16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég var staddur inni í hv. Ed. þegar mér bárust boð um það, að hv. þm. N.-Þ. óskaði, að ég hlustaði á mál hans. Varð ég með ánægju við þeim tilmælum, því að hann er ræðumaður góður og kann að fara með móðurmálið, svo að aðrir gera ekki betur. Hitt er annað mál, að svo virðist sem hann geti farið með næsta fáránlegar hugmyndir. Á ég þar einkum við þær skoðanir, er hann hafði á því, hvern rétt hv. Ed. hefði um meðferð fjárl. Virtist hv. þm. helzt líta svo á, að um þau ætti hv. Nd. ein öllu að ráða. Svo var að heyra, sem honum þætti það höggva nærri því að vera stjórnarskrárbrot, að hv. Ed. breytir fjárlagafrv. frá því, sem einstakir þm. í þessari d. vilja helzt vera láta. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt, enda hefir Ed. enga tilraun gert til að kúga Nd. í þessu efni, og hefir alls enga aðstöðu til þess. Af þessum ástæðum er því ekkert á móti því, að þessi d. gangi nú að frv. eins og það er samþ. í Ed., einkum þegar þess er gætt, hve litlar breytingar hún gerði á því. Ég sé enga ástæðu til að hefja stríð á milli þingdeildanna út af því, hvort einhver, sem fær bitling, heitir Pétur eða Páll, eða einhverju öðru nafni. En um þessháttar smámuni sýnast helzt vera skiptar skoðanir milli Ed. og Nd. Annars sé ég ekki ástæðu til að dvelja lengi við þetta atriði. Meiri hl. hv. Nd. ræður auðvitað til fulls, hvað hann gerir við fjárlagafrv.

Út af öðru atriði í ræðu hv. þm. N.-Þ. vildi ég og segja nokkur orð. Hv. þm. hefir lesið hér upp áskorun um að greiða til Páls Torfasonar 10 þús. kr., og hafa undir þessa áskorun skrifað margir hv. þm., ég hygg meiri hluti þings. — Í þessari áskorun er að vísu ekkert um það sagt, hvers vegna Páll Torfason á að fá þessa upphæð greidda, en ég býst við, að til þess sé ætlazt, að þetta sé greiðsla upp í það, sem hann telur sér vangoldið fyrir milligöngu við útvegun enska lánsins 1921. Ég geng út frá því, að þessi sé tilætlunin, þótt það komi hvergi fram skýrum orðum. Hv. þm. vildi fá svar frá mér um það, hvernig ég mundi verða við þessari áskorun. Ég vil þá fyrst geta þess, að í þinglok í fyrra fékk ég svipaða áskorun frá 24 þm. Mun þar hafa verið talað um að greiða hr. P. T. það, sem athugun sýndi, að honum væri vangoldið. Ég hefi lýst yfir því hér í hv. d. fyrir nokkru, að ég hefi ekki talið mér fært að greiða neitt eftir þeirri áskorun, því að það hefir reynzt öldungis óvíst, hversu mikið ætti að greiða, eða hvort yfirleitt væri skylt að greiða nokkuð. En samkv. áskorun þeirri, sem nú liggur fyrir, mun ég telja mér fært að greiða þær 10 þús. kr., sem þar er farið fram á. En þó mun ég setja skilyrði nokkur fyrir því. Aðalskilyrðið er það, að nú verði ekki gerðar frekari kröfur á ríkissjóð út af þessu máli. Ef ekki fæst loforð um það, er a. m. k. mikill vafi á því, að ég sjái mér fært að greiða nokkuð. Ég heimta ekki, að neitt loforð um þetta komi fram í þingdeildinni, en læt mér nægja, ef það kemur frá þeim, sem peningarnir renna til. Ennfremur má vera, að ég setji að auk einhver smærri skilyrði. Þykir mér vænt um, að hér var lesin upp áskorunin sjálf með nöfnum þeirra, sem undir hana hafa ritað, því að ég hafði hugsað mér að hafa það eitt skilyrðanna, að nöfnin kæmu fram í Alþt.