27.02.1930
Efri deild: 36. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

158. mál, skráning skipa

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið, eru þær, að síðan fiskiflotinn jókst svo mjög, sem raun er á, hefir það viljað brenna við, að skráning skipa væri í megnasta ólagi. Það hefir oftar en einu sinni komið fyrir, að skip, sem strandað höfðu eða horfið úr sögunni á einhvern annan hátt, hafa staðið á skipaskrám árum saman eftir að þau voru ekki lengur til, og líka hitt, að skip, sem lögum samkv. átti að skrásetja, hafa ekki verið skrásett á réttum tíma.

Samkv. l. frá síðasta þingi var skipaður skipaskoðunarstjóri, tíi þess að hafa eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra. Þessi maður ferðaðist kringum landið síðastl. sumar í erindum síns embættis, og gafst þá kostur á að kynna sér þetta mál. Komst hann að raun um, að ýmsu var ábótavant um skráning skipa víðsvegar úti um land. Hefir hann síðan samið þetta frv. til þess að ráða bót á þeim göllum, sem hann varð var við. Snéri hann sér til mín og hv. þm. Ak. um að flytja frv., og urðum við fúslega við þeirri ósk, með því að okkur var hvorumtveggja kunnugt um, að full þörf var á að hreyfa þessu máli og reyna að koma fram endurbótum á því fyrirkomulagi, sem nú er á skráning skipa.

Þó að þetta frv. sé fyrirferðarmikið, eru þær breyt., sem það gerir á núgildandi löggjöf um þetta efni; ekki eins miklar og búast mætti við.

Aðalbreyt., sem frv. fer fram á, að gerð verði, er sú, að færa eftirlitið með skráning skipa yfir á skrifstofu skipaskoðunarstjóra. Eins og stendur er yfireftirlitið með þessu í stjórnarráðinu, og af því leiðir, að því er í ýmsu ábótavant, þar sem hér er um hjáverk að ræða. Þar sem nú er búið að stofna sérstaka skrifstofu til eftirlits með skipum og bátum og öryggi þeirra, virðist ekki nema eðlilegt í alla staði, að eftirlitið með skráning skipa verði einnig lagt undir þá skrifstofu, enda er svo gert í nálægum löndum.

Eftir því, sem ég hefi átt kost á að kynna mér kostnaðarhlið þessa máls, virðist mér sem hér verði ekki um mikil aukin útgjöld að ræða, en hinsvegar verður eftirlitið með skráning skipa miklum mun öruggara, ef þessi breyt. kemst á.

Þetta er höfuðbreytingin, sem frv. ger- ir á núgildandi l. um þetta efni. Auk þess er um nokkrar smærri breyt. að ræða, sem alstaðar standa í sambandi við höfuðbreytinguna, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær sérstaklega.

Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði að sjálfsögðu vísað til n., og þó að það eftir efni sínu ætti heima í sjútvn., vil ég samt leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til allshn. Ég lít svo á, að það sé einkum hin lögfræðileg á hlið málsins, sem þurfi að athugast í n., og þar sem hinn eini lögfræðingur, sem sæti á í þessari deild, er í allshn., en ekki í sjútvn., þar sem við aftur á móti flm. frv. eigum báðir sæti, leyfi ég mér að vænta þess, að hv. deild fallist á að vísa málinu til allshn.