20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

133. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Jóhann Jósefsson:

Ég skal vera fáorður um þetta nýja skattafrv. Ég hafði þá umsögn um þessa nýju hækkun á útflutningsgjaldinu, að hún mundi nema 100 þús. kr., úr greinargerð frv. þess, sem hv. 1. þm. S.-M. er flutningsmaður að. En ég varaði mig ekki á því, að hv. þm. hefir sjálfur ekki lesið grg. fyrir frv.

Hv. flm. sagði, að þetta frv. væri óaðgreinanlegt frá frv. um Fiskveiðasjóðinn. Það getur verið, að segja megi þetta um það sem frv., en ég vona, að ummælin þýði ekki það, að hv. flm. álíti ekki neina bót að því að koma á fót lánstofnun fyrir sjávarútveginn, utan með þessum nýja skatti á þann atvinnuveg. Satt er það, að þessi leið er ofureinföld. Og einfeldnin liggur þá í því, að féð er tekið með gjaldkvöð af þeim atvinnuvegi, sem á að njóta sjóðsins.

Þó það snerti ekki það mál, sem nú er á dagskrá, þá vil ég gera dálitla aths. við það, sem hæstv. forsrh. sagði um leiðirnar til fjársöfnunar í umr. um næsta mál á undan — Fiskveiðasjóðinn. Hann sagði, að það væri ekki um nýja leið að ræða í þessu frv., því að þegar Ræktunarsjóðurinn var stofnaður, þá hefði landbúnaðurinn verið skattlagður með ½% útflutningsgjaldi. Þetta er að vísu rétt, en þó aðeins hálfur sannleikur, því að þetta ½% útflutningsgjald til Ræktunarsjóðs var lagt á báða aðalatvinnuvegina. Þetta ½% útflutningsgjald af sjávarafurðum til Ræktunarsjóðs átti að standa um ákveðið árabil, þangað til sjóðurinn væri orðinn 3 millj. kr. Skyldu báðir atvinnuvegirnir háðir sömu skattkvöð til Ræktunarsjóðs unz því marki væri náð. Hér er því í þessu frv. farin önnur leið. Hefði hæstv. forsrh. getað sagt, að landbúnaðurinn hefði einn borið þessa skattkvöð til Ræktunarsjóðs, þá gat ég verið sammála honum um, að hér væri um samræmi að ræða. En frá sjávarútveginum kom vitanlega mestur hlutinn í Ræktunarsjóð. Og nú er lagt til, að sjávarafurðir verði sérstaklega skattlagðar til Fiskveiðasjóðs. Hér er svo mikill mismunur, að samanburður á gjaldskyldu atvinnuveganna til þessara tveggja sjóða getur ekki staðizt nema að hálfu leyti. Tvö frv. eru fram komin í Nd., sem fara fram á aukin útgjöld af sjávarafurðum, annað til Flugmálasjóðs og hitt til Fiskveiðasjóðs. — En það er dálítið kynlegt, að sá þingfulltrúi, sem bezt þekkir til þeirra hluta, er snerta síldarafurðir, hann flytur í Ed. frv. til lækkunar á útflutningsgjaldi af síld og heldur því fram, að það sé nú þegar of hátt, og það held ég að sé alveg rétt. Hér er farið fram á að hækka útflutningsgjald af öllum sjávarafurðum; og svo er verið að réttlæta það með því, sem ekki eru nein rök, þegar nýjum sköttum er hlaðið ofan á gamla, háa skatta — þá er sagt, að nýju skattarnir séu svo litlir, að þeirra gæti ekki. Þetta sannar ekkert, hvað atvinnuvegurinn þolir, en svo má lengi að vera, með smáum álögum í hvert sinn, að þau verði óbær að lokum; safnast þegar saman kemur. Þetta ætti hv. 1. þm. S.-M. að kannast við. Með þessu frv. eru allar sjávarafurðir skattlagðar, t. d. síldarmjöl, fiskiúrgangur og fiskimjöl, hvað þá annað. Nú er hár tollur á fiskimjöli, og þær verksmiðjur, sem reka þennan iðnað, bera þegar of háa skatta, þó að ekki séu lagðar hömlur á hinn nýja atvinnurekstur þeirra með viðbótarsköttum á útfluttar afurðir frá þeim.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því, að hv. flm. hafi sagt í ræðu sinni, að hann vonaðist eftir, að við gerðum ekki svo mikinn ágreining út af hækkun útflutningsgjaldsins, að við létum þetta mál stranda á því. En vilji hann sjálfur stuðla að því, að málið strandi ekki, þá ætti hann að framfylgja því, að það væri leyst á réttlátlegum grundvelli. Ég vona, að hv. flm. og hv. 4. þm. Reykv. haldi svo vel á þessu máli, að þeir taki ekki þá afstöðu að segja, þó að einhverjir verði á móti þeirra stefnu, að málinu sé hleypt í strand. Það er fyrirfram sýnilegt, að það fá ekki allir sínum vilja framgengt í þessu máli fremur en öðrum.