12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1931

Ingibjörg H. Bjarnason:

Til þess að ekki verði hlé á umr. ætla ég að segja nokkur orð um brtt., sem ég á á þskj 497. Það er VII. brtt. við 14. gr. B. II. b, styrkur til Jónu Guðbjartsdóttur, til framhaldsnáms í bókverzlunarfræði erlendis, 2.000 kr.

Umsókn þessi lá fyrir báðum fjvn. Alþingis og án þess að fá áheyrn þeirra. Þó hefir mér borizt til eyrna, að einstakir menn í báðum n. hafi talið mjög svo sanngjarnt að verða við þessari málaleitun.

Enginn hefir fyrr, svo að mér sé kunnugt, lagt fyrir sig að nema þessa fræðigrein. Mun hún þó hafa talsvert mikið bæði bókmenntalegt og menningarlegt gildi fyrir hverja þjóð, en ekki sízt fyrir oss Íslendinga. Það er því mikils virði, ef einhver verður því starfi vaxinn að taka að sér bókaverzlun á þeim grundvelli, sem hér er um að ræða og gert er ráð fyrir í umsóknarskjali ungfrú Jónu Guðbjartsdóttur. Ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp umsókn ungfrúarinnar, því að það mun skýra betur tilgang hennar með þessu námi.

„Ég undirrituð leyfi mér virðingarfyllst að sækja um það, að hið háa Alþingi veiti mér í næstu fjárlögum allt að tvö þúsund og fimm hundruð krónur til framhaldsnáms í bókverzlunarfræðum, einkum í Englandi og Frakklandi.

Ég skal geta þess, að ég hefi, eftir að hafa lokið prófi við verzlunarskóla Íslands, starfað í nokkur ár við eina stærstu bókaverzlun Reykjavíkur (Ísafoldarbökaverzlun), og síðan (1927–28) stundað nám við bóksalaskólann í Leipzig (Deutsche Buchhändler-Lehranstalt) og er eini Íslendingurinn, sem stundað hefir slíkt nám, Við skóla þennan tók ég m. a. þátt í fyrirlestrum og æfingum í þessum fræðigreinum, eins og meðfylgjandi prófskírteini sýnir: þýzkum bókmenntum, heimsbókmenntum, listasögu og músíksögu, bókverzlunarsögu, bókfræði, bókasafasfræði og bókhaldi. Auk þess stundaði ég við skólann nám í enskri tungu.

Kennarar mínir í Þýzkalandi hvöttu mig eindregið til að halda áfram námi mínu, einkum í París, og í prófskírteini mínu kemst skólastjórinn, próf. Frenzel m. a. svo að orði: „Ungfrú Jóna Guðbjartsdóttir hefir sífellt sótt fyrirlestra og æfingar af miklum áhuga og náð í hverju viðfangsefni góðum árangri, og í sumum þeirra sérlega góðum árangri“.

Ýmsir bókamenn hér heima og áhugamenn um þessi efni hafa hvatt mig til að halda því áfram að leggja stund á þessi efni erlendis, en fjárskortur hefir hamlað þessu, og því verð ég að beina umsókn þessari til hins háa Alþingis.

Íslendingar hafa löngum verið taldir miklir bókamenn, en hinsvegar hefir verið og er talsvert ábótavant þekkingu flestra á erlendum bókakosti og erlendri bókaverzlun og skilyrðum hennar, enda verður val og verðlag erlendra bóka oft að umkvörtunarefni.

Þegar þess er gætt, að Alþingi hefir oft látið ýms menningarmál til sín taka og veitt ýmsa námsstyrki, virðist ekki ósanngjarnt að mælast til þess, að lítill hluti af fé því, sem til slíks er ætlað, komi einu sinni til styrktar bókverzlunarnámi, í þeirri von, að árangur þess geti orðið nokkur styrkur íslenzkri bókmenntun og verzlun í senn.

Ég leyfi mér því að vona, að málaleitun þessari verði vel tekið, og mundi mér verða ánægja að því að gefa hinum heiðruðu fjárveitinganefndum allar nánari upplýsingar, er þær kynnu að æskja“.

Ungfrú Jóna Guðbjartsdóttir hefir komið á fund fjvn. þessarar hv. d. og talað þar máli sínu með þeim skilningi og hæversku, að öllum mun hafa þótt sem hún færi fram á sanngjarnan styrk. En það er í mörg horn að líta fyrir ríkissj., og þess vegna hafa fjvn. Alþingis ekki treyst sér að taka þetta erindi til greina. Ég hefi aftur á móti sýnt það áræði að bera það fram, þótt ég sé í fjvn., en fer fram á nokkuð lægri upphæð, 1.800 kr. Ég vil geta þess, að styrkur þessi er svo lækkaður, að hann verður ekki nándar nærri nógur farareyrir, þótt ekki væri nema í eitt ár; en það er þá hægra fyrir þá, sem vilja þessu máli vel, að hjálpa á einhvern hátt með það, sem á vantar.

Þessari umsókn ungfrú Jónu fylgja meðmæli tveggja manna hér í bæ, og auk þess ummæli kennara hennar í bóksalaskólanum, sem hún gekk í í Leipzig 1927–1928. Meðmælin eru frá þeim Sigríði Björnsdóttur bóksala og Þorsteini Gíslasyni bóksala og ritstjóra. Þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við leyfum okkur hér með að mæla sem bezt fram með umsókn ungfrú Jónu Guðbjartsdóttur til Alþingis um styrk til þess að fullkomna nám sitt í bókverzlunarfræði, og álítum, að vænta megi góðs árangurs af þeirri styrkveitingu“.

Ennfremur leyfi ég mér að lesa upp ummæli Sigurðar Nordals prófessors, þar sem hann kemst svo að orði:

„Mér er það ljúft að mæla með því, að ungfrú Jóna Guðbjartsdóttir fái styrk þann, er hún sækir um til Alþingis, í því skyni að afla sér framhaldsmenntunar í bóksölufræði. Ég þekki ungfrú Jónu að því, að hún er óvenjulega áhugasöm í starfi sínu og ber gott skynbragð á bækur. Ef Reykjavík gæti fengið bóksölubúð, þar sem jafnan væri á boðstólum gott úrval nýjustu erlendra bóka, væri höfuðstaðurinn einni merkilegri menntastofnun ríkari. En til þess að þetta megi verða, þarf fyrst og fremst starfsmenn með góðri sérþekkingu, en hennar er enginn kostur að afla sér hér á landi“.

Við þetta hefi ég skiljanlega litlu að bæta, nema mínum persónulega skilningi á nauðsyn þessa máls og hæfileikum styrkbeiðanda. Og ég get látið fylgja nokkur orð um reynslu mína í því að ná í erlendar bækur. Er oft örðugt að ná í tæka tíð í þær bækur, sem á hverjum tíma eru efst á dagskrá í nágrannalöndunum og þeim löndum öðrum, sem við sækjum okkar bókmenntaþekkingu til. Það er jafnvel örðugleikum bundið að fá þótt ekki sé nema erlendar skólabækur í bókaverzlunum hér. Ber tvennt til þess. Fjarlægðin milli landanna og svo hitt, að bóksalar hér hafa ekki umboðssölu á þessum bókum, hvorki námsbókum handa skólum, sem við verðum að notast við á erlendunn málum fram á þennan dag, né heldur ýmsum þeim búkum, sem hver einstaklingur kann að vilja nota og kynnast. Því að eins og gefur að skilja, er það ekki lítið fé, sem bóksalar yrðu að leggja í það að hafa sæmilegt úrval af erlendum bókum, hvort heldur almenns efnis, eins og skemmtibókum, eða ýmsum bókum fræðilegs efnis.

Að öllu þessu athuguðu má hiklaust staðhæfa, að þessi styrkveiting verði til að styðja hið þarfasta framfaraspor. Þessi kona mundi með sérþekkingu sinni og ötulleik vera mjög líkleg til að útvega hverskonar bækur bæði fljótt og vel, því að vísast mundi hún hafa bezta aðstöðu til að ná þeim beztu samböndum, sem hægt er að fá, og yrðu því ýmsar erlendar bækur ekki eins tilfinnanlega dýrar og nú á sér stað.

Það er vitanlegt, að Íslendingar eru manna bókhneigðastir, bæði lærðir og leikir, og er gott eitt um það að segja. En þá ríður á, að á hverjum tíma sé reynt að greiða þeim nýju straumum, sem hollastir eru í bókmenntum annara þjóða, farveg til okkar. En sú fræði, sem þarna kemur til hjálpar, er ekki fljótnumin. Þessi kona hefir að baki sér 10 ára starf við eina stærstu bókaverzlun hér og hefir oftlega á síðari missirum veitt henni forstöðu vegna fjarveru eða veikinda verzlunareigandans. Hefir hún, eins og áður er tekið fram, stundað nám við bókverzlunarfræðiskólann í Leipzig, og lokið þar prófi með góðum árangri. En að því námi loknu þarf tveggja ára verklegt nám í fullkomnustu bókaverzlunum til þess að fá atvinnu í þessari grein, og bendir það til þess, að starfið er talið þýðingarmikið og vandasamt. Meðan á þeim námstíma stendur, fá nemendur ekki nema svo lág laun, að naumast er fyrir skófatnaði.

1928 var ég stödd um tíma í Helsingfors á Finnlandi. Þar er bókaverzlun, sem af mörgum er talin ein hin fullkomnasta bókaverzlun hér í álfu. — Í London eru máske til stærri bókaverzlanir, en vart betur komið fyrir. — Prófessor Sigurður Nordal hefir einnig kynnzt þessari bókaverzlun í Helsingfors, og ég býst við, að fyrir honum hafi ef til vill vakað, þegar hann skrifaði meðmæli sín með styrkbeiðni þessari, hversu mikill vinningur það væri fyrir Reykjavík, sem er aðalmenntabær þessa lands, án þess neitt að draga úr gildi Akureyrar sem menntabæjar, að hér rísi upp bókaverzlun, sem álíka vel væri fyrir komið.

Ég er prófessornum alveg sammála um það, að það er mjög mikils virði, þegar maður þarf að fá erlenda bók, almenns eða sérfræðilegs efnis, að hægt sé að snúa sér til einhvers, sem jafnan hefir það bezta á boðstólum. En til þess að vera fær um þetta þýðingarmikla starf, þarf auðvitað talsverða bóklega þekkingu, auk þess tveggja ára verklega náms, er ég áður minntist á. Nú fer frk. Jóna aðeins fram á styrk til eins árs, og hefir hún í hyggju að nota hann til þess að kynnast praktiskri bókverzlunarfræði í Englandi og Frakklandi. Að því loknu býst hún við að setjast hér að, og annaðhvort vinna við bókaverzlun eða setja sjálf slíka verzlun á fót.

Ég býst nú við, að hv. þdm. beri svo mikið skyn á þessa hluti, að þeim sé það vel ljóst, hve geysilega miklu máli það skiptir, að fyrirkomulagið sé gott á bókaverzlunum og öll tilhögun sé á þann veg, sem bezt má verða. Á því sviði eru Frakkar og Englendingar fremstir allra þjóða, og er þeim sérstaklega sýnt um að gera bókabúðir vistlegar, aðlaðandi og þægilegar að öllum útbúnaði. Þeir flokka bækurnar eftir efni, til þæginda fyrir kaupendur og afgreiðslufólk. Þjóðverjar, sem í fæstum hlutum eru eftirbátar, annara þjóða, verða jafnvel að sækja til Frakka til lærdóms á þessum sviðum. Það er alkunnugt, að við erum mjög á eftir tímanum í þessum efnum, og má vart við svo búið standa öllu lengur.

Ég skal svo að lokum undirstrika það, að ef hér kæmi á fót bókaverzlun af nýtízku gerð, og byggð á sérfræðilegri þekking í bókverzlunarfræði, þá væri óefað stigið stórt spor í menningaráttina. Á þann hátt væri stórum bætt sambandið milli annara þjóða og okkar í bókmenntalegu tilliti, því að skemmri tími liði á milli þess, sem bækur kæmu á markaðinn hér; bækurnar yrðu ódýrari, því að þær yrðu í umboðssölu hér, og þyrfti verzlunin því minna rekstrarfé en ella. Nú er það öllum ljóst, hve mikla menningarlega þýðingu lestur góðra bóka hefir, sérstaklega fyrir æskulýðinn. Um það atriði þarf ekki orðum að eyða. Á sömu forsendum byggist það, að fullkomin bókaverzlun hlyti að hafa geysimikla menningarþýðingu fyrir land og lýð.

Í Lundúnum er alþekkt bókaverzlun, sem heitir Foylérs-bókabúð. Þangað geta allir sótt sér ábyggilegar og góðar bendingar í vali bóka, og viðskiptavinirnir skoða bókaverzlun þessa eins og sameiginlegan skóla, sem þeir geta leitað til án endurgjalds. Bókabúð þessi fullnægir öllum þeim ströngustu kröfum, sem nú eru gerðar til slíkra verzlana. Hún hefir á takteinum allar mögulegar bækur og ráðleggingar handa ungum og gömlum um þau efni. Menn fara þaðan gjarnan glaðari í bragði en þeir komu.

Í Þýzkalandi er til félag sem heitir Börzen, Verein der deutschen Buchhändler. Það er félagsskapur, sem bóksalafélög flestra landa eru í. Mér er ekki kunnugt um, hvort Bóksalafélag Íslands er í þessu félagi, en ég teldi það miður, ef svo væri ekki. Félagar í þessum félagsskap njóta ýmissa hlunninda, og fá betri aðstöðu til þess að fylgjast nákvæmlega með öllum nýjungum á sviði bókmennta- og bókaútgáfu. Félagið gefur út tímarit til leiðbeiningar um bókaval, svo að félagsmenn þurfa ekki í grafgötur að leita um þá hluti. Ennfremur geta meðlimir þessa félags fengið bækur í umboðssölu. Væri okkur Íslendingum tvímælalaus ávinningur að því, að bókaverzlanir okkar kæmust í þetta samband.

Frk. Jóna Guðbjartsdóttir ætlar að dvelja ytra eitt ár. Með því að hún er eignalaus með öllu, þá er ekki í annað hús að venda en til þingsins. Þeir litlu fjármunir, sem hún hafði unnið sér inn, fóru allir í nám hennar í Þýzkalandi, svo hún stendur nú með tvær hendur tómar. Auk þess hafði hún orðið fyrir því óhappi að verða veik skömmu eftir að hún kom hingað upp, og er nú rétt nýlega orðin vinnufær aftur. Ég vil mega vænta þess, að hv. Alþingi taki vel í þessa málaleitan, og sjái og skilji þá miklu menningarþýðingu, sem þessi litli styrkur getur haft í framtíðinni. Ég skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta að sinni. Ég á aðra brtt. en mun bíða að mæla fyrir henni þar til síðar.