05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Nefndin, sem kosin var í þetta mál við 1. umr. þess hér í d., hefir nú tekið þetta frv. til athugunar á ný, ásamt brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 216. Meiri hl. n. lítur svo á, að eftir atvikum megi teljast mjög vel leyst úr þessu mesta vandamáli þingsins, ef brtt. hæstv. fjmrh. verða samþ. í aðalatriðunum, því að þá má ef til vill svo fara, að þetta mikla ólán, sem henti þjóðina með hruni Íslandsbanka, verði einmitt til þess að flýta fyrir því, að komið verði upp sæmilegri lánsstofnun fyrir sjávarútveginn, hliðstæðri við þá, sem komið hefir verið upp fyrir landbúnaðinn. Vil ég þá segja, að þjóðin hefði lyft einu heljartaki, ef hún á sama kjörtímabili stofnar heilbrigða banka fyrir báða aðalatvinnuvegi landsins.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem meiri hl. n. hefir leyft sér að koma fram með á þskj. 225, við brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 216. Þessar brtt. meiri hl. n. eru flestar örsmáar. Á sama þskj. eru líka nokkrar fleiri brtt., en þær eru frá einstökum mönnum, sem munu gera grein fyrir þeim.

Þá er fyrsta brtt. meiri hl. n. á þskj. 225, hin 4. í röðinni, við 6. gr. Þar er lagt til, að aftan við gr. bætist, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnskjótt og fullnægt er skilyrðum þeim, er ræðir um í 12. gr., sbr. 14. gr., eða liðinn er sá tími, sem fjármálaráðherra hefir ákveðið samkvæmt 17. gr. til uppfyllingar þeim skilyrðum“.

Það er m. ö. o., að þarna er verið að ákveða það, að fyrsti fundur fulltrúaráðsins, sem fjmrh. boðar til og sem kallaður er aðalfundur í 6. gr., skuli ekki vera haldinn fyrr en gengið hefir verið úr skugga um það, hvort skilyrðum þeim, sem 12. gr. setur fyrir framlögum ríkisins til Íslandsbanka, verður fullnægt eða ekki, svoleiðis að hinir nýju hluthafar, sem verða þá í Íslandsbanka, komi til að mæta á þessum fyrsta aðalfundi Sjávarútvegsbanka Íslands og hafa þar óskertan atkvæðisrétt. Ég býst við, að þetta hafi átt að felast í till. hæstv. fjmrh., en n. þótti réttara að setja þetta til skýringar, svo að það orkaði ekki tvímælis, að strax á þessum fyrsta fundi ættu hinir nýju fulltrúar að hafa atkvæðisrétt.

Þá kemur næst örlítil breyt. við 8. gr., þar sem talað er um fyrsta hluthafafund félagsins. Er þessi brtt. aðeins borin fram til þess að samræma 8. gr. við 6. gr., þar sem fyrsti fundur er nefndur aðalfundur.

Næst kemur svo breyt. við 12. gr., í tveim stöðum. Á fyrri staðnum er aðeins orðabreyt., það er gert ráð fyrir, að orðin „aðalskuldheimtumönnum“ og „aðalskuldheimtumanna“ falli burt, en „aðallánardrottnum“ og aðallánardrottna“ komi í staðinn. Þetta er engin efnisbreyt., en hitt þótti aðeins betur fara. Svo er önnur brtt., við b-lið sömu gr., þar er gert ráð fyrir, að aftan við liðinn bætist: Af þessari upphæð 1¼ millj. kr. Þetta er gert til þess að tryggja það, að ríkissjóður komi þó eftir þessu til að eiga alltaf meiri hl. hlutafjár í þessum nýja banka.

Samkv. 2. gr. er gert ráð fyrir, að hlutafé Sjávarútvegsbankans geti verið 2½ millj. kr., af því eigi ríkissjóður 1½ millj., og samkv. 11. gr. 3 millj., eða samtals í þeim sameinaða banka 4½ millj. En samkv. 2. gr. og a-lið 12. gr. geta einstakir, innlendir hluthafar átt 2 millj., og samkv. b-lið brtt. geta útlendir lánardrottnar átt 1¼ millj., ef brtt. n. kemst að. Aðrir en ríkissjóður geta því í þeim sameinaða banka ekki átt meira hlutafé en 4¼ millj. alls. Það er því tryggt, að ríkissjóður hlýtur alltaf að hafa meiri hl. hlutafjárins, en það teljum við, að nauðsynlegt sé, til þess að ríkissjóður geti alltaf ráðið mestu um starfsemi bankans.

Svo eru lítið fleiri brtt. frá meiri hl. n. Það stendur við 8. brtt., að hún sé frá meiri hl. n., en ég er ekki í þeim meiri hl., lét það atriði hlutlaust í n. og tala þess vegna ekki fyrir henni.

Út af 16. gr. skal ég geta þess, að í brtt. hæstv. fjmrh. hefir sýnilega orðið prentvilla, þar sem stendur 13. gr., en á að vera 14. gr., sem sjálfsagt verður lagfært í prentun.

Svo er síðasta brtt. Hún er aðeins til að orða það svolítið skýrar, sem felst í síðustu málsgr. 16. gr. Vona ég, að mönnum verði það ljóst, að þar er gert ráð fyrir að fella niður orðin: „fer eftir þeim reglum, sem hingað til hafa gilt um endurkaup víxla í sambandi við seðlainndrátt Íslandsbanka“, en í stað þessa komi orðin: „Íslandsbanka fer eftir þeim reglum, sem hingað til hafa gilt“. Hugsuninni er ekki raskað með þessu, þetta er aðeins sett skýrara fram en annars væri.

Þá hefi ég ekki meira að segja fyrir hönd n., en ætla að bæta við nokkrum orðum frá eigin brjósti.

Ég hefi heyrt ýmsa menn halda því fram, að stj. og þingið ætti ámæli skilið fyrir það, hve seint hefði gengið að afgreiða þetta mál. En ég vil halda því fram, að þegar allir málavextir eru athugaðir, sé það augljóst, að þessar ásakanir eru óréttmætar. Tíminn mun leiða það í ljós, að stj. og þing hefir sýnt röggsemi í þessu máli og tekið það föstum tökum. Ég lít svo á, að það hefði verið alveg óforsvaranlegt gáleysi af þinginu, hefði það samþ. till. þær, sem komu í þessu máli frá stjórnarandstæðingum í Sþ. og Nd., því að með samþykkt þeirra hefði ríkið eiginlega tekið á sig fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, án þess að nokkur nýtileg rannsókn hefði farið fram á hag hans.

Með því að fella þessar till. var þrýst á þá, sem hagsmuna áttu að gæta í bankanum, að þeir legðu fram fé til stuðnings honum. Árangurinn er hið nýja hlutafé. Hinsvegar var skylda að gera sitt til, að fljótlega væri hægt að afgreiða lög til verndar bankanum, ef á þyrfti að halda, er þá segðu einnig fyrir um skipti á búi hans, ef til þess þyrfti að koma, eins og fyrst leit út fyrir.

Meðan þetta frv. var á leiðinni gegnum þingið, hefir stj. unnið kappsamlega að því að láta þetta mál fá sem bezta lausn. Þetta er stórmál og í fyrsta sinn, sem það kemur fyrir hér á landi, að banka sé lokað, svo að það er eðllegt, að heppileg lausn þess taki nokkurn tíma. Áhuga sinn hefir stj. fyrst og fremst sýnt með því að láta rannsaka bankann svo ítarlega sem kostur var á stuttum tíma, og með því að að lokinni rannsókninni og fenginni vitneskju um undirtektir lánardrottna bankans að undirbúa þessa merkilegu löggjöf, sem hér liggur fyrir. Auðvitað hafa fleiri unnið vel að þessu en stj. ein. T. d. er mér kunnugt, að hv. þm. V.-Ísf. hefir lagt sig alveg sérstaklega vel fram til að leysa þetta mál í samvinnu við hæstv. stj. Árangurinn af öllu þessu starfi tel ég mikinn, sérstaklega þar sem hér liggur fyrir vísir að heilbrigðum og myndarlegum banka fyrir annan aðalatvinnuveg landsins. Og ef það heppnast að koma bankanum upp, þá held ég, að lítið verði úr þessum ásökunum, sem ég gat um, þegar frá líður.