14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það væri mjög æskilegt, að svo gæti orðið, að ekki væri blandað öðru inn í þessar umr. en nauðsynlegt er fyrir afgreiðslu þessa máls. En auðvitað er slíkt á valdi hv. d.

Ég vil leyfa mér að þakka hv. 3. landsk. og hv. 4. landsk. fyrir undirtektir þeirra við frv., og vænti þess jafnframt, að sama samkomulag náist í þessari hv. d. um þetta mál sem í hv. Nd.

Ég get ekki komizt hjá því að gera nokkrar aths. við ræðu hv. 3. landsk. Vík ég þá fyrst að, þar sem hann sagðist hafa hnotið um aðra málsgr. grg. frv. Þeirri málsgr. var skotið inn í frv. samkv. ósk flokksbræðra hv. þm. í sjútvn. Nd. (JÞ: Ég trúi því vel). Það getur verið ástæða til þess að óttast, að ekki verði gætt nógu mikillar varkárni með þessar lánveitingar vegna ríkisábyrgðarinnar, en hinsvegar eru bankastjórarnir við Landsbankann svo vanir sínu starfi og svo mætir menn, að ég veit, að þeir munu fylgja hinum almennti reglum, jafnt um veitingu þessara lána sem annara. Ég vona því, að ótti hv. 3. landsk. þm. sé ástæðulaus.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í samtali við hv. 3. landsk., að ég tel sjálfsagt, að ríkisábyrgðin fylgi þessum lánum, þar til þau eru greidd að fullu, nema þá að samkomulag verði um, að ábyrgðin falli niður, vegna þess t. d. að aflinn verði svo mikils virði, að ábyrgðarinnar þurfi ekki lengur við.

Ég er sammála hv. 3. landsk. um það, að enginn getur verið hrifinn af því, að ríkið skuli þurfa að gera slíkar ráðstafanir sem þessar til þess að hjálpa einstaklingum og félögum af stað með útgerð sína. En hér eru sérstakar ástæður fyrir hendi, sem ég vona, að hv. 3. landsk., sem og aðrir hv. þdm., beygi sig fyrir.

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, vil ég segja það, að það er rétt, að um ábyrgðina er beðið vegna þeirra, sem þurfa á henni að halda. Hinir, sem hafa veð fyrir lánum sínum, þurfa auðvitað ekki á slíkri hjálp að halda.