14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

238. mál, útvarp

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og stendur í nál. við frv. þetta, þá höfum við hv. þm. V.-Sk. flutt frv. eftir beiðni hæstv. atvmrh. og erum vitanlega samþykkir efni þess.

Þótt nokkuð sé skýrt frá tilgangi frv. í grg. þeirri, er fylgir, þá vil ég samt bæta nokkrum orðum við það frá eigin brjósti. Aðalefni frv. þessa er tvennskonar. Það heimilar einkasölu á útvarpstækjum, og það gerir nokkrar breyt. á stjórnarfyrirkomulagi útvarpsstöðvarinnar, eins og það var ráðgert í lögunum frá 1928.

Ég vil þá fyrst gera grein fyrir einkasölunni.

Það er kunnugt, að innan einnar iðngreinar er vart um fleiri tegundir tækja að ræða en einmitt þessarar. Þar úir og grúir bæði af góðum og ágætum tækjum, en þar er ekki síður um að ræða léleg eða óbrúkleg tæki. Ef útvarpstækin eiga að verða útbreidd og koma að tilætluðum notum, þá þurfa þau helzt að vera ódýr, en jafnframt góð. En til tryggingar því, að svo geti orðið, er aðallega um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að lög gilda þau ein tæki, sem af sérfræðingum eru talin góð. Hin leiðin er að hafa einkasölu og hafa ekki önnur en beztu tegundir tækja á boðstólum. Báðar þessar leiðir hafa sína kosti og líka sína galla. Sá galli, sem telja verður á einkasölunni, er einmitt sjálft einkasölufyrirkomulagið, sem ávallt á sína mótstöðu vísa, í hvaða mynd sem það birtist. En í mínum augum hefir þó sú leiðin svo mikla yfirburði, að ég tel engum vafa undirorpið, að hana beri að fara. Hún tryggir það algerlega, að landsfólkið, sem vitanlega enga sérþekkingu hefir til brunns að bera um þetta, liggi ekki flatt fyrir hverjum farandsala, sem vegna vanþekkingar fólksins reyndu að pranga inn á það lélegum tækjum. Hagkvæmara mundi og verða að hafa aðeins fáar tegundir á boðstólum. Talsverður vandi er að fara með tæki og þarf nokkra leikni til þess. Hægara væri því að kenna meðferð á fáum tegundum en mörgum. Sama er og um þá, sem gera við tækin. Um varahluti til viðgerðar á tækjum er sama að segja. Því færri tegundir, sem eru í notkun, því minna má komast af að liggja með af varahlutum. Þetta er þekkt frá ýmsu öðru, t. d. er svo um bílana. Og oft reynist erfitt að fá varahluti í sjaldgæfar tegundir, sem máske hafa oft fljótlega orðið úreltar. Þessu öllu er hægara að bjarga með einkasölu. Einfaldasta leiðin verður því eflaust sú, að veita ríkisstj. þessa einkasöluheimild til tryggingar því, að eingöngu verði seld góð tæki.

Ef ágóði verður af þessari einkasölu, þá má nota hann til þess að gera útvarpsstarfsemina betri.

Þá er hin aðalbreyt. Eins og nú er, þá er yfirstjórn útvarpsmálanna greind í tvennt. Fjárhagsleg og teknisk yfirstjórn er hjá landssímastjóra, en hverju varpa beri út, eða sú andlega yfirstjórn, er hjá útvarpsstjóra. Hætt er við, að óheppilegt reynist að skipta þessari starfsemi í tvennt. Hér er um nátengda og óaðskiljanlega starfsemi að ræða, sem naumast verður sundur slitin. Það er augljóst, að reksturinn á fjárhagshlið útvarpsins hlýtur að grípa inn í menningarstarfsemina — og öfugt. Ef því stjórn þessara mála er í höndum tveggja manna, þá má búast við árekstri, sem gert getur málinu ógagn.

Bezt mun reynast, að ákvörðun og ábyrgð sé hjá einum aðila. Þar sem ábyrgð er deilt á fleiri en einn, fer oft svo, að lítið verður úr ábyrgð, þegar fleiri eiga að deila henni milli sín. Hún eins og dettur niður milli þeirra. Um hina „teknisku“ hlið málsins er sama að segja. Landssímastjóri er ekki neitt sérstaklega kunnugur þeirri hlið málsins og verður því að fela það starf sérfróðum manni. Sá maður getur því vitanlega eins starfað undir stjórn útvarpsráðs eins og landssímastjóra.

Ég hefi þá gert grein fyrir aðalbreytingunum. En ein smábreyt. er enn ótalin, sú, að bætt sé tveim mönnum í ráðið, er tilnefndir séu af kennurum og prestum. En á þá breyt. legg ég enga áherzlu. Vil ég svo að endingu mæla hið bezta með frv.