14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

142. mál, slysatryggingar

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefir leyft sér að bera fram á þskj. 250.

Í frv. er farið fram á, að verkamenn, sem fyrir slysum verða við vinnu sína, fái bætur strax eftir viku, en n. hefir orðið ásátt um að leggja til, að bæturnar skuli miða við 10 daga, í stað þess, sem í núgildandi l. er biðtíminn í iðntryggingunni, unz dagpeningar fást, mánuður. Samkv. sjólögunum eru útgerðarmenn skyldugir til þess að greiða sjómönnum hjúkrunarkostnað allan fjórar fyrstu vikurnar, og er sjómannatryggingin því að þessu leyti á undan iðntryggingunni. Þó þótti n. rétt að miða þetta við 10 daga, vegna þess hve erfitt er að dæma um þetta, ef um lítil slys er að ræða.

Í öðru lagi varð það að samkomulagi í n. að flytja brtt. við frv., samkv. frumkvæði forstjóra slysatryggingarinnar, þess efnis, að því aðeins skuli halda réttarpróf út af slysförum, ef ástæða sé til að ætla, að slysin hafi orðið af illum útbúnaði eða hirðuleysi. Það hefir sýnt sig víða úti um landið, að erfitt er að koma þessum réttarprófum við, þar sem fámennt er og langt til yfirvalda, og virðist því rétt að fela slysatryggingunni að kveða á um í hverju tilfelli, hvort þau skuli halda, enda var sá tilgangurinn með þessu ákvæði, þegar það var sett, að réttarprófin myndu leiða í ljós, að hve miklu leyti slysin væru útbúnaði að kenna, svo að þannig gæfist kostur á að girða fyrir þau.

Ég get að lokum getið þess, að það er álit stjórnar slysatryggingarinnar, að ekki muni þurfa að hækka iðgjöldin vegna þessarar breytingar.