12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

34. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég heyrði að vísu ekki byrjunina á ræðu hv. þm. Barð., en ég hygg, að hann hafi látið í ljós skoðun á því, hvað ég kynni að segja eða hugsa um þetta mál. Ég var nú ekkert búinn um það að segja hér í deildinni, en máske að hugsa um það, en vegna þess að þetta var allt sagt í velviljuðum tón, eins og hans var von og vísa, þá er ég ekkert að setja út á það. (HK: Og það var heldur ekki hægt!).

Ég álít, að rétt sé að samþ. þetta frv., e. t. v. með þeirri breyt., sem mér skilst, að einn þm. úr sjútvn. muni flytja við 3. umr., að stj. sé heimilað þetta, en ekki skipað. Ég álít það rétt, því að í sjálfu sér verður að líta á þetta mál þannig, að þingið vilji reyna að koma upp þremur skipum, en hinsvegar er ýmislegt, sem þarf að athuga í sambandi við þetta. Ef þetta væntanlega skip á, eins og sumir hafa tekið fram, að fullnægja þrennskonar mismunandi tilgangi, vera björgunarskip, eftirlitsskip og til hafrannsókna, þá er ekki víst, a. m. k. ef ætti að byggja slíkt skip, að hægt væri að hrapa að því, þar sem þarf að taka tillit til margra hluta.

Ég skal játa, að mér finnst ekki vera nema tvö atriði, sem skipta máli. Annarsvegar er fjárhagshliðin, þ. e. a. s. rekstrarhliðin. Það er stórt atriði fyrir ríkissjóðinn að bæta við sig hátt á annað hundrað þúsund kr. útgjöldum á ári. Þó að það kosti töluvert að halda Hermóði út við Vestmannaeyjar, þá mundi hitt skipið, sem yrði rekið allt árið, verða mjög miklu dýrara.

Nú eru ýmsir, svo sem einn sjútvnm. í Ed., sem benda réttilega á, að ef skipin yrðu þrjú, eins og nauðsynlegt væri fyrir sjávarútveginn, þá öfluðu þau minna, því að eftir því sem gæzlan batnar, þá minnka sektirnar. T. d. tók Óðinn í fyrra 30 togara, en á jafnlöngum tíma nú ekki nema 10. Og þegar það er sama skip með sama útbúnaði og sömu mönnum, sýnir þetta, hvað strandgæzlan hefir batnað og hlýtur enn að batna, einkum ef þriðja skipið bætist við. Það var hv. þm. Ak., sem hélt því fram í Ed., að sjávarútvegurinn yrði að þola einhverja aukna skatta, ef þess þyrfti með, til þess að standast tekjuhallann af varðskipunum.

Ég get tekið undir með hv. þm. Vestm., að ég er honum og hv. þm. Barð. í sjálfu sér samdóma um, að þetta þurfi að gerast. Það er aðeins spurning um tímann og nokkuð um fyrirkomulag. Ef ráðizt verður í að byggja skip, þarf meiri undirbúning, því að þá eru gerðar meiri kröfur til að skipið fullnægi til lengdar hinum margvíslegu verkefnum. Þess vegna mæli ég með því, að þetta frv. sé samþ. með þeirri breyt., sem kemur fram í þessa átt við 3. umr.

En hv. þm. Vestm. verður að taka það með í reikninginn, að í raun og veru er ekki sanngjarnt að bæta t. d. 150 þús. kr. rekstrarhalla á fjárl. án þess einhverjar nýjar tekjur komi á móti. En ég er viss um, að það sama Alþingi, sem vill hrinda þessu áfram, mundi þá líka reyna að auka tekjurnar.

Ég held, að þetta ættu að vera nóg svör af minni hálfu til þessara tveggja hv. þm. Ef á að byggja skipið, þarf meiri undirbúning en ef það verður keypt. Og hinsvegar skoða ég stuðningsmenn þessa frv. siðferðislega skuldbundna til að samþ. skatt á sjávarútveginn, ef stj. ræðst í að gera eitthvað í þessu máli fyrir næsta þing.

Fari svo, að stj. láti byggja eða kaupa þriðja skipið, og þingið neiti síðan auknum sköttum á sjávarútveginn til að standast rekstrarhallann, þá getur svo farið, að stj. sjái ekki annað fært en selja skipið aftur. Þetta er sagt til viðvörunar í tæka tíð. En vonandi sjá útvegsmenn, að atvinnuvegur þeirra verður að standa undir gæzlunni.