27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

86. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Jónsson:

Mér skildist á hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. N.-Ísf., að kosningaathöfnin væri svo mikil vinna, svo mikið erfiði, að eigi veitti af tveim dögum til að inna hana af hendi. Þetta virðist mér fremur ósennilegt, en ef svo væri, þá kæmi í sama stað niður þó byrjað væri að kjósa á laugardag; kosningin myndi samt ganga út yfir sunnudaginn.

Hv. 2. þm. G.-K. virtist óttast, að ef kosið væri á sunnudegi, myndi það leiða eitthvað óguðlegt af sér, því að menn gengju með ókristilegar hugsanir á kjördegi. Mætti eftir þessum orðum ætla, að kjósendur væru að aðhafast eitthvað illt, þegar þeir ganga til kosninga. Þetta mætti ef til vill til sanns vegar færa um kjósendur hans og hans flokks, en hvað þeim flokki viðvíkur, sem ég heyri til, þá neita ég þessu algerlega. Ég held, að hv. þm. hafi hlotið að hafa sitt kjördæmi í huga, þegar hann mælti þessi orð. Honum er sannarlega bezt kunnugt um hin „vanhelgu“ verk, sem unnin eru á þessum degi, en við framsóknarmenn þekkjum ekki slíkt. Ég held því, að það mæli ekkert sérstaklega á móti því, að reynt sé í þetta eina sinn að kjósa á sunnudegi. Ef allir flokkar eru samtaka um að láta ekkert ljótt koma fram í sambandi við kosningarnar, þá ætti enginn skuggi að falla á helgi hvíldardagsins, þótt kosningar færu fram þann dag. Og ég vona, að hv. 2. þm. G.-K. finni engar slíkar tilhneigingar hjá sér, að honum þyki ógerningur að kjósa á sunnudegi fyrir þá sök.