04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

64. mál, vigt á síld

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þykir mjög varhugavert að lögbjóða vigt á allri síld, sem seld er í bræðslu. Á hinum minni stöðvum, sem taka síld til bræðslu, hagar víðast svo til, að slíkt mundi tefja fyrir uppskipuninni, því að síldin er misþung, eftir því hvort hún er ný eða legin, söltuð eða ósöltuð. Og ég get sagt það fyrir mína parta, að ég er ánægður með að selja síldina eftir máli. Hefir mér reynzt, sem það gæfi ekki lægra verð, heldur þvert á móti betra, þau tvö sumur, sem ég hefi haft með slíkt að gera.

Í frv. er gert ráð fyrir, að mælikerin taki 135 kg. Skiptir slíkt ekki máli í sjálfu sér, við hvað er miðað, en venjan hefir verið sú, að miða við 100 kg., þegar selt hefir verið eftir vigt. Annars kynni ég betur við, að ekkert væri , ákveðið um það, hversu stór mælikerin skuli vera, úr því að ekki á að mæla síldina, heldur vega hana.

Það er staðreynd, sem ekki er hægt að loka augunum fyrir, að það veldur meiri töfum við uppskipun að vega síldina en mæla, og mun sumstaðar þurfa fleiri en eina vog til þess að ekki standi á. Ríður mikið á því, að hin stærri skip fái fljóta afgreiðslu, því að það getur oft oltið á einni klukkustund, hvort skipin ná í 500–600 mál af síld eða ekki. Eins og nú er, eru mælikerin jafnaðarlega eftirlitin af seljanda jafnt sem kaupanda, en verði horfið að því að lögbjóða vigt á síld, hygg ég, að nægja mætti að vega 10.–20. hvert mál. Annars finnst mér öll sanngirni mæla með því, að seljanda og kaupanda sé í sjálfsvald sett, hvort þeir kjósi heldur að nota vog eða mæli. og mun ég því koma með brtt. í þá átt við 3. umr. Þess verður að gæta, að hér er um mikinn kostnað að ræða fyrir síldarbræðslustöðvarnar, því að þessar vogir kosta um 14 þús. kr. með öllum útbúnaði. (ÓTh: Þetta hefði þá 70–80 þús. kr. útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkið vegna ríkisbræðslunnar á Siglufirði. — EF: Það er lygi hjá hv. 2. þm. G.-K.).