04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

64. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Ræða hv. frsm. meiri hl. gefur mér ekki tileini til neinna andsvara. Hafi ég móðgað hann með því að setja stuðning hans við þetta mál í samband við það; að jafnaðarmenn standi að því, stafar það af þeirri reynslu, sem ég hefi fengið af samvinnu við þennan hv. þm. í sjútvn., því að honum hefir verið gjarnara að styðja þar málstað jafnaðarmanna en hollt mætti þykja fyrir kjörfylgi hans sem framsóknarmanns, ef bændur yrðu alls vísari um þetta framferði. Annars hygg ég, að hv. frsm. meiri hl. hafi ekki gert sér ljóst, hvað í þessu máli felst.

Hv. þm. Ísaf. ber ekki mikið skyn á það mál, sem hér er um að ræða, og er auðfundið, að sá maður, sem hann hefir við hlið sér, er miður góð heimild en hann vill vera láta.

Hv., þm. þótti mér vansæmd að því að vilja ekki stuðla að því, að viðskiptamenn síldarbræðslustöðvanna vissu, hve mikið þeir láta af hendi af síld. Mér er nú spurn: Ef viðskiptamenn síldarbræðslustöðvanna vita ekki, hve mikið þeir láta af höndum, þegar síldin er mæld, hvernig mega þeir þá öðlast vissu í þessum efnum, þó að farið verði að vega síldina? Ég fæ ekki betur séð en að jafnauðvelt sé að falsa vog sem mæli, ef út í það fer. Þetta er því ekkert annað en meinloka, sem hv. þm. Ísaf. hefir drukkið í sig frá ráðunaut sínum í þessu máli, hv. þm. Ak., sem hefir barizt fyrir þessu máli í mörg þing. Virðist nú loks sem takast ætli að koma málinu gegnum þingið, enda er það engin furða, þar sem jafnaðarmenn standa að því, því að þeir mega nú heita hinir sönnu ráðamenn þingsins.

Þó að hér sé í raun og veru um smámál að ræða, veldur það talsverðum óþægindum, ef að l. verður. Geri ég ráð fyrir, að ýmsir muni heldur kjósa að greiða sekt en að taka upp þessar vogir.

Ég gæti eftir atvikum sætt mig við það, að 50. hvert mál bræðslusíldar væri vegið, og mundi fylgja frv., ef hv. þm. Ísaf. kæmi fram með brtt. í þá átt. Ef hv. þm. hugsar sér, að höfð verði ein vog, sem öll síld gengi um, er ég hræddur um, að umferðin um þá vog yrði óeðlilega mikil!! Á öllum hinum stærri bræðslustöðvum mundi þurfa að hafa vog á hverri bryggju, og mundi slíkt baka útgerðinni mikinn kostnað og valda ýmsum óþægindum, auk þess sem slíkum vogum verður blátt áfram ekki komið fyrir á sumum eldri stöðvanna.

Hv. þm. Ísaf. játaði, að kostnaður mundi fylgja þessari nýbreytni. Mér þykir því vænna um þá játningu, sem það er sjaldgæfara, að þessi þm. viðurkenni sannleikann, þótt hann komi auga á hann. En þm. var svo sem ekki lengi að slá varnaglann. „Verksmiðjurnar greiða þennan kostnað“, sagði þm. Ég nenni nú ekki að þrátta við þennan speking um stafróf viðskiptalífsins. Hann verður að útvega sér barnafræðslu hjá öðrum. Ég bendi honum aðeins á þá staðreynd, að hann getur með sama rétti sagt: „Hækkið þið bara tolla á kaffi, sykri og nauðsynjum, því kaupmaðurinn borgar“.