03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Flm. (Hannes Jónsson):

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er borið fram eftir ósk hæstv. fjmrh. Eins og nú er komið fjárhag Íslandsbanka, er ekki sjáanlegt annað en að hann verði tekinn til gjaldþrotameðferðar innan skamms, ef ekkert er aðhafzt. Nú sjá allir menn, að sú meðferð á búi jafnstórfelldrar stofnunar og Íslandsbanki er mundi mjög óhagkvæm bankanum. Og því er það, að með þessu frv. er gert ráð fyrir sérstakri skiptanefnd; sem verði falin meðferð skiptanna. Get ég látið nægja að vísa til grg. frv. um þetta. atriði.

Ég sé það á frv. því á þskj. 67, sem er 2. mál á dagskrá í dag, að einhverjir hv. þdm. líta svo á, að hægt muni að starfrækja bankann áfram með tilstyrk ríkisins. En ég verð að segja, að þær upplýsingar, sem fengust um hag bankans við umr. í Sþ. síðastl. nótt, og það frá mönnum, sem eru honum mjög nákomnir og ættu því að þekkja hag hans út og inn, voru á engan hátt þannig lagaðar, að ég telji forsvaranlegt af þinginu að taka ákvörðun um stórfellda ábyrgð á fjárreiðum bankans.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði um, að ríkið taki ábyrgð á seðlum bankans, sem í umferð eru og nema 4 millj. króna. Ríkið hefir löggilt seðla þessa sem gjaldeyri, og er því óhjákvæmilegt, að það tryggi handhafa þeirra gegn tapi af fjárþrotum bankans. Að sjálfsögðu stendur óhögguð ábyrgð bankans sjálfs á seðlunum, og stendur gullforði bankans og aðrar eignir jafnt til tryggingar seðlunum gegnvart ríkissjóði sem handhöfum þeirra. Meginatriði frv. þessa eru aðallega tvö; hið fyrra er að koma fjárreiðum bankans svo fyrir, að ekki hljótist af stórtjón eða óþarfa töf, en hið síðasta er, að þegar í stað skuli teknar ákvarðanir um, að handhafar seðlanna hljóti ekki töp af þeim.

Ég býst ekki við, að ég þurfi að fara fleiri orðum um frv., en læt nægja að vísa til grg. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og n., sem sennilega ætli að vera fjhn.