30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

32. mál, vegalög

Benedikt Sveinsson:

Ég tek til máls sem þingmaður míns kjördæmis. Ég hefi í nokkur ár flutt frv. um breytingar á vegalögum, og ég veit, að margir fleiri dm. hafa borið fram brtt. við þau, en ég ætla ekki að misbjóða þingsköpum svo, að fara að ræða um einstakar brtt. við þessa umr. Hinsvegar er nauðsynlegt, að hér komi fram eindregin kvörtun um það, að svo er sem að kasta tillögum sínum á glæ, að vísa þeim til hv. samgmn. Hún hefir í nokkur ár haft þann sið, að liggja á öllum frv. til breytinga á vegalögum og öllum brtt., skila þeim svo í þinglok og láta þær falla.

Ég hlýt að skilja þingsköpin svo, að það sé sjálfsagt að vísa til hverrar fastanefndar þeim málum, sem eru þess eðlis, að þau heyri undir þá nefnd. Þess vegna er ekki hægt að komast hjá því, að frv. þessu verði vísað til samgmn. Hinsvegar er þess að vænta, að flutningsmönnum frv. og brtt. renni til rifja að þurfa að halda sömu ræðuna þing eftir þing, með sama rökstuðningi, sem allir viðurkenna, að sé réttur, um alveg sjálfsagðar og stórnauðsynlegar breytingar á vegalögum, en svo er þeim öllum kastað í körfuna að þinglokum og héruðin fá enga rétting sinna mála.

Það er engin afgr. hjá hv. n. að draga þessi brýnustu nauðsynjamál héraðanna þing eftir þing, hvert kjörtímabilið af öðru, með vöflum og vífilengjum, skila nefndaráliti, að nafninu til, í þinglok og varpa svo öllu til stjórnarinnar, eða til vegamálastjóra. Vegamálastjóri er aðeins ráðunautur stjórnarinnar, en hann er ekki settur yfir þingið. Það er rangt og ónærgætið að gera ráð fyrir því, að einn maður viti betur en 42 alþingismenn samanlagt, hvar vegir eiga að liggja um gervallt Ísland. Ég get ekki tekið undir slíka fjarstæðu.

Ég heyrði, að formaður samgmn. lofaði lipurð sína og nefndarinnar. Veit ég, að hugur hans muni góður, en ekki sætti ég mig við þær till. hans eða vilyrði, er hann kvaðst vilja koma að 2–3 umbótum á hverju þingi. Hann hefir ekki komið einni einustu fram árum saman og ekki heldur hv. fyrirrennarar hans. Hversu lengi á að reyna svo á þolrif og þolinmæði héraðanna og fulltrúa þeirra? Mér finnst ekki of mikið að mæla með 6 tillögum, eins og nefndin gerði í þinglok í fyrra. Ég vil því skora á hv. form. samgmn. að hann gangi ekki skemur nú en að hann hafi hælana þar sem hann hafði tærnar í fyrra. Ég sé ekki, hvað það þýðir að vera að tefja fyrir réttmætum og sjálfsögðum umbótum. Þrátt fyrir rökstuddar kröfur um mörg ár hefir engin leiðrétting fengizt á gömlum ójafnaði. Engu að síður verður nú víst að vísa málinu enn til samgmn. í því fulla trausti og með því skilyrði, að hún taki nú rögg á sig og afgreiði málið frá sér í tæka tíð, svo að frv. geti nú loks orðið að lögum á þessu þingi.