03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv. hafa báðir viljað styðja till. á þskj. 402 með því að benda á, að stærri skip mundu verða útilokuð frá lánum, ef till. næði ekki samþ. En þetta er alls ekki rétt, því að 4. gr. frv. tekur beinlínis fram, að fé megi verja til lána fyrir stærri skip, þegar það sé fyrir hendi. (PO: En hin eiga að ganga fyrir!). Fyrir þeim, sem að þessu frv. standa, hefir það ætíð vakað, að meðan sjóður; inn má sín lítils, ætti hann fyrst og fremst að styðja smábátaútveginn, sem alltaf hefir í raun og veru farið varhluta af slíkum stuðningi. Það er sem sé kunnugt, að útgerð á stærri skipum hefir miklu fremur getað fengið fé í bönkum, og með flutningi þessa frv. hefir fyrst og fremst vakað fyrir oss að bæta úr þörf smábátanna. Því aðalmarki mundum vér geta náð með afgreiðslu málsins, sem nú virðist vera nærri. En mér er alls ekki grunlaust um, að samþykkt annara till. leiði til þess í reyndinni, að smábátarnir verði að hornrekum, eins og þeir hafa verið undanfarið. Fyrir þessa skuld get ég ekki fallizt á þessa till. hv. þm. Borgf. Ég veit líka, að víða í verstöðvum landsins er verið að stækka þessa farkosti. En þorri þeirra er þó langt neðan við þetta mark, 35 smál. Og eftir því, sem ég hefi skyggnzt til, er það á tiltölulega fáum stöðum, að áherzla er lögð á að stækka þá fram úr 30 eða 35 smálesta takmarkinu. Það er þá einna helzt hér við Faxaflóa. Víðast hvar annarsstaðar er það hrein undantekning, að bátar séu svo stórir. Þetta fer eftir því, hver háttur er um útgerð á hverjum stað. Þar sem eru dagróðrar, eru bátarnir minni, en þar sem sjór er stundaður með útileguskipum, er auðvitað meiri áherzla lögð á skip með 50 rúmlesta stærð eða þar í kring.

Ég get sem sagt ekki fallizt á skýringar þær, sem tveir hv. dm. hafa gefið á skoðun sinni um þetta, og mun því hvorki fylgja seinni till. né a-lið fyrri till.

Hinsvegar er ég hv. þm. Borgf. þakklátur fyrir að hafa komið fram með þennan viðauka við 3. gr., því að eins og tekið var fram af hv. 4. þm. Reykv., var það samkomulagsatriði eftir talsverð átök í n., hvort lagðar skyldu nokkrar kvaðir á ríkissjóð um kaup á vaxtabréfum eða ekki.