07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ólafur Thors:

Ég er nú líklega búinn að halda einar 20 ræður í allt um þetta mál, og er því orðinn hálfþreyttur á að tala um það. Ég mun því ekki svara miklu að þessu sinni. Það yrði ekki til annars en að endurtaka eitthvað af því, sem ég hefi áður sagt.

Hv. 2. þm. Reykv. var að reyna að telja mönnum trú um, að það væri eitthvað allt annað í því frv., sem nú liggur fyrir, heldur en í því frv., sem við hv. 1. þm. Skagf. lögðum fyrir þessa hv. þd., og annað heldur en það, sem var í frv. hv. þm. V.-Ísf. En það er nú ekki annað en misheppnuð tilraun til að skjóta skildi fyrir hæstv. stj. Það er ekki nema eitt, sem frá upphafi hefir verið barizt um í þessu máli, og það er: eigum við að standa við skuldbindingar Íslandsbanka eða ekki? Frá byrjun hafa sjálfstæðismenn haldið fram, að það ætti að standa við þær, því með því einu móti væri bjargað lánstrausti landsins, og um leið eignum 10 þús. sparifjáreigenda. Og við tókum strax fram, að við værum tilbúnir að berjast með hverjum sem væri og hvaða heppileg leið, sem farin væri, til að ná þessu takmarki. Í frv., sem nú liggur fyrir, er einmitt þetta aðalatriði, að standa við skuldbindingar bankans; viðbótunum við aðalefni þess, eins og t. d. því, að bankinn á framvegis að heita Útvegsbanki, hefi ég ekkert á móti. Þær skipta ekki svo miklu máli. Það er alveg tilgangslaust fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera að skjóta skildi fyrir sína kæru stj. í þessu máli; hún hefir nú snúið frá villu síns vegar og inn á okkar sjálfstæðismanna sannleiksbraut, og veri hún velkomin.

Ég nenni ekki að vera að þrátta við hv. þm. um, hvort Eggert Claessen hafi komið sviksamlega fram gagnvart Hambrosbanka. Ég las skeytin upp, þau verða skjalfest í Alþt. og þau tala sínu máli.

Hv. þm. sagði, að bankastjórarnir hefðu átt að vita með viku fyrirvara, að bankinn mundi þurfa að loka. En ég get fullyrt, að viku áður en bankinn lokaði stóð hann ekkert verr heldur en hann oft hafði gert á síðustu tíu árum. Þó ekki sé hægt að sýna það með ótvíræðum tölum, hafa þyngstu áföll Íslandsbanka orðið af afleiðingum ófriðarins. Af sömu ástæðu hafa bankar annarsstaðar tapað, og hliðstæðu tapi varð Landsbankinn fyrir hér. En síðan 1920 hefir Íslandsbanki heldur verið að bæta hag sinn. Hvort banki er valtur eða ekki má alltaf deila um. Var t. d. Landsbankinn valtur í hitteðfyrra, þegar hann vantaði 6 millj. til að eiga fyrir skuldum? Reynslan sýndi, að hann hafi ekki verið sérstaklega valtur. Enda er það svo, ekki sízt hér á landi, að á fleiru veitur um traustan grundvöll banka en því, hvort hann skuldar fleiri eða færri millj., t. d. hvort valdhafarnir eru honum velviljaðir og hvort nokkur órói verður um hann meðal almennings. Ef órói skapast um banka, er hann valtur meðan á honum stendur, en hvort slíkur órói verður bankanum að falli, er aldrei hægt að fullyrða neitt um fyrirfram.

Hv. þm. heldur enn fram, að mat á hlutabréfum Íslandsbanka eftir okkar till. hefði ekki orðið þannig, að hann hefði getað sætt sig við það. En nú áttu hans flokkar að ráða 2 mönnum í n., sá þriðji átti að vera bankaeftirlitsmaðurinn, sem búinn var að lýsa því yfir, að bankinn eigi varla fyrir skuldum, þ. e. a. s., að hlutaféð sé tapað.

Er nú líklegt, að eftirlitsmaðurinn telji hlutabréfin meira virði eftir að búið er að loka bankanum? Býst hv. þm. við, að t. d. Stefán Jóhann mundi breyta sínu mati? — Nei.

Ég ætla þá að víkja að ræðu hv. þm. Ísaf. Hann sagði, að þar sem hann væri í fjvn., væri sér vel kunnugt um þá örðugleika, að láta tekjur ríkissjóðs hrökkva fyrir gjöldunum. Ég leyfi mér að leiða athygli þessa hv. fjármálaspekings að því, að á árinu 1929 urðu tekjur ríkissjóðs 5 millj. umfram áætlun, og skal mig því ekki kynja, þó að hv. þm. kikni undir því að bæta 360 þús. á gjaldamegin. En það er bara rugl, að um 360 þús. króna aukinn útgjaldabagga sé að ræða. Í fyrsta lagi er ekkert viðurkennt um það, hvað tap bankans er mikið. Ef tapið er ekkert, því má þá ekki ætla ríkissjóði fulla vexti af sínu framlagi? Ef tapið er 1½ millj., því á þá að afskrifa allt á fyrsta árinu? Ef fjárhagur ríkisins stendur höllum fæti, er ekkert hægara en að deila tapinu niður á mörg ár og láta arðinn ganga til þess að greiða ríkissjóði a. m. k. nokkurn arð af sínu fé. Hv. þm. hlýtur að sjá, að þetta er vel hægt.

Annars þarf ég að leita í blaði hv. þm. að ummælum hans. Ég hefi reynslu fyrir því, að betra er að eiga við það, sem skjalfest er eftir hann, en það, sem hann segir hér í þingsalnum. Hv. þm. sagði, að ég hefði brugðið mér í biðilsbuxurnar og biðlað til jafnaðarmanna um að vera mér nú hjálplegir til að fella stj. Þetta gerði ég ekki. Ég las aðeins upp ummæli hv. þm. Ísaf. úr hans eigin blaði, Alþýðublaðinu, og spurði hv. þm., hvort hann ætlaði að standa við þau. Þau voru skrifuð, þegar þeir þremenningarnir báru fram frv. sitt, sem í aðalatriðunum var eins og frv. stj. Nú er stj. farin að berjast fyrir því sama, sem hún mátti þá ekki heyra nefnt. Þá sagði hv. þm.: „Hvað gerir Framsókn? Klofnar hún í þessu máli? Málinu, sem ráðherrarnir hafa kallað stærsta mál þingsins? Eða lætur meiri hluti flokksins undan minni hlutanum? Og ef svo er ekki, hvað gera þá þessir „Framsóknar“menn? Greiða þeir atkvæði með vantraustsyfirlýsingu á „Framsóknar“stjórnina; ef íhaldsmenn bera slíka tillögu fram?“

Í tilefni af þessum orðum hv. þm. spurði ég hann, hvað jafnaðarmenn ætluðu nú að gera? Nú eru þeir komnir í sömu aðstöðu gagnvart stj. og þremenningarnir um daginn. Ætla þeir að fella stj.? Ætla þeir að segja: „Stjórnin hefir svikið okkur í máli málanna og við þolum henni það ekki“, eða ætla þeir að sitja áfram við jötuna? Það væri að vísu mannlegt, en ekki mikilmannlegt. Ég skal játa, að þetta var fremur einfeldnislega spurt, því að þeir hafa aldrei komið fram sem mikilmenni hér á Alþingi, hv. þm. og samherjar hans.

„Vér brosum“, eins og þar stendur, þegar hv. þm. fór að lýsa yfir því, að sócíalistar væru hlutlausir gagnvart ríkisstj. Hann sagði: „Það erum ekki við, sem styðjum stjórnina, heldur fyrrverandi valdhafar í landinu“. Guð hjálpi mér! Nú þykir mér skörin færast upp í bekkinn! Hv. þm. segir sem sé, að hæstv. dómsmrh. lifi á syndum annara. Ég verð að segja, að ef hægt er að lifa á syndum, þá tel ég hæstv. ráðh., og einkum hæstv. dómsmrh., vera ríkustu mennina á landinu, og ég neita því, að taka þá á fátækraframfæri hjá Sjálfstæðisflokknum. — Nei, jafnaðarmenn eru ekki hlutlausir í neinum skilningi. Þeir hafa fengið sinn fulla hlut.