, eða hvort ríkissjóður tekur ábyrgð á þessari útgerð alla vertíðina út. Tekur Landsbankinn ekki tryggingu í fyrsta fiski, sem á land kemur? Ef fyrstu túrarnir misheppnast, á þá að stöðva útgerðina eða ekki, og verður úrskurður í því efni falinn Landsbankastj. eða ríkisstj.?

Þessi lánveiting gæti verið til hjálpar, en með því einu móti, að skipin fái að halda áfram veiðum út aprílm. eða helzt maíloka; annars verður þetta til bölvunar, ef lánveitandinn kippir að sér hendinni í marz, þegar ef til vill 30–40 þús. kr. tap hefir orðið á útgerðinni. Það hefir sjaldan verið gróði á togaraútgerð í febr. — marz, oftast tap, oft stórfellt tap, en það hefir unnizt upp í apríl og maí. Ég er hræddur um, að þau fyrirtæki, sem hafa eigi fé til að leggja í fyrsta túrinn, þurfi á meira rekstrarláni að halda en sem nemur 60 kr. á hvert skippund. Það er hætt við, að fyrirtæki, sem ekki hafa neitt rekstrarfé, geti því ekki flotið með þessari hjálp.

Þar sem ég lít svo á, að heimild til þessarar ábyrgðar geti ekki komið að notum nema um leið sé séð fyrir auknu rekstrarfé, og þar sem ég tel, að fara eigi aðra leið til hjálpar atvinnuvegunum, og ennfremur af því þessi aðferð gefur hættulegt fordæmi, get ég ekki greitt atkv. með frv.