20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég átti auðvitað við, að ef frv. yrði samþ., væru laun farkennara komin í svo sæmilegt horft, að barátta fyrir frekari hækkun mætti teljast vonlaus um nokkur ár, og að hv. þm. gæti haft sér til huggunar, að í þeirri baráttu ætti hann sigurinn vísan. Þeir, sem vilja halda launum niðri, standa að öllum jafnaði betur að vígi en hinir, sem vilja hækka þau, og séu launin, sem um er að ræða, sæmileg, má hækkun teljast ókleif, vegna tregðu hv. þingmanna, þegar um fjárútlát úr ríkissjóði er fjallað.

Út af þeirri spurningu, sem hv. þm. beindi til mín, vil ég spyrja hann aftur, hvort hann sé orðinn hreppstjóri, eða ætli sér að verða það. (MJ: Þá væri hann nú kominn að kjötpottinum).