09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vildi minnast á örfáar af brtt. á þskj. 454. Verða þá fyrst fyrir till. um byggingastyrki til tveggja manna. Þær kröfur virðast vera að færast í vöxt, að ríkissjóður eigi að byggja á ýmsum stöðum, þar sem gestkvæmt er. Að vísu er það rétt, að gestanauð er víða til sveita, og margir bændur gestrisnir, en þrátt fyrir það tel ég rétt að vara hv. d. við slíkum styrkjum, því að óvíst er, hvar staðar verður numið á þeirri braut, ef út á hana er farið.

Það hefir verið bent á, að ríkið hafi látið byggja í Fornahvammi og á Ásólfsstöðum og Kolviðarhóli. Um Fornahvamm er það að segja, að í fyrsta lagi er hann eign ríkisins, og auk þess er þessi bær í óbyggð, þar sem nauðsynlegt er að halda uppi byggð vegna umferðar yfir breiða og hættulega heiði á vetrum. Í lágsveitum getur aftur á móti sjaldan stafað hætta af því, hvort menn verða að fara einni bæjarleið lægra eða skemmra. Þótt þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, séu sjálfsagt alls góðs maklegir, þá tel ég þó ástæðu til að vara hv. d. við því að fara inn á þessa braut.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um XIX. brtt., þar sem farið er fram á að heimila Finni Jónssyni listmálara 10 þús. kr. lán úr ríkissjóði, til þess að byggja sér vinnustofu. Hér er verið að fara inn á hála braut, ef það er tilætlunin að fara að búta ríkissjóðinn niður í lánveitingar til einstakra manna. Slík lán voru áður veitt úr viðlagasjóði, en nú er hann ekki lengur undir yfirráðum stj. og þings, og þá á að grípa til ríkissjóðsins. Það má vel vera, að sá maður, sem hér er um að ræða, eigi allt gott skilið, en ég sé ekki, að komið geti til mála að samþ. slíka till.

Þá vildi ég beina nokkrum orðum til hv. 3. landsk. Hann er að vísu ekki í deildinni sem stendur, enda get ég verið stuttorður, þar sem ég heyrði ekki sjálfur ræðu hans. En mér var sagt, að hann hefði komið með aths. við frv. sjálft, einkum þá grein þess, er fjallar um vexti ríkissjóðs af lánum. Hann taldi, að í 7. gr. væru ekki taldar aðrar en eldri skuldir, sem þar hefðu staðið áður, en áleit, að þar við ætti að bætast stofnfjárframlag það, sem ríkissjóður leggur Landsbankanum eftir Landsbankalögunum. Það er að upphæð 3 millj. kr. Ríkissjóður ætti því að færa til útgjalda vexti af þessu fé. En þetta er fullkomlega ástæðulaust, því að í lögum Landsbankans er gert ráð fyrir, að bankinn greiði ríkissjóði 6% af þessu innlánsfé, en þó aldrei meira en helming af tekjuafgangi sínum. Nú er alls ekki ástæða til að gera ráð fyrir því í fjárl., að Landsbankinn greiði ekki þessa vexti. Rekstrarhagnaður bankans árið, sem leið, er svo mikill, að vextirnir verða fullkomlega greiddir. Það er í fullu samræmi við 24. gr. Landsbankalaganna, að þessir vextir eru ekki reiknaðir til útgjalda.

Þá fann hv. þm. að því, að vextir af láni, sem ríkissjóður tók til að byggja símstöð í Reykjavík, séu færðir í 13. gr., en eigi að standa í 7. gr. En þetta er gert að fyrirlagi fjárl. fyrir 1930. Í XXI. lið 23. gr. stendur svo um heimild stj. til lántöku í þessu skyni:

„Að taka lán til húsbyggingar handa landssímanum og til nýrrar bæjarsímamiðstöðvar í Reykjavík, enda teljist vextir og afborganir af láninu til árlegra rekstrargjalda símans“.

Eftir þessu eru vextirnir að sjálfsögðu færðir í 13. gr., þar sem rekstrarkostnaður símans er færður, enda hafa fjvn. beggja deilda fallizt á það. Þessar aðfinnslur komu fram í Nd. á eldhúsdegi, og skýrði ég þar málið og sýndi fram á, að þessar færslur væru í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli þingsins. Ég sé því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, einkum þar sem hv. 3. landsk. er ekki viðstaddur.