12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 4. landsk. hóf mál sitt með því að þakka hv. 3. landsk. fyrir það, að hann hóf ekki eldhúsdagsumr. hér í dag. En svo hljóp mælskan svo með hann í gönur, að hann er nú búinn að tala nær hálfa klukkustund. Skal ég reyna að bæta úr skák með því að vera stuttorður.

Hv. dm. hafa ekki mikið lagt til þeirra mála, sem hv. fjvn. hefir látið sig skipta. Þó var hv. þm. A.-Húnv. að tala um, að ég hefði í fyrstu ræðu minni bent á það, að tekjur ríkissjóðs væru stöðugt að aukast. Vildi hann draga þá ályktun af orðum mínum, að ég væri að hvetja til að hækka útgjöldin. Ég nefndi meðaltal nokkurra tekjuliða síðastliðin þrjú ár, og benti ekki sérstaklega á, að þeir færu hækkandi, þó þeir hafi gert það. Hinsvegar varð ég að nefna heildarútkomu þessara ára eins og hún var. Árið 1927 var frekar rýrt tekjuár, árið 1928 var aftur á móti hagstætt, og árið 1929 var afbragðs tekjuár.

Þó er það ágizkun n., að tekjurnar muni vera varlega áætlaðar. Hitt óttast hún fremur, að útgjöldin muni fara fram úr áætlun og meðalgjöldum síðari ára.

Sami hv. þm. var að tala um það, að það væri lítils virði sú ráðstöfun fjvn. að hækka tekjuáætlunina, til þess að jafna tekjuhallann. Það er auðvitað alveg rétt, að það breytir engu um hina raunverulegu útkomu. Og eins og ég gat um, þá liggur n. sem heild það í léttu rúmi, hvort þetta er gert eða eigi. En ég hygg það rétt athugað hjá hæstv. fjmrh., að með því að jafna tekjuhallann gefi n. það í skyn, að hún ætli ekki útgjöldunum að hækka svo nokkru nemi, frá því sem þegar er orðið.

Þá skal ég örlítið minnast á örfáar af þeim mörgu brtt. einstakra þm., sem hér liggja fyrir.

Lýsi ég því þá fyrst yfir fyrir hönd n., að hún hefir enga ákveðna afstöðu tekið til hinna mörgu persónulegu styrkveitinga, sem hér er farið fram á.

Við aðra umr. gerði n. tilraun til þess af veikum burðum að ryðja úr vegi nokkru af persónulegum styrkjum. Það misheppnaðist að nokkru leyti, því sumar till. n. í þá átt voru felldar, þó aðrar næðu fram að ganga. N. mun því leiða hjá sér að gefa nokkrar bendingar um persónustyrki nú, þar sem það er líka mjög erfitt að gera upp á milli einstakra till. með nokkrum rökum. Geri ég þó ráð fyrir, að hún vilji enn sem fyrr, að sem minnst komist af þessum styrkjum inn í fjárl.

Á þskj. 497, II er farið fram á að bæta nýjum lið inn í 12. gr., styrk til að koma upp nuddlækningastofu á Akureyri. Þessa brtt. leggur n. til að fella; meðal annars vegna þess, að eftir till. hennar var felldur niður samskonar styrkur við 2. umr. (EF: Var n. öll með því?). Nei, auðvitað var hv. flm. till. ekki samþykkur að fella hana, en meiri hl. n. leggur það til. Ég er ekki viss um, að ég muni alstaðar, hvort nm. standa allir að baki þeim ákvörðunum, sem n. hefir tekið, og þegar ég nefni n. á ég því við meiri hl. hennar.

Þá hefir n., eða meiri hl. hennar, lagt til, að IX. brtt. á sama þskj., um að veita 30 þús. kr. til að byggja lesstofu og eldhús handa skólanum á Akureyri, væri felld. Sömuleiðis leggur meiri hl. n. til, að XV. brtt. á sama þskj., um að veita 35 þús. til að byggja yfir bókasafn Norðurlands, verði felld. Vitanlega er ekki hv. flm. þessarar till. í þeim meiri hl. Eins og hæstv. fjmrh. benti á, munu þessar byggingar lítið vera undirbúnar, en hér er hinsvegar um að ræða talsverðar upphæðir, samtals 65 þús. kr.

Þá leggur meiri hl. n. til, að felldur verði seinni hl. brtt. hv. 3. landsk., XXIII. á þskj. 497, um 75 þús. kr. framlag til taugakerfa í raforkuveitum til almenningsþarfa. N. lítur svo á, að ekki sé rétt að ákveða um framlag í þessu augnamiði, fyrr en rannsóknir þær, sem yfir standa, hafa verið gerðar og einskonar heildarlög sett. Aftur á móti vill meiri hl. leggja til, að fyrri liður þessarar brtt. verði samþ. og vill fallast á rök hv. 3. landsk. í því efni. Liðurinn hljóðar svo:

„Orðin: „Gegn fimmtungsframlagi frá hlutaðeigandi héruðum“ falli burt“. Þarna ætti að vera um heildarrannsókn að ræða fyrir allt landið, og væri því eðlilegt, að slíkt skilyrði sem þetta gæti á einhvern hátt hindrað, að sú rannsókn yrði eins og hún á að vera.

Meiri hl. er sammála um að fella XXX. brtt. á þskj. 497, um að endurgreiða Jónasi Lárussyni kostnað við sýningu ísl. matvæla í Khöfn 1926. Bæði er það, að þessi beiðni er mjög seint fram komin og varasamt að ganga inn á þá braut, þó að einhver taki upp hjá sjálfum sér að vinna þetta eða hitt, að taka löngu á eftir til greina kröfur um endurgjald. Ég vil taka það fram, að þessi aðstaða n. mótast alls ekki af því, að hún álíti ekki, að Jónas Lárusson hafi þarna unnið gott verk,

N. taldi rétt að láta þær brtt., sem bornar eru fram af hæstv. ráðh., afskiptalausar, enda hafði hvorugur ráðh. talað fyrir þeim, þegar n. kom saman. Sama er að segja um XXXV. brtt. frá hv. þm. Ak. Þar er um að ræða mikla ábyrgðarheimild, en n. tók enga afstöðu til málsins. En ég get sagt það sem mína persónulegu skoðun, að af því, sem á undan er gengið, fannst mér hart að neita um þessa ábyrgð, úr því að samskonar ábyrgð hefir verið veitt á Ísafirði og Eskifirði.

1. till. á þskj. 511, frá dómsmrh., var ekki komin fram, þegar n. kom saman. En ég hugsa, að n. láti hana afskiptalausa, fyrst hún tók ekki neina ákvörðun í þessu efni, þegar rætt var um Flugfélagið í n. Allir nm viðurkenndu að hér væri um að ræða framtíðarmál, og að barizt hefði verið fyrir því með sérstökum dugnaði, en sumir nm. að minnsta kosti litu svo á, að það, sem nú er farið fram á, væri tæplega tímabært og mætti því verja þessari sömu upphæð á annan hátt til meira gagns fyrir land og lýð.

Ég þykist nú vera búinn að taka fram allt sem þarf fyrir hönd n. og læt hér staðar numið.