19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Ég ætla að vera stuttorður út af því, sem hv. 3. landsk. sagði, að ég hefði ekki farið rétt með, að Íslandsbanki hefði tjáð ríkisstj., að hann gæti ekki opnað, nema ríkið tæki ábyrgð á öllum skuldum hans. Ég veit ekki til, að annað plagg hafi verið lagt hér fram frá Íslandsbanka en bréf bankastj. til fjmrh., dagsett 3. febr. En þar stendur m. a.:

„Af þeim ástæðum, sem að framan eru taldar, vill bankaráð Íslandsbanka fara þess á leit við ríkisstjórnina:

Aðallega: Að ríkisstjórnin leiti heimildar Alþingis til þess að takast vegna ríkissjóðs á hendur samskonar ábyrgð á skuldbindingum Íslandsbanka, sem ákveðin er Landsbankanum til handa í 1. gr. laga nr. 10, 15. apríl 1928, og til þess vegna ríkissjóðs að ábyrgjast fyrir bankann rekstrarlán, að upphæð allt að einni og hálfri millj. króna.

En til vara: Að ríkisstjórnin leiti heimildar Alþingis til þess að takast vegna ríkissjóðs á hendur ábyrgð á greiðslu innlánsfjár og annars innstæðufjár í hlaupandi viðskiptum við Íslandsbanka, eins og það er á hverjum tíma, og til þess vegna ríkissjóðs að ábyrgjast fyrir bankann rekstrarlán, að upphæð allt að einni og hálfri millj. króna“.

Og síðan stendur svo :

„Ef hinsvegar eigi er unnt að fá þá aðstoð handa bankanum, sem hér ræðir um, sér bankaráðið, því miður, engan veg til þess að komast hjá, að bankanum verði lokað frá og með deginum á morgun“.

Nú hafa farið hér fram umr. um þetta mál og hv. 3. landsk. hefir talað hér af hálfu bankaráðs og lýst yfir því, að hið eina, sem tryggt væri fyrir bankann, væri það, sem bankastj. fór fram á í bréfi sínu, og að hann þyrði ekki að segja, að það, sem farið var fram á til vara, væri nægilegt, og er það þó mikið fé. Þar var sem sé farið fram á ríkissjóðsábyrgð á greiðslu alls innstæðufjár í hlaupandi viðskiptum og leggja til mikið rekstrarté.

Ég get nú ekki betur séð en ef þetta hefði verið gert, hefði það þýtt það sama og ríkið tæki ábyrgð á öllum skuldum bankans. Hv. þm. sagði líka, að þetta myndi varla nægja. Þess vegna get ég ekki séð, að það sé mikið missagt hjá mér, að Íslandsbanki sæi sér ekki fært að opna, nema tekin væri ábyrgð á öllum skuldum hans.